Hugleiðsla fyrir frið

Ég býð þér að taka þátt í fjörutíu daga hugleiðslu fyrir frið.

Við lifum á erfiðum tímum. Það sem er að gerast í heiminum snertir okkur öll. Við getum lagt okkar að mörkum til að skapa frið í kring um okkur með því að velja frið. að taka frið fram yfir ófrið, einn dag í einu, eitt orð í einu, eina hugsun í einu. Þetta er eins og við vitum, langt frá því að vera alltaf auðvelt. Friður er heimaverkefni fyrir allt lífið.

Fyrsta skrefið er að finna friðsæld með okkur sjálfum. Að finna leiðir til að njóta nærveru við veruna í okkur sjálfum, að eiga friðsæl samskipti við okkar eigin innri veröld. Lesa allan pistilinn hér.

Ég fór að hugleiða hvað ég gæti gert til að leggja mitt að mörkum og mig langar að bjóða öllum sem vilja taka þátt, í fjörutíu daga hugleiðslu fyrir friðsælt hjarta.

Dagleg hugleiðsla fyrir frið gefur okkur færi á að skapa friðsæld innra með okkur og senda frið og heilun þangað sem hennar er þörf. Við sköpum rými fyrir fegurð og frið og sjáum fyrir okkur að það sé mögulegt að skapa frið í heiminum.

Ana Holub sem er gyðingur og er þekkt fyrir starf sitt í þágu fyrirgefningar, sendi nýlega frá sér fallegan pistil sem ég vitna hér með í: “Ég grátbið okkur að sjá ALLT sem er mögulegt. Að finna djúpt, að syrgja, að vera reið, að vilja raunverulegar lausnir OG að skilja að hefnd er ekki svarið. STÖNDUM MEÐ FRIÐI. STÖNDUM MEÐ GJAFMILDI. Og það róttækasta af öllu – til að bræða burtu þessa eyðandi hringrás sem hjálpar engum og ekki jörðinni. FYRIRGEFUM. Við berjumst við hvert annað. Af hverju? Og við berjumst innra með okkur sjálfum. Þetta þarf að taka endi ef við ætlum að skapa nýjan og heilbrigðan heim þar sem við getum lifað saman í fegurð. Er það ekki þetta sem við viljum langflest okkar?”

Mig langar um leið að vekja athygli á söfnun UN-women á Íslandi til stuðnngs konum á Gaza. Og bjóða ykkur öllum að taka þátt. Hér er boð frá þeim: UN Women á Íslandi stendur fyrir neyðarsöfnun fyrir konur á Gaza og fjölskyldur þeirra sem búa við gríðarlegan skort og óöryggi. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að senda sms-ið KONUR í númerið 1900 (hvert sms kostar 2.900 kr. – gildir hjá Símanum, Hringdu og Nova). Einnig er tekið við frjálsum framlögum á reikning: 0537-26-55505, Kt: 551090-2489 og stökum styrkjum.

Hugleiðsla fyrir friðsælt hjarta

Hér að neðan er upptaka sem þú getur fylgt í hugleiðslunni. Það er enginn formáli í upptökunni, hún er bara leiðsögn sem þú getur notað þegar þú hugleiðir. Þú getur valið að hugleiða styttra eða lengra en upptakan eins og þú vilt og eins og tími þinn leyfir. Ég mæli með að byrja og enda hugleiðsluna með hendur á hjarta eða lófa saman fyrir framan hjarta og gefa þér rými til að finna og vera með þér. Í byrjun getur verið gott að setja ásetning fyrir hugleiðslustundina og í lokin geturðu tekið stund í að þakka líkamanum fyrir og að sjá fyrir þér að þú sendir frið þangað sem hans er þörf.

Þessi hugleiðsla er fullkomin fyrir byrjendur. Hún opnar fyrir meðvitund gagnvart önduninni og hún styrkir og nærir lungun.

Leiðbeiningar:

Augun / fókus: Sittu með krosslagða fætur eða í stól og með beint bak. Lokaðu augunum eða horfðu beint fram með augun 1/10 opin.

Handastaða: Settu vinstri höndina á hjartað, lófann flatan upp við brjóstið og fingurna lárétt við gólf – í átt til hægri. Hægri hendin er í Gyan mudra (fingurgómar vísifingurs og þumalfingurs snertast og hinir vísa beint upp). Lyftu hægri hönd upp til hægri við þig eins og þú værir að sverja eið. Lófinn snýr fram. Olnboginn slakur við síðuna.

Öndun: Einbeittu þér að önduninni. Andaðu meðvitað alla leið inn og alla leið út. Andaðu hægt og djúpt inn um nefið, lyftu brjóstinu og haltu loftinu inni eins lengi og þú getur. Andaðu þá frá, mjúkt, hægt og alveg út. Þegar þú hefur andað alveg frá, haltu þá loftinu úti eins lengi og þú getur.

Tími og lok hugleiðslu: Haltu þessari löngu djúpu öndun áfram í 3-31 mínútu. Ljúktu hugleiðslunni með því að anda djúpt og kröftugt inn 3svar sinnum. Slakaðu á.

Þegar þú heldur andanum eins lengi og þú getur inni eða úti er ekki átt við að gera það svo duglega að þú sért alveg að kafna eða í spennu á nokkurn hátt þegar þú andar aftur. Þú getur reynt að gera hana einu sinni í 3 mínútur. Eða 3svar sinnum í 3 mínútur og tekið 1 mínútu hvíld á milli í samtals 11 mínútur á meðan þú ert að byggja upp þol og venjast því að hugleiða. Fyrir lengra komna og þá sem vilja þjálfa einbeitingu og fylla sig af nýrri orku og æskukrafti er hægt að byggja tímann upp í 31 mínútu.

Flokkar

Nýjast

Birta

Birta

Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur....

Í sátt við það sem er

Í sátt við það sem er

Í jógafræðunum erum við með hugtakið Santosha - sem þýðir ánægja, að gera sér hlutina að góðu. Iðkun Santosha snýst um að rækta með sér þakklæti og að læra að meta það sem er. Hún gengur út á... Að horfa innan við girðinguna en ekki yfir hana. Að taka eftir hvað...

Vetrarendurnýjun

Vetrarendurnýjun

Á þessum dimmasta tíma ársins getur verið átak að halda í kraftinn og bjartsýnina. Við erum flest farin að þrá birtu og hlýju sólarinnar sem er aðeins farin að hækka á lofti. Á meðan getum við byrjað að undirbúa vorið með því að fyrirbyggja að orkuflæðið okkar...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.