Jóga er mitt akkeri

Stundum verða áföll til þess að við finnum nýjar leiðir. Ég fór að stunda jóga þegar ég var á erfiðum stað í lífinu þar sem mér fannst jörðinni hafa verið svipt undan mér. Strax í fyrsta tíma leið mér eins og ég væri að koma heim til sjálfrar mín. Ég fann nýja tengingu við líkamann og lærði að slaka á á dýpri hátt en áður. Á sama tíma var ég orkumeiri og sjálfstraustið jókst. Ég tengdi þetta við bætt samband við dýptina í mér, við kjarnann minn.

Fyrir 20 árum síðan tileinkaði ég mér þá venju að hugleiða daglega og þessi venja heldur mér í sambandi við kjarnann minn og gerir það auðveldara að höndla streitu.

Stuðningur er mikilvægur

Fyrir nítján árum síðan rættist gamall draumur þegar ég lærði að kenna jóga. Á meðan á náminu stóð fann ég líf mitt umbreytast. Dagleg iðkun gerði mig sterkari og jógaviskan studdi mig í að opna hugann fyrir nýrri sýn á sjálfa mig og lífið.

Eftir að náminu lauk hafði ég ekki lengur þennan stuðning sem námið og hópurinn veitti mér og fann hvernig gömul mynstur fóru að bæra á sér aftur. Ég var vissulega sterkari en ég fann að stuðningur er mikilvægur til að halda áfram að vaxa. Ég lærði markþjálfun og aðferð sem heitir Fókusing, sem kenndi mér að hlusta á líkamann og skilja betur hvernig mér líður. Ég fór að finna aukna mildi gagnvart sjálfri mér og mínum nánustu og lærði að vera til staðar fyrir mig á alveg nýjan hátt. Í gegn um þetta ferðalag hef ég lært að tengja við djúpan kjarna í sjálfri mér, sem man hvernig ég á að vera ég.

Gjöfin að gefa

Ég nýt þess að gefa þessar gjafir áfram og að styðja aðra í að öðlast sterkara samband við visku líkamans. Ég hef leitt yfir 160 nemendur í gegn um jógakennaranám sem er um leið djúpt umbreytingarferðalag. Ég kenni Fókusing, sem er dásamleg leið til að greiða úr flækjunum innra með okkur og finna lífinu farveg. Og ég tek á móti fólki í einkatíma fyrir bætta heilsu og takt í tilveruna

Umsagnir

„Það sem mér þykir einstakt við tímana hjá þér og við þig er hvað þú ert vandvirk, vel undirbúin og fróð. Einnig vil ég taka fram að hlýjan og nærveran sem stafar frá þér gerir það að verkum að ég finn að ég skipti máli sem manneskja, ég slaka á og felli grímuna.”

ÍRIS REYNISDÓTTIR – JÓGAIÐKANDI

„Þú hefur einstaka hæfileika til að draga okkur með þér inná við, sýna okkur inn í undraheim yoga-og hugleiðslufræða sem þú kannt manna best og það fer ekkert á milli mála að þau fræði eru þér hjartans mál sem skilar sér alla leið til okkar sem sitjum á móti þér.

ELMA BJARNEY GUÐMUNDSDÓTTIR

„Þú kennir og miðlar út frá langri persónulegri reynslu og djúpri þekkingu á jóga. Kennslan er fagleg en um um leið persónuleg, bæði vegna þinnar eigin löngu reynslu en líka vegna þess að þú mætir hverjum á þeim stað sem hann er og leiðbeinir samkvæmt því. Ég held að það byggi upp visst traust milli þín sem kennara og mín sem nemanda.”

GUÐRÚN GÍSLADÓTTIR

Lífið með augum líkamans

Lífið er alltaf tilbúið í næsta skref. Á eftir innöndun fylgir útöndun. Líkaminn veit hvernig hann á að stíga næsta skref. Hann man enn þá hvernig það er að taka lífinu fagnandi eins og barnið gerir. Eins og náttúran. Hann er náttúran.

Lífið sem við lifum hefur fært okkur fjær náttúrunni. Og þar af leiðandi fjær líkamanum og viskunni sem hann býr yfir. Það hefur aldrei verið meiri þörf en nú, fyrir leiðir sem minna okkur á að staldra við og hlusta. Þau verkfæri sem ég hef fengið í hendurnar á lífsleiðinni vinna mjög vel saman.

Ég býð þér að hafa samband og við getum fundið saman út úr því hvert væri gott næsta skref í átt að heilli heilsu og tilgangsríkri tilveru.

Nokkrir hlutir sem færa mér gleði

SKRIF

Skrif hjálpa mér að hlusta á hjartað og finna hvað skiptir mig máli. Ég nýt þess að setjast niður með tebollann minn og taka mér hlé frá hávaða heimsins og hlusta á hvísl lífsins innra með mér.

NÁTTÚRAN

Minn griðarstaður. Í útilegum er bíllinn fljótur að fyllast af steinum og jurtum til þerris. Ég þurrka jurtirnar og bý til te og smyrsl. Ég nýt þess að skapa í samvinnu við náttúruna.

FJÖLSKYLDAN MÍN

Barnabörnin mín halda mér ungri og minna mig á hvað það er dýrmætt að halda áfram að leika sér.

BÆKUR

Ég held mikið upp á bækurnar um kvenspæjarann ungfrú Ramotzwe í Botsvana sem kennir mér að taka lífinu ekki of alvarlega, að heiðra einfaldleikann og gömul gildi. Ég elska líka að lesa ljóð og ævintýri. Og auðvitað bækur um andleg málefni. Ég elska að læra nýja hluti.

Þjónusta í boði

Vorið kallar!

Jóga,jógaviska og uplyftandi hugarfar inn í vorið.

Æfingar sem endurnæra huga líkama og sál og byggja upp lífsorku. Vorið kemur með nýtt upphaf, ferska vinda og innblástur til að tileinka okkur heilbrigðan lífsstíl.

Æfingar sem endurnæra huga líkama og sál og byggja upp lífsorku. Jóga, djúp slökun og hugleiðsla.

6 vikna námskeið hefst 8. maí. Miðvikudaga kl 17
.

Einkatímar

Fáðu stuðning við að setja heilsu og góða líðan í forgang.

Heildrænt heilsuviðtal, hómópatía, markþjálfun, bowen, jógaþerapía, Fókusing.

Einkatímar og heildræn ráðgjöf sniðin að þínum þörfum. Hafðu samband og við finnum út úr því hvernig við getum best unnið saman.

Blómstraðu á breytingaskeiði

Netnámskeið sem hjálpar þér að endurnýja lífsorkuna,
sofa - og skilja betur breytingaskeiðið.

Fyrir konur sem sem leita náttúrulegra leiða fyrir aukna orku, hormónajafnvægi og góða heilsu. Og sem vilja gera eitthvað sjálfar til að létta á einkennum breytingaskeiðsins.

Skráðu þig á biðlista fyrir næsta námskeið

Hugleiðsla fyrir friðsælt hjarta

Allir geta lært að hugleiða. Hér er hugleiðsla til að prófa heima. Hún er um leið öndunaræfing. Nærandi stund með þér. Skráðu þig hér til hliðar og þú færð senda upptöku til að fylgja. Skráningunni fylgir aðgangur að fréttabréfinu okkar.