Að skapa frið í heiminum

Við lifum á erfiðum tímum. Það sem er að gerast í heiminum snertir okkur öll. Við getum lagt okkar að mörkum til að skapa frið í kring um okkur með því að velja frið. að taka frið fram yfir ófrið, einn dag í einu, eitt orð í einu, eina hugsun í einu. Þetta er eins og við vitum, langt frá því að vera alltaf auðvelt. Friður er heimaverkefni fyrir allt lífið.

Fyrsta skrefið er að finna friðsæld með okkur sjálfum. Að finna leiðir til að njóta nærveru við veruna í okkur sjálfum, að eiga friðsæl samskipti við okkar eigin innri veröld.

Fyrir nokkrum árum kynntist ég aðferð sem heitir Fókusing, sem hefur kennt mér á alveg nýjan og ferskan hátt að finna frið innra með mér. Ég uppgötvaði heim sem ég vissi ekki að ég ætti til. Ég lærði að skynja hvernig ég get verið með margar mótsagnakenndar tilfinningar og hugsanir í einu. Og hvernig ég get verið með öllu sem ég er án þess að útiloka hluta af sjálfri mér. Ég uppgötvaði að það voru þættir í mér sem voru í útlegð og aðrir sem sættu árásum og enn aðrir sem ráðast á og gagnrýna mig harðlega. En ég lærði líka að stækka þennan stað í mér sem getur verið til staðar fyrir alla þessa mótsagnakenndu parta af mér.

Ég lærði að hlusta af meiri alúð á annað fólk í kring um mig. Og að staldra við áður en ég svara. Að staldra við og hlusta áður en ég tek ákvarðanir, áður en ég tek afstöðu og áður en ég framkvæmi. Þegar ég staldra við stækkar heimurinn og allt sem ég er að upplifa rúmast í einu andartaki. Ef ég bíð og hlusta þá kemur framhaldið af sjálfu sér. Ég lærði að veröldin innra með mér er aldrei kyrrstæð. Þegar ég gef henni athygli fer hún að hreyfast, umbreytast og finna næstu skref. Eins og fræ sem spírar þegar réttar aðstæður skapast. Eins og svefninn sem kemur af sjálfu sér þegar hugurinn hættir að flækjast fyrir. Líkaminn geymir svo mikla visku fyrir okkur. Ef við bara gefum okkur tíma til að hlusta.

Þegar við stöldrum við og tengjum við líkamann þá erum við að skapa rými fyrir fersk og ný viðbrögð við aðstæðunum. Ekki þau sem við framkvæmum vanabundið. Við stækkum hæfileikann til að sjá skýrt og um leið hæfileikann til að vera til staðar fyrir aðra á einlægan og heilsteyptan hátt. Við getum gefið gjafir okkar og tekið á móti gjöfum annarra af heilum hug.

Ég býð þér að opna þína ævintýrakistu og kynnast heiminum innra með þér á ferskan hátt. Fókusing er dásamleg leið til að hlusta á sjálfan sig og aðra með forvitni og hlýju að leiðarljósi.

Flokkar

Nýjast

Birta

Birta

Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur....

Í sátt við það sem er

Í sátt við það sem er

Í jógafræðunum erum við með hugtakið Santosha - sem þýðir ánægja, að gera sér hlutina að góðu. Iðkun Santosha snýst um að rækta með sér þakklæti og að læra að meta það sem er. Hún gengur út á... Að horfa innan við girðinguna en ekki yfir hana. Að taka eftir hvað...

Vetrarendurnýjun

Vetrarendurnýjun

Á þessum dimmasta tíma ársins getur verið átak að halda í kraftinn og bjartsýnina. Við erum flest farin að þrá birtu og hlýju sólarinnar sem er aðeins farin að hækka á lofti. Á meðan getum við byrjað að undirbúa vorið með því að fyrirbyggja að orkuflæðið okkar...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.