Áföll og orkustöðvarnar

Flest okkar hafa orðið fyrir áföllum í lífinu. Nýlegar rannsóknir sýna að líkami okkar geymir erfiðar minningar. Hann vinnur úr sumum þeirra en hinar sitja eftir í taugakerfinu og bíða í hryggsúlunni eftir að réttar aðstæður myndist til að þær geti fundið sér farveg.

Hvernig getur jóga hjálpað? Jóga þýðir sameining. Samruni hugar, líkama og anda. Þegar við upplifum áfall er afleiðingin oft sú að við förum að skilja á milli hugar og líkama. Þetta er hluti af varnarviðbrögðum líkamans og hugans. Jóga getur hjálpað við að finna aftur samhljóm innra með okkur svo við förum að starfa meira sem ein heild. Það styður okkur í að hvíla í hreyfingunni og viðhalda meðvitaðri athygli. Það kennir okkur að finna hvernig okkur líður í líkamanum og hvernig við getum skapað kyrrð og friðsæld hið innra sem ytra.

Orkustöðvarnar eru ein leið til að vinna úr áföllum. Þær liggja dreift um líkamann og tengjast orkubrautum sem orkan okkar flæðir eftir. Meginorkustöðvarnar liggja meðfram hryggsúlunni. Með því að læra um þær og opna orkuflæði þeirra getum við unnið úr reynslu okkar og rifjað upp hvernig það er að vera í jafnvægi og innri kyrrð. Hér á eftir fylgir stutt umfjöllun um það hvernig áföll geta birst í fyrstu fimm orkustöðvunum.

Rótarstöðin er við rót hryggjarins og tengist lífsafkomu. Hún jarðtengir okkur og er lituð af því öryggi eða óöryggi sem við upplifðum í æsku og í tengslum við okkar nánasta umhverfi. Í byrjun ævinnar drekkum við í okkur viðhorf fólksins okkar og við höfum tilhneigingu til að halda áfram að sjá lífið í sama ljósi og þau þar til við náum að vinna úr þeim mynstrum sem mótuðu okkur. Þá getum við farið að velja hvaða viðhorf þjóna okkur og hver ekki.

Önnur orkustöð tengist kynorku, sköpun og flæði. Margir eiga sögu um áföll sem tengjast því að mörk þeirra voru ekki virt á einhvern hátt. Sköpunargleði byggir á því að við getum gleymt okkur í andartakinu. Langvarandi streita getur valdið því að við missum áhugann á kynlífi og eða eigum erfiðara með að njóta þess að vera hér og nú.

Magastöðin er í kring um naflann og magann og tengist viljastyrk og sjálfstrausti. Fólk hefur tilhneigingu til að geyma áföll í magastöðinni. Áföllum getur fylgt tilfinning fyrir að hafa ekki vald í eigin lífi og að fyllast kvíða þegar aðstæður koma upp þar sem við upplifum stjórnleysi. Oft fylgir að eiga erfitt með að taka ákvarðanir.

Hjartastöðin tengist samkennd, óskilyrtri ást og sorg. Hún er sögð viðkvæmasta orkustöðin. Þeir sem ekki fengu skilyrðislausa ást í upphafi (sem á líklega við um okkur flest að einhverju leiti) og þeir sem misstu ástvin snemma á lífsleiðinni hafa mjög líklega byggt verndarveggi utan um hjartastöðina og geta átt erfitt með að treysta öðrum og sýna sjálfum sér mildi og samkennd.

Hálsstöðin tengist tjáningu. Ef við fengum ekki rými til að tjá okkur frjálst þá geta myndast stíflur í hálsstöðinni. Það gæti lýst sér í ótta við að tjá sig opið eða að eiga erfitt með að biðja um stuðning frá öðrum.

Kundalini jóga er sérstaklega gagnlegt þegar kemur að áföllum og streitu. Þeir sem stunda það reglulega tala um miklar breytingar á orkuflæði og líðan. Ekki síst þeir sem hafa upplifað áföll. Meðal þess sem gerir Kundalini jóga svona gagnlegt eru taktfastar hreyfingar, endurnærandi öndun og öndunaræfingar, hugleiðsla, möntrur og sú djúpa slökun sem fylgir iðkuninni.

Á námskeiðinu Lífið í jafnvægi – ferð um orkustöðvarnar förum við djúpt í hverja orkustöð og vinnum í að koma jafnvægi á hverja og eina þeirra.

Flokkar

Nýjast

Að vingast við streitu

Að vingast við streitu

Dauðsföll, áföll og erfiðir vinnufélagar eru streituvaldar sem við getum ekki ráðið við. En svo eru aðrir streituvaldar sem við getum unnið með. Eins og viðhorf, venjur og viðbrögð okkar í daglegu lífi. Flest vandamál sem við glímum við, hvort sem það eru veikindi eða...

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Oft hef ég séð það í hyllingum að komast í frí og geta loksins sofið og hvílt mig almennilega. En oftar en einu sinni hefur svefninn versnað til muna eða að minnsta kosti ekki batnað eins og vonir stóðu til. Ég var lengi að átta mig á því að þetta væri ekki tilviljun....

Birta

Birta

Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur....

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.