Að virkja uppsprettu lífsorkunnar

Gott jafnvægi, seigla í lífsins ólgusjó, gleði og sátt. Friðsælt hjarta. Öll viljum við höndla hamingjuna þó ekki sé nema einstaka sinnum inn á milli. Það er svo margt sem hefur áhrif á það hvort okkur líður vel og hvernig okkur gengur að takast á við álag og erfiðu kaflana í lífinu.

Þegar ég fór fyrst að stunda kundalini jóga þá fann ég mjög fljótt aukið sjálfstraust og innri styrk. Ég tengdi þessa breytingu við tilfinningu fyrir að tilheyra einhverju stærra en ég. Ég upplifði aukið orkuflæði í líkamanum og mér fannst ég fá samband við kjarnann í sjálfri mér, miðjuna, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þungamiðja líkamans er í naflanum og þar fáum við aðgang að orkuuppsprettunni okkar. Þegar ég fór að vinna með þetta samband við naflann og að styrkja miðjuna færðist jörðin nær og heimurinn stækkaði. Ég fór að finna fyrir seiglu og stöðugleika. Lífið stækkaði og varð dýpra.

Í jóga tölum við um naflann eða naflapunktinn. Í austrænum bardagalistum er talað um Tan Den eða Hara sem merkir hafsjór af orku. Megingjörð, belti Þórs gaf honum yfirnáttúrulegan styrk. Í jóga er talað um að við sækjum kraftinn okkar í naflapunktinn. Ef við ætlum að beita okkur rétt og hlýða lögmálum líkamans þá er mikilvægt að eiga samband við naflann. Allar orkubrautir líkamans liggja þarna í gegn. Gott jafnvægi í naflanum hefur áhrif á allt orkuflæði líkamans. Í móðurkviði fáum við næringu í gegn um naflastrenginn. Þegar klippt er á hann missum við sambandið við þessa mikilvægu orkuuppsprettu. Það má segja að naflinn sé ósýnilegt líffæri sem hefur alltaf verið innra með þér. Kjarni sem stækkar ef þú sýnir honum athygli. Þessi orkuuppspretta er sofandi nema þú virkir hana.

Naflinn er hluti af þriðju orkustöðinni. Hún tengist sjálfstrausti og innri styrk. Og hæfileikanum til að melta. Ef hún er í ójafnvægi getur það til dæmis birst í fullkomnunaráráttu og tilhneigingu til að vantreysta sjálfum sér og í sjálfsgagnrýni. Lágt sjálfsmat, erfiðleikar við að taka ákvarðanir, þörf fyrir að stjórnast í öðrum eða þegar við leyfum öðrum að stjórna okkur eru allt merki um ójafnvægi í þriðju orkustöð.

Við erum öll miðja alheimsins. Kjarninn í okkur er aðeins til sem hluti af stærri heild og stærri heild er aðeins til sem hluti af kjarnanum. Þetta er leyndardómur sem ekki er hægt að leysa. Aðeins að upplifa.

Ég býð þér að taka þátt í ferðalagi í gegn um orkustöðvarnar. Við gefum okkur rými til að tengjast hverri orkustöð og finna jafnvægið sem býr í hverri og einni þeirra. Við virkjum okkar innri styrk og finnum lífsorkunni farveg í gegn um líkama, huga og tilfinningar. Við gerum jóga, hugleiðum og förum í djúpa slökun. Námskeiðið “Lífið í jafnvægi” hefst miðvikudaginn 13. september. Allir velkomnir, vanir og óvanir jógaiðkendur. Og hægt að taka þátt hvar sem þú ert á landinu. Val er um að mæta á staðinn, í Síðumúla 15, eða taka þátt í gegn um Zoom.

Flokkar

Nýjast

Augu líkamans

Augu líkamans

Það eru til ótal margar bækur um orkustöðvarnar. Margir listar yfir það hvað tilheyrir hverri orkustöð. En þær segja þér ekki hvernig þú skynjar lífið. Ef þú vilt koma jafnvægi á þínar eigin orkustöðvar þá þarftu að fara inn á við og upplifa. Að tengja við lífið sem...

Áföll og orkustöðvarnar

Áföll og orkustöðvarnar

Flest okkar hafa orðið fyrir áföllum í lífinu. Nýlegar rannsóknir sýna að líkami okkar geymir erfiðar minningar. Hann vinnur úr sumum þeirra en hinar sitja eftir í taugakerfinu og bíða í hryggsúlunni eftir að réttar aðstæður myndist til að þær geti fundið sér farveg....

Nærandi súpa fyrir naflastöðina

Nærandi súpa fyrir naflastöðina

Naflastöðin eða þriðja orkustöðin tengist viljastyrk og krafti, sjálfstrausti og innri umbreytingu. Hún hýsir hæfileikann til að melta. Bæði matinn sem við borðum og það sem við upplifum í lífinu. Eldur er frumefni þriðju orkustöðvarinnar. Við þurfum eld til að melta...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.