Vermandi vetrarsúpa

Veturinn er tilvalinn tími til að fara inn á við og hlaða batteríin. Samkvæmt Ayurveda er þetta tími til að byggja upp kjarnann okkar, eðlislæga hreysti og æskuljóma. Í Ayurveda er þetta kallað Ojas.

Þessi nærandi, létta og samt fyllandi súpa er rík af vítamínum og steinefnum og engiferið gefur henni vermandi eiginleika. Túrmerik er oft sagt vera undrakrydd en það þarf að borða það rétt til að það geri sitt gagn. Samkvæmt ayurveda er gott að neyta þess með fitu (hér erum við með kókosmjólk og ghee).

Fyrir 2-4

Innihaldsefni: 
2 msk kókosolía eða ghee
1 rifið engifer (uþb einn þumall að stærð)
1 tsk túrmerik
1 hvítlauksrif, niðurskorið
150g rauðar linsubaunir (skola fyrst tvisvar)
400ml dós af kókosmjólk
800ml grænmetiskraftur
2 stórar lúkur af spínati
2 litlir púrrulaukar (eða 1 stór)
Safinn úr 1-2 límónum
Salt og ferskmalaður svartur pipar eftir smekk

Aðferð
Hitaðu kókosolíuna eða ghee í stórum potti á meðalhita. Léttsteiktu engifer, túrmerik og hvítlauk í um 30 sekúndur. Bættu linsunum út í, steiktu þær í um 1 mínútu og hrærðu vel í á meðan svo þær festist ekki við botninn. Þetta hjálpar til við að koma í veg fyrir loftmyndun af linsunum.
Bættu kókosmjólkinni út í og grænmetiskraftinum og sjóddu með lokinu á í um 15-20 mínútur þar til linsurnar verða mjúkar.
Bættu spínatinu út í og niðurskornum blaðlauknum. Sjóddu án loks í tíu mínútur í viðbót.
Settu límónuna út í ásamt salti og pipar. (Fyrst 1 límónu og smakkaðu til. Ef þér finnst þörf á annarri límónu þá geturðu bætt henni við).

Berðu fram heitt með góðu brauði.

Flokkar

Nýjast

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Nýlega sendi ég út könnun til kvenna á póstlistanum mínum og á aðeins nokkrum dögum bárust 209 svör frá konum á öllum stigum breytingaskeiðsins. Svörin sýna sameiginlegan rauðan þráð og líka ótrúlegan fjölbreytileika. Og þau segja mér líka að margar konur eru að leita...

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Lífið er alltaf að breytast. Við verðum foreldrar, börnin okkar fara að heiman, við missum okkar nánustu, við missum vinnuna og þurfum að lifa í óvissu um óákveðinn tíma, við eldumst og þurfum að læra að hlusta á það. Í okkar menningu er ekki mikil áhersla á að kenna...

Með sand milli fingranna og frið í hjarta

Með sand milli fingranna og frið í hjarta

Ég nýkomin úr ferðalagi til Nice með dóttur minni og barnabörnunum. Það eru svo dásamleg forréttindi að fá að ferðast með sínum nánustu og njóta sælu og samveru. Ég nýt þess alveg sérstaklega að gleyma mér í leik með barnabörnunum mínum. Við áttum eina mjög nærandi...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.