Heilsan og fríið

Þegar 3ja ára barnabarnið mitt er í heimsókn í sveitinni þá lætur hann vita þegar hann er búinn að fá nóg af aksjón. Þá biður hann um að vera heima í rólegheitum með ömmu, jafnvel þegar hinir í fjölskyldunni eru að fara í ævintýraleiðangur. Hann veit hvað hann þarf. Næsta dag er hann tilbúinn í nýjar upplifanir. 

Það er svo dýrmætt að hlusta á þessa vitru rödd líkamans. Röddina sem svarar þegar við spyrjum:

👉 Hvað þarf ég núna?

👉 Hvernig get ég verið til staðar fyrir mig í dag?

👉 Hvernig get ég komið endurnærð út úr sumrinu – með innblástur fyrir veturinn?

Heilsan er eins og innri viska. Kraftur sem sprettur fram þegar við nærum hana og hlúum að henni. Hún er eins og andblær sem hreyfir lífið áfram, sem blæs lífi í nýjar hugmyndir og gleðiríkt líf. Ef heilsan missir ljómann þá verður lífið litlaust og andinn verður stefnulaus. 

Stundum tek ég eftir mörgum mótsagnakenndum röddum innra með mér. Hver með sínar þarfir og langanir. 

  • Stóra barnið sem vill ævintýri, sem elskar að leika sér og lifa lífinu.
  • Uppreisnarfulli unglingurinn sem vill fara sínar eigin leiðir og hlustar helst ekki á neinn. Hann vill fara seint að sofa og gleymir sér á samfélagsmiðlum. 
  • Vinnuþjarkurinn sem tekur helst ekki frí og finnst ég aldrei hafa gert nóg.
  • Og svo litla barnið – sem þráir öryggi, takt, næringu og hlýjan faðm sem hlustar og skilur.

Allar þessar raddir hafa eitthvað til síns máls. Það þurfa allir að fá hlustun á heimilinu. Þegar ég hlusta djúpt, skil ég samt að það er litla barnið sem þarf að fá að stýra taktinum. Eins og með heilsuna – hún krefst ekki bara að við séum dugleg, heldur líka að við hlustum.

Þegar ég fer í frí þá er stundum freistandi að setja daglegu hugleiðsluna mína til hliðar. Að borða ís alla daga og leyfa mér alls konar sem heilsan er ekki endilega sátt við. 

Litla barnið í mér er heilsan mín. Hún veit að ég þarf mikið af kyrrum stundum og blaktandi þögn. Og nærandi djúsí samverustundum. Tíma til að sprikla og sparka, skríkja og hjala. Til að vera og njóta. Þegar við viljum dekra við börnin okkar þá er ekki endilega best að hlaða í þau súkkulaði og hamborgurum. 

Eitt það besta sem ég gef sjálfri mér eru taktfastir dagar og dagleg stund í kyrrð og friðsæld með mér. Nóg af fersku sumargrænmeti og samverustundir með mínum nánustu.  

Heilsan okkar þarf alúð og umhyggju. Við fáum bara eitt líf. Eitt tækifæri til að lifa til fulls.

Hvað er það sem litla barnið í þér þarf í sumar?

Viltu lesa meira um hvernig þú getur nært lífsorkuna og fundið jafnvægi í gegnum öndun?
👉 Smelltu hér til að lesa pistilinn „Að lifa ríkulega“.

Flokkar

Nýjast

Af hverju er ég orkulítil þó ég sé að gera mitt besta?

Af hverju er ég orkulítil þó ég sé að gera mitt besta?

Þetta er algeng spurning... ...hjá konum sem eru að fara í gegnum breytingatímabil. Ekki síst þeim sem eru á - eða hafa lokið breytingaskeiði. Þær lýsa líkamlegum og tilfinningalegum einkennum sem oft virðast sundurlaus og erfitt að ná utan um. Þetta getur verið mjög...

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Nýlega sendi ég út könnun til kvenna á póstlistanum mínum og á aðeins nokkrum dögum bárust 209 svör frá konum á öllum stigum breytingaskeiðsins. Svörin sýna sameiginlegan rauðan þráð og líka ótrúlegan fjölbreytileika. Og þau segja mér líka að margar konur eru að leita...

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Lífið er alltaf að breytast. Við verðum foreldrar, börnin okkar fara að heiman, við missum okkar nánustu, við missum vinnuna og þurfum að lifa í óvissu um óákveðinn tíma, við eldumst og þurfum að læra að hlusta á það. Í okkar menningu er ekki mikil áhersla á að kenna...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.