Þegar heimurinn brennur

Við eigum öll okkar stundir og tímabil þar sem okkur finnst heimurinn vera að brenna. Þar sem okkur finnst að við verðum að gera eitthvað í málunum. Bara eitthvað. Streita getur kallað fram ástand innra með okkur sem er mjög líkt því sem gerist þegar það verða hamfarir. Langvarandi streita og áföll birtast í líkama okkar á svipaðan hátt. Líkami okkar gefur okkur þau skilaboð að það sé hætta á ferðum, að við verðum að vera í viðbragðsstöðu. Okkur fer að finnast það vera munaður sem við bara getum ekki veitt okkur þá stundina, að setjast niður og slaka á. Hávær rödd innra með okkur minnir okkur stöðugt á sig. „Nei þú mátt ekki slaka á. Það eru mikilvæg verkefni sem þarf að sinna.“

Þetta geta verið tímabil þar sem náinn aðstandandi er að glíma við veikindi eða þegar börnunum okkar líður illa. Eða þegar við erum að takast á við fjárhagserfiðleika. Langir listar af verkefnum þar sem eitt tekur við af öðru. Ástandið í heiminum getur líka kallað fram þessi viðbrögð. Kannski bara við að lesa þetta ferðu að finna fyrir því að líkaminn spennist upp. Ef það gerist mæli ég með að anda djúpt inn og alveg frá. Og svo aftur. Anda djúpt inn og alveg frá. Kannski finnurðu að það slaknar aðeins á spennunni.

Það eru einmitt þessar stundir, þessi álagstímabil sem við þurfum mest á því að halda að slaka á. Á okkar tímum er það í raun lífsnauðsyn að gefa sér rými til að endurnýja taugakerfið.

Ef þig vantar innblástur þá eru hér nokkrar tillögur:

🌿 Öndunaræfingar: Þegar við erum í streituástandi verður andardrátturinn oft grunnur og hraður, sem heldur okkur föstum í streituviðbragði. Með því að hægja á önduninni og taka nokkrar djúpar innöndunar- og útöndunaræfingar getum við sent líkamanum skýr skilaboð um að hættan sé liðin hjá. Prófaðu að anda inn í fjóra takta, halda andanum í fjóra takta og anda út í fjóra takta.

🌿 Útivera: Að vera úti í náttúrunni hefur róandi áhrif á taugakerfið. Ganga í skógi, að sitja úti í fersku lofti eða einfaldlega fylgjast með skýjunum á himninum getur hjálpað til við að lækka streitustig.

🌿 Skrifa tilfinningar niður: Stundum er höfuðið svo fullt af hugsunum að það hjálpar að setja þær niður á blað. Að skrifa niður það sem veldur okkur streitu getur hjálpað okkur að átta okkur betur á hvað við getum sleppt takinu á og hvað við þurfum raunverulega að takast á við.

🌿 Nota tónlist eða hljóð til að slaka á: Hæg tónlist, náttúruhljóð eða jafnvel það að humma lag fyrir sjálfa þig getur haft róandi áhrif á taugakerfið.

🌿 Hreyfing og mjúkar teygjur: Þegar streita safnast upp getur það hjálpað að hreyfa sig á rólegan hátt, hvort sem það er jóga, dans, göngutúr eða einfaldar teygjur til að losa spennu úr líkamanum.

🌿 Samtal við einhvern sem þú treystir: Að deila líðan sinni með góðum vini eða fjölskyldumeðlim getur létt á álagi. Stundum er nóg að láta einhverjum vita hvernig okkur líður til að streitan minnki aðeins.

Jógaiðkun og hugleiðsla eru hátt á mínum lista yfir það sem styður mig. Ef ég iðka reglulega þá fer líkaminn að þekkja betur það ástand sem skapast þegar ég slaka djúpt á. Ég öðlast dýpra samband við kjarnann í mér og taugakerfið mitt fínstillist. Ég sýni mér meira sjálfsmildi og verð meðvitaðri um hugsanir mínar og hvernig mér líður.

Til þess að þessar stundir verði að veruleika þarf ég að setja þær inn í dagskrána. Annars held ég áfram að fresta sjálfri mér. Þegar mér finnst heimurinn vera að brenna kallar það á bæði sjálfsmildi og sjálfsaga að gefa mér samt sem áður rými til að endurnærast.

Flokkar

Nýjast

Ertu að velja lífið á þínum forsendum?

Ertu að velja lífið á þínum forsendum?

Ég átti svo gott samtal við nokkrar konur sem eru á námskeiði hjá mér nýlega. Við ræddum um breytingaskeiðið, ekki sem hindrun heldur sem tækifæri til að finna sjálfa sig aftur og opna á nýja möguleika. Þetta er tími þar sem við erum ekki lengur með sömu ábyrgð og...

Teskeið af hvíld

Teskeið af hvíld

Þegar veturinn liggur yfir og náttúran er kyrr og friðsæl, þá finnst mér oft gott að hugsa um veturinn eins og kennara. Hann minnir mig á að hvíldin er ekki bara náttúrulegur fasi heldur líka nauðsynleg.  Alveg eins og jörðin tekur sér hlé og leitar inn á við til að...

Svefntruflanir í skammdeginu

Svefntruflanir í skammdeginu

Jólafríið á það til að setja okkur úr takti og trufla góðar venjur. Það getur verið áskorun að koma sér af stað og finna taktinn aftur í byrjun árs. Og þetta á ekki síst við um svefninn.  Svefninn truflast auðveldlega á breytingaskeiði. Ef þú ert að upplifa hitakóf og...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.