Teskeið af hvíld

Þegar veturinn liggur yfir og náttúran er kyrr og friðsæl, þá finnst mér oft gott að hugsa um veturinn eins og kennara. Hann minnir mig á að hvíldin er ekki bara náttúrulegur fasi heldur líka nauðsynleg. 

Alveg eins og jörðin tekur sér hlé og leitar inn á við til að endurnýjast, þá erum við kölluð til þess að gera það sama.  Við getum látið stutta daga og langar nætur minna okkur á að hægja á, að leita inn á við og hlúa að okkur sjálfum.

Eins og við vitum er þetta síður en svo auðvelt. Við lifum í heimi sem verðlaunar hraða og afköst og vantreystir hvíldinni. Hvíld er oft eitthvað sem við teljum okkur þurfa að eiga skilið, eitthvað sem kemur eftir að við erum búin að sinna öllu öðru sem liggur fyrir.

Ef ég rifja upp hvernig þetta var í minni fjölskyldu, þá áttum við einn stað þar sem allir tóku sér hvíld. Í sveitinni okkar. Þar var tími til að spila og njóta. Ég bý enn að því að hafa átt þessa tíma saman og að hafa átt svona greiðan aðgang að náttúrunni sem leiksvæði. 

Hvað er að hindra?

Þegar við missum sambandið við takt náttúrunnar, þá verður erfiðara að höndla stutta daga og langar nætur sem tilheyra þessum árstíma. 

Hvernig er þetta hjá þér?

  • Hvaða mynstur halda þér frá því að slaka á?
  • Hvernig hugmyndir og viðhorf?
  • Hvernig viðhorf hafði fólkið þitt til hvíldar þegar þú varst að alast upp? Var það eitthvað sem var eðlilegur þáttur í daglegu lífi?
  • Hvernig er þetta á þínum vinnustað?
  • Styður umhverfið þitt við hvíld?  
  • Færðu sektarkennd ef þú tekur þér hlé í amstri dagsins?

Að þjálfa sig í hvíld

Ég hef verið að reyna að þjálfa mig í því undanfarið að taka mér hlé nokkrum sinnum yfir daginn.

Ein mínúta fyrir mig.

Ég nota þennan tíma  til að horfa út um gluggann eða til að skanna líkamann og finna hvernig mér líður. Ef það er spenna í líkamanum, þá reyni ég að fara inn í miðjuna, inn í kjarnann og hlusta.

👉Hvernig andrúmsloft ríkir innra með mér?

Stundum tek ég eftir óþolinmæði. Eitthvað í mér sem vill tikka í box, komast í gegn um verkefnalistann. Ég reyni að taka eftir þessari röddi án þess að leyfa henni að taka yfir.

Stundum finn ég fyrir þreytu sem biður mig að taka hvíld.

Ég setti upp áminningu í símanum mínum. Því annars gleymist þetta. En það er líka áskorun að gefa mér þessa stund, sama hvað er í gangi þá stundina.

Þetta er mjög nærandi verkefni. 

Teskeið af hvíld

Hvað getur þú gert hér og nú til að finna smá hvíld í líkamanum? Jafnvel bara eina teskeið af hvíld.

  • Kannski taka djúpan andardrátt
  • Kannski stóran geispa
  • Kannski að loka augunum í nokkrar sekúndur
  • Kannski er nóg einfaldlega að segja:

💛 Ég leyfi mér að slaka á, án þess að finnast ég þurfa að eiga það skilið.

Flokkar

Nýjast

Sumarsamhljómur

Sumarsamhljómur

Nokkrar hugleiðingar um sumarið og gjafir sumarsins Sumarsamhljómur ... er þegar ég finn taktinn minn renna saman við takt náttúrunnar. Við verðum eitt. Náttúran hjálpar mér að finna – að skynja – líka það sem mér finnst vanta. Það sem ég sakna. Andstæðan við samhljóm...

Heilsan og fríið

Heilsan og fríið

Þegar 3ja ára barnabarnið mitt er í heimsókn í sveitinni þá lætur hann vita þegar hann er búinn að fá nóg af aksjón. Þá biður hann um að vera heima í rólegheitum með ömmu, jafnvel þegar hinir í fjölskyldunni eru að fara í ævintýraleiðangur. Hann veit hvað hann þarf....

Að lifa ríkulega

Að lifa ríkulega

Ef ég gæti gefið þér eitthvað dýrmætt þá væri það líf sem er ríkt af prönu, lífsorku. Prana er orð sem kemur úr sanskrít og merkir bæði öndun og lífsorka. Orkan sem bæði hugurinn og líkaminn nærast á. Prana er lífgjafinn þinn. Með næga prönu hefurðu hæfileikann til...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.