Þegar heimurinn brennur

Við eigum öll okkar stundir og tímabil þar sem okkur finnst heimurinn vera að brenna. Þar sem okkur finnst að við verðum að gera eitthvað í málunum. Bara eitthvað. Streita getur kallað fram ástand innra með okkur sem er mjög líkt því sem gerist þegar það verða hamfarir. Langvarandi streita og áföll birtast í líkama okkar á svipaðan hátt. Líkami okkar gefur okkur þau skilaboð að það sé hætta á ferðum, að við verðum að vera í viðbragðsstöðu. Okkur fer að finnast það vera munaður sem við bara getum ekki veitt okkur þá stundina, að setjast niður og slaka á. Hávær rödd innra með okkur minnir okkur stöðugt á sig. „Nei þú mátt ekki slaka á. Það eru mikilvæg verkefni sem þarf að sinna.“

Þetta geta verið tímabil þar sem náinn aðstandandi er að glíma við veikindi eða þegar börnunum okkar líður illa. Eða þegar við erum að takast á við fjárhagserfiðleika. Langir listar af verkefnum þar sem eitt tekur við af öðru. Ástandið í heiminum getur líka kallað fram þessi viðbrögð. Kannski bara við að lesa þetta ferðu að finna fyrir því að líkaminn spennist upp. Ef það gerist mæli ég með að anda djúpt inn og alveg frá. Og svo aftur. Anda djúpt inn og alveg frá. Kannski finnurðu að það slaknar aðeins á spennunni.

Það eru einmitt þessar stundir, þessi álagstímabil sem við þurfum mest á því að halda að slaka á. Á okkar tímum er það í raun lífsnauðsyn að gefa sér rými til að endurnýja taugakerfið. Jógaiðkun og hugleiðsla eru mjög góð leið til þess. Ef ég iðka reglulega þá fer líkaminn að þekkja betur það ástand sem skapast þegar ég slaka djúpt á. Ég öðlast dýpra samband við kjarnann í mér og taugakerfið mitt fínstillist. Ég sýni mér meira sjálfsmildi og verð meðvitaðri um hugsanir mínar og hvernig mér líður.

Til þess að þessar stundir verði að veruleika þarf ég að setja þær inn í dagskrána. Annars held ég áfram að fresta sjálfri mér. Þegar mér finnst heimurinn vera að brenna kallar það á bæði sjálfsmildi og sjálfsaga að gefa mér samt sem áður rými til að endurnærast.

Flokkar

Nýjast

Að vingast við streitu

Að vingast við streitu

Dauðsföll, áföll og erfiðir vinnufélagar eru streituvaldar sem við getum ekki ráðið við. En svo eru aðrir streituvaldar sem við getum unnið með. Eins og viðhorf, venjur og viðbrögð okkar í daglegu lífi. Flest vandamál sem við glímum við, hvort sem það eru veikindi eða...

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Oft hef ég séð það í hyllingum að komast í frí og geta loksins sofið og hvílt mig almennilega. En oftar en einu sinni hefur svefninn versnað til muna eða að minnsta kosti ekki batnað eins og vonir stóðu til. Ég var lengi að átta mig á því að þetta væri ekki tilviljun....

Birta

Birta

Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur....

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.