Bara líkaminn minn kann að loka augunum

Ég fékk dótturson minn í heimsókn um helgina. Hann er fjögurra ára og kann þá list að fylla heimilið af lífi. Þegar hann fer er eins og húsið bergmáli áfram af þessari lífsþyrstu gleði og syngjandi nærveru sem fylgir honum. Við gleymdum okkur í tímaleysi andartaksins og hann fór aðeins seinna að sofa en hann er vanur. Á sunnudagsmorguninn vaknaði hann svo fyrir allar aldir, tilbúinn í daginn. Ég, kannski ekki alveg eins tilbúin að spretta af stað og líka meðvituð um að hann þyrfti kannski aðeins lengri hvíld og stakk upp á að hann reyndi að loka augunum og sofa aðeins lengur. 

Hann gerði heiðarlega tilraun, en sagði svo: „Augun mín vilja ekki lokast. Bara líkaminn minn kann að loka augunum mínum. Ég get það ekki.“ 

Ég dáðist að þessari djúpu visku barnsins. Líkaminn þarf að fá að gera hlutina á sínum forsendum. Og mér varð hugsað til þess hvað við erum gjörn á að skauta framhjá þessari visku líkamans að láta ytri dagskrá ráða ferðinni sem aftur verður til þess að við erum stöðugt að stjórnast í líkamanum án þess að hlusta.

Við erum hætt að kunna að bíða

Við búum í samfélagi sem hefur misst tenginguna við það að bíða. Við viljum að hlutirnir gerist strax – líka það að finna ró.

→ Við reynum að hugsa okkur í svefn
→ Að plana okkur út úr streitu
→ Að stjórna líkamanum með viljastyrk

En ró, eins og svefn, er ekki eitthvað sem við getum stjórnað
Hún kemur þegar við leyfum líkamanum að finna sína leið.

Taugakerfið hlustar ekki á rök og reglur

Því meira sem við ýtum á líkamann að slaka á, þeim mun meira fer hann í mótspyrnu.
Taugakerfið hlustar ekki á rök eða viljastyrk. Það spyr aðeins einnar spurningar:
„Er ég örugg?“
Ef svarið er nei – þá heldur líkaminn áfram að vera á varðbergi, sama hversu þreytt þú ert.

Streita er form af ótta. Innbyggð hæfni líkamans til að lifa af þegar hann upplifir hættu eða ótryggar aðstæður.

Þegar þú nærð ekki að slaka á ferðu kannski að efast um sjálfa þig og getuna til þess að slaka á.

Nærvera og traust

Það sem hjálpar er ekki að „reyna meira“ — heldur að hlusta dýpra.. Við getum byggt upp traust í líkamanum með því að skapa okkur nýjar venjur sem taka líkamann með í reikninginn

→ Með einföldum og endurnærandi morgunvenjum
→ Með hreyfingu í vinsemd við líkamann 
→ Meðvituð öndun
→ Með því að hlusta á og mæta líkamanum í stað þess að stjórna honum

Þegar líkaminn finnur öryggi, getur hann sjálfur lokað augunum.

Ég sérhæfi mig í að styðja konur við að:

  • Finna ró fyrir taugakerfið
  • Bæta svefninn
  • Endurheimta orkuna

Ef þú ert forvitin um hvernig þú getur skapað venjur sem vinna með líkamanum – ekki gegn honum – þá ertu hjartanlega velkomin! Þú getur sent mér línu á heilsa (hjá) andartak.is. Við gætum byrjað á að hittast í stuttu spjalli til að kanna hvort við eigum samleið.

Flokkar

Nýjast

Að finna bragðið af lífinu

Að finna bragðið af lífinu

Í starfi mínu og í daglegu lífi hef ég lært að meta hversu dýrmætt það er að eiga stundir þar sem ég tengist líkamanum beint. Að finna það sem er hér og nú. Ekki það sem ég hugsa um það sem ég upplifi, heldur það sem ég skynja. Þetta er eitt það einfaldasta – og samt...

Nærandi grillmáltíð

Nærandi grillmáltíð

Nú er Verslunarmannahelgin framundan og þrátt fyrir rigningaspá finnst mörgum gott að kveikja á grillinu og njóta máltíðar saman. Grill þarf þó ekki endilega að þýða hamborgarar og pylsur – það getur líka verið skemmtileg leið til að elda grænmeti. Best er þegar við...

Villt viska og djúp hvíld

Villt viska og djúp hvíld

Hundurinn minn, hún Dimma, leikur á alls oddi hérna í sveitinni. Hún nýtur þess að hlaupa á eftir fuglum, vaða út í sjóinn og þefa í allar áttir. Ég skil hana svo vel – því mér líður aldrei betur en þegar ég er úti í villtri náttúru. Ég hef verið að hugleiða það...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.