Líkaminn er vitur vera – ertu að hlusta?

Flestar konur átta sig ekki á því að svefnvandi, tilfinningalegt álag eða stöðugt áreiti í taugakerfinu getur tengst því að treysta ekki líkamanum sínum.
Þetta vantraust á líkamanum á sér djúpar rætur – og er oft svo lúmskt að við sjáum það ekki einu sinni.

Ég hef oft reynt að hugsa mig inn í slökun.
Að strauja framhjá því sem ég fann – því það var ekki tími fyrir það.
Að gera eitthvað – hvað sem er – þegar ég fann fyrir kvíða, bara til að dreifa huganum.
Að rökræða við tilfinningar.
Að halda áfram að keyra mig áfram – því það var bara of mikið að gera til að hlusta.

Eins og svo margar konur, lærði ég að skauta framhjá líkamanum.
Að stjórna honum. Að ýta mér áfram. Að gera það sem mér fannst vera ætlast til af mér.
En ekki… að hlusta.

Þessi fjarlægð við líkamann getur sprottið upp úr ýmis konar jarðvegi:
Áföllum. Streitu. Þeirri venju í að hunsa hungur og þreytu.
Skilaboðum frá umhverfinu um hvernig við eigum að líta út eða haga okkur.
Megrunarkúrum. Eirðarleysi sem fær okkur til að borða fyrir hugann en ekki líkamann.

Þegar ég fór að gefa líkamanum mínum meira rými –
sá ég að ég var búin að deyfa niður þessa rödd innra með mér
Ég var orðin svo vön að ýta líkamanum til hliðar
…að ég tók ekki eftir skilaboðum hans.

Við lærum að líta á líkamann sem eitthvað sem þarf að laga:
Hann er of þreyttur, of tilfinningaríkur, of viðkvæmur, of þungur. Ekki eins og hann á að vera.
En þegar við förum að hlusta fram hjá þessum skilaboðum, fer eitthvað að opnast.

Því þetta vantraust hefur afleiðingar:
Við festumst í spennu, óöryggi, einangrun…
og förum að upplifa að við séum alltaf einhvers staðar fyrir utan okkur sjálfar.

En líkaminn er ekki vandamálið.
Hann er leiðbeinandinn.
Hvað ef þessi næmni sem þú finnur eða stöðug spenna í líkamanum er ekki veikleiki –
heldur vegvísir?

Hefur þú einhvern tíma upplifað að líkami þinn sé fyrir. Að hann sé óútreiknanlegur – eða að þú eigir erfitt með að treysta honum? Ég er forvitin að heyra hvernig þetta birtist hjá þér. Þú getur sent mér línu á heilsa (at) andartak.is

Ef þetta er eitthvað sem þú kannast við þá gæti þetta frá örnámskeið hjálpað þér að rækta sambandið þitt við líkamann. Það er sérstaklega fyrir konur á breytingaskeiði en gæti alveg gagnast þér þó þú sért ekki komin á breytingaskeið eða ef þú ert komin í gegnum það og ert enn að upplifa svefntruflanir. Ég deili þar náttúrulegum leiðum til að róa taugakerfið, sofa betur og draga úr hitakófi. Þú getur nálgast það hér: Svefntrulanir og hitakóf

Flokkar

Nýjast

Heilsan og fríið

Heilsan og fríið

Þegar 3ja ára barnabarnið mitt er í heimsókn í sveitinni þá lætur hann vita þegar hann er búinn að fá nóg af aksjón. Þá biður hann um að vera heima í rólegheitum með ömmu, jafnvel þegar hinir í fjölskyldunni eru að fara í ævintýraleiðangur. Hann veit hvað hann þarf....

Að lifa ríkulega

Að lifa ríkulega

Ef ég gæti gefið þér eitthvað dýrmætt þá væri það líf sem er ríkt af prönu, lífsorku. Prana er orð sem kemur úr sanskrít og merkir bæði öndun og lífsorka. Orkan sem bæði hugurinn og líkaminn nærast á. Prana er lífgjafinn þinn. Með næga prönu hefurðu hæfileikann til...

Kvíði á breytingaskeiði

Kvíði á breytingaskeiði

Kvíði er mjög algengur fylgifiskur á breytingaskeiði. Jafnvel hjá konum sem hafa ekki upplifað hann fram að því. Það sem áður var auðvelt getur núna virst óyfirstíganlegt. Eða þú ferð að hika og fresta hlutum. Hjartsláttur, spennutilfinning, óróleiki – sem virðist...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.