Þegar 3ja ára barnabarnið mitt er í heimsókn í sveitinni þá lætur hann vita þegar hann er búinn að fá nóg af aksjón. Þá biður hann um að vera heima í rólegheitum með ömmu, jafnvel þegar hinir í fjölskyldunni eru að fara í ævintýraleiðangur. Hann veit hvað hann þarf. Næsta dag er hann tilbúinn í nýjar upplifanir.
Það er svo dýrmætt að hlusta á vitru röddina í líkamanum sem svarar þegar við spyrjum. Að hlusta fram hjá því sem okkur langar og á það sem við þurfum. Hvað þarf ég núna? Hvernig get ég best verið til staðar fyrir mig í dag? Hvernig get ég haldið góðu jafnvægi?
Heilsan er eins og viska sem nærir okkur. Eins og kraftur sem sprettur fram þegar við þurfum á honum að halda. Eins og ferskur andblær sem hreyfir lífið áfram, sem blæs lífi í nýjar hugmyndir og gleðiríkt líf. Ef heilsan missir ljómann þá verður lífið litlaust og andinn verður stefnulaus. Flæðandi lífsorka er undirstaða að góðri heilsu. Jóga er dásamleg leið til að koma hreyfingu á lífsorkuna og finna jafnvægi milli kyrrðar og krafts.