Gerðu streituna að vini þínum

Hvernig gerum við streitu að vini okkar? Það má auðvitað segja að það sé kannski ekki mjög aðlaðandi tilhugsun að vingast við hana yfirleitt. Við fáum þau skilaboð daglega að streita sé óholl. Streita er skrýtið hugtak. Hún er sögð vera valdur að helstu heilsuvandamálum nútímamanneskjunnar. Og á sama tíma er hún ómissandi hluti af lífinu. Streita virkar nefnilega hvetjandi í hæfilegum skömmtum.

Streita er hluti af daglegu lífi okkar hvort sem okkur líkar betur eða ver. Hún er eins og dálítið uppáþrengjandi félagi sem eltir okkur á röndum og gefst ekki upp. Hún er komin til að vera. Og þá er kannski eins gott að hætta að forðast hana og læra að lifa með henni.

Við getum sagt að streita sé mælikvarði á það hversu mikið við teljum okkur ráða við aðstæðurnar sem við erum í. Ef okkur finnst ákveðnar aðstæður vera yfirþyrmandi og að við höfum ekki það sem þarf til að ráða við þær þá upplifum við streitu.

Það geta verið ýmsir þættir sem valda því að okkur finnst við ekki ráða við þær aðstæður sem við erum í. Lífsorka er kannski mikilvægasti þátturinn. Að hafa næga orku til að glíma við áskoranir lífsins. Lífsorkan sem við höfum til taks hverju sinni er afleiðing af samspili hugar, líkama og sálar.

Það er margt sem getur tekið frá okkur orku. Það býr til dæmis hávær gagnrýnisrödd innra með mér, sem getur virkað  yfirþyrmandi í miklu álagi. Oft án þess að ég taki eftir því. Um leið og ég verð meðvituð um hana þá verða hlutirnir aðeins auðveldari. Við erum öll með svona gagnrýnisrödd sem telur okkur trú um að við séum ekki nægilega sterk eða hæfileikarík eða sem laumar inn samviskubiti ef við ætlum að gera eitthvað fyrir okkur sjálf. Ef við samsömum okkur með þessari rödd þá er líklegt að við tökum ekki eftir henni. Og þá öðlast hún meiri mátt.

Streita tengist oft ofvirkum huga. Við getum orðið alveg ringluð og jafnvel ófær um að velja það sem nærir okkur eða setja mörk til að standa með okkur þegar hugurinn fer að tvístrast undir álagi. Áður en ég fór að stunda jóga gat svoleiðis ástand hæglega magnast upp í kvíða eða tilfinningu fyrir að vera ein í heiminum. Eða að ég missti mig í sykur og sælgætisát. Sem aftur setti meltinguna úr skorðum og ýfði upp taugakerfið. Ég glími stundum enn við tvístraðan huga undir álagi en nú hef ég reynsluna af leiðum sem ég get gripið til. Líkaminn minn man hvernig tilfinning það er að vera nærð og kyrr innra með mér. Svo ég er líklegri til að grípa í þær leiðir sem ég kann þegar þörf krefur. Best er ef ég næ að fyrirbyggja að fara á þennan stað. Regluleg iðkun er mín besta forvörn. Og góður skammtur af sjálfsmildi.

Ójafnvægi í huganum birtist í líkamanum og öfugt. Hugur og líkami speglast hvor í öðrum. Þegar við erum búin að borða yfir okkur verður líkaminn kraftlaus og við verðum þung í skapi. Léleg melting er ein af birtingarmyndum streitu og þá fer öll orkan í að reyna að melta. Þegar við fáum ekki útrás fyrir orkuna okkar, verðum við óþolinmóð og pirruð og þá náum við ekki að slaka á og finna frið. Streita dregur fram veikleika okkar. Jafnvægi er lykill að vellíðan.

Góðu fréttirnar eru þær að það er heilmargt sem við getum gert til að sækja okkur orku og til að finna henni farveg. Öndunin er ekki bara líflínan okkar heldur líka dásamlegur orkugjafi sem færir með sér kyrrð og friðsæld ef við lærum að beisla hana og virkja krafta hennar. Hreyfing er líka mikivæg þegar kemur að því að vingast við streitu. Og hugleiðsla getur stutt okkur í að bæta gæði hugans og hækka hann í tíðni.

Jóga- og hugleiðsluiðkun kennir okkur að vera ekki of trúgjörn á innihald hugans og þjálfar okkur í að eiga meðvitaðra samband við hugsanir okkar. Að stækka okkur svo við getum orðið vitni að hugsununum í stað þess að leyfa óstýrilátum huga að ráða ferðinni. Reynslan sýnir að þeir sem iðka jóga og hugleiðslu fara að sækja í heilbrigðari lífsstíl semhliða iðkuninni.

Námskeiðið Stærri en streitan hefst miðvikudaginn 10. janúar. Frír kynningartími 10. janúar. Allir velkomnir! Skráning í kynningartímann hér

Flokkar

Nýjast

Birta

Birta

Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur....

Í sátt við það sem er

Í sátt við það sem er

Í jógafræðunum erum við með hugtakið Santosha - sem þýðir ánægja, að gera sér hlutina að góðu. Iðkun Santosha snýst um að rækta með sér þakklæti og að læra að meta það sem er. Hún gengur út á... Að horfa innan við girðinguna en ekki yfir hana. Að taka eftir hvað...

Vetrarendurnýjun

Vetrarendurnýjun

Á þessum dimmasta tíma ársins getur verið átak að halda í kraftinn og bjartsýnina. Við erum flest farin að þrá birtu og hlýju sólarinnar sem er aðeins farin að hækka á lofti. Á meðan getum við byrjað að undirbúa vorið með því að fyrirbyggja að orkuflæðið okkar...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.