Vorið er tími töfra og umbreytinga. Náttúran kemur úr klakaböndum og köldum raka vetrarins og inn ilmandi vorið. Lífspúlsinn tekur kipp, jörðin fer að hlýna og grænir sprotar taka að teygja sig upp á móti ljósinu. Vorið býður okkur að vakna með sér.
Náttúran virðist eiga svo auðvelt með þetta en fyrir okkur manneskjurnar er það oft ekki eins áreynslulaust að taka á móti nýjum árstíðum. Ferðalagið úr vetri yfir í vor getur tekið sérstaklega á. Oft finnum við fyrir þunga og drunga eins og úrillur björn sem kemur hikandi út úr vetrarhýðinu.
Að aðlagast árstíðunum
Náttúran umbreytist við hver árstíðaskipti. Hvalir ferðast langar leiðir, fuglar fljúga heimshorna á milli til að laga sig að umskiptum árstíðanna. Laufin falla af trjánum og hver einasta lífvera gerir breytingar í lífsháttum sínum, dvalarstað og rútínu. Allar lífverur, nema maðurinn. Við förum bara í meiri föt eða fækkum þeim og hækkum eða lækkum hitann í ofnunum.
Verslanir bjóða upp á sama matinn allt árið um kring og hvetja okkur þannig til að borða eins, sama hver árstíðin er. Þetta væri óhugsandi í náttúrunni. Nýjustu vísindi benda til þess að ef við borðum fæði sem er úr takti við árstíðirnar og ekki síst við það að borða mikið af unninni matvöru, þá hverfi mikilvægar bakteríur úr meltingarflórunni.
Á veturna höfum við tilhneigingu til að borða og sofa meira, sitja inni og búa okkur þannig til vetrarkápu til að einangra okkur gegn kuldanum. Við verðum sólgin í þungan mat og sætmeti. Veturinn á það til að hanga í okkur fram eftir vori ef við gerum ekkert í því. Ef við lögum okkur ekki meðvitað að vorinu getur veturinn setið áfram í líkamanum. Vetrinum fylgir ákveðinn drungi, dofi gagnvart lífinu og það geta myndast stíflur innra með okkur. Orkuflæðið okkar getur farið skrykkjótt af stað og drunginn getur verið búinn að koma sér þægilega fyrir og verið tregur að standa á fætur.
Skortur á innra jafnvægi á vorin lýsir sér oft í því að við erum syfjuð með sljóan huga og jafnvel þunglynd. Því gæti líka fylgt aukið slím í lungum eða kinnholum, ógleði og vatnssöfnun eða þungi í útlimum. Svefninn getur truflast, orkan er oft í lágmarki og meltingin hæg. Ef við gerum ekkert til að aðlagast vorinu eigum við það á hættu að fá vorkvef og frjókornaofnæmi – eða við gætum fundið fyrir framtaksleysi og tilfinningaþyngslum.
Á vorin þurfum við að varpa af okkur vetrarkápunni og líkaminn gæti þurft stuðning við það. Við þurfum að hugsa sérstaklega vel um flæðið innra með okkur. Þegar við erum í jafnvægi finnum við styrk okkar og stöðugleika. Ég hef komið mér upp þeirri hefð að fara í hreinsun á vorin. Og kem út úr henni bjartsýnni og léttari í sinni. Ég á auðveldara með að einbeita mér að því sem máli skiptir og finna taktinn. Ég verð meira tilbúin að taka á móti krafti vorsins.
Náttúran býður okkur að aðlagast.
Vorið er tími til að fæðast upp á nýtt og njóta þess að sjá lífið vakna í kringum okkur. Tími til að sá fræjum og skjóta rótum svo við getum nærst í gegnum sumarið og haldið stöðugleika okkar. Þetta er upplagður tími til að hreinsa líkamann og sleppa því sem við þurfum ekki á að halda lengur og koma okkur upp nýjum siðum sem þjóna okkur og næra.
Með léttum breytingum í mataræði og lífsstíl getum við stillt okkur í takt við vorið
- Með þvi að borða léttari, ferskari fæðu
- Gönguferðir og jógaiðkun örva orkuflæðið og kyrra hugann.
- Að dvelja í náttúrunni, fá hreyfingu og anda að okkur fersku lofti
- Að kyrra hugann og tengja við takt líkamans.
- Að hugleiða hvað skiptir okkur máli og hvernig venjur við viljum skapa okkur. Hvernig innra ástand viltu rækta?
Stutt hreinsun á vorin getur stutt við lifur og meltingu, aukið orku og létt á huganum. Þetta verður sérstaklega mikilvægt eftir miðjan aldur. Ef þú hefur ekki gert það áður þá mæli ég með að gera það með stuðningi og leiðsögn.
Viltu stuðning við þinn vorfarveg?
Ef þú vilt fá persónulegan stuðning við að hreinsa út vetrardrungann, skapa þér góðar venjur eða rækta innri ró og kraft, þá býð ég upp á einkatíma þar sem við skoðum saman hvernig þú getur fundið þinn takt og jafnvægi.
Við getum byrjað á stuttu (ókeypis) spjalli til að kanna hvort við eigum samleið. Þér er velkomið að senda mér póst á heilsa(@)andartak.is eða senda mér fyrirspurn.
Vorið býður okkur að endurnýja orkuna okkar. Þegar við stillum okkur í takt við náttúruna, opnum við fyrir nýjan frið og nýja krafta.