Lífið er alltaf tilbúið í næsta skref

Breytingar eru óhjákvæmilegur hluti af lífinu. Við erum alltaf að takast á við breytingar. Stórar og smáar. Veðrið sem er sífellt að skipta um ham. Nýtt líf sem fæðist. Börnin okkar þroskast og stækka og verða að tilfinningaríkum unglingum. Við horfum á þau flytja að heiman og tökumst á við tómarúmið sem fylgir áður en við stígum inn í næsta kafla. Við horfum á okkar nánustu veikjast og deyja. Lífið heldur alltaf áfram og stöðvast ekki þó við myndum stundum vilja að það stæði í stað. Lífið er alltaf tilbúið í næsta skref. Á eftir innöndun fylgir útöndun.

Sumar breytingar eru erfiðari en aðrar. Við erum ekki alltaf tilbúin horfast í augu við það sem kemur næst. Streita hefur verið skilgreind sem tilraun líkamans til þess að höndla breytingar.
Líkaminn er svo vitur. Hann veit hvað hann þarf. Við hlustum bara ekki alltaf á hann. Ég á það til að fara fram úr sjálfri mér og ætla mér allt of mikið. Þá verður erfiðara að vera sveigjanleg í öllu öldurótinu sem lífinu fylgir. Ég þarf að minna mig á það daglega að halda í einfaldleikann. Að velja það sem færir mér aukið jafnvægi. Að henda því sem ég þarf ekki. Og að fylla ekki hugann af óþarfa upplýsingum. Þetta er síður en svo auðvelt í nútímahraða.

Þegar ég er búin að færast of mikið í fang þá finnst mér stundum heimurinn verða svo lítill og þröngur. Eins og að búa í gluggalausu húsi og enginn himinn í augsýn sem minnir mig á að anda og hlæja. Ég tek jafnvel ekki eftir þessu fyrr en ég fer út að ganga eða sest niður og hugleiði. Þá finn ég aftur jörðina undir fótunum og himininn sem hvelfist yfir og ég veit að ég er ekki ein.

Sveigjanleiki gagnvart breytingum er í raun eins konar viðhorf. Seigla. Að taka lífinu eins og það kemur fyrir. Að kunna að biðja um hjálp þegar það á við. Að taka hlutunum ekki of persónulega. Kolbeinn, dóttursonur minn kvartar ekki þegar hann dettur á rassinn. Hann bara stendur upp aftur. Möglunarlaust. Náttúran er oft svo miklu hugrakkari en ég. Fræið veit hvað það vill verða. Trén sleppa laufinu á haustin án þess að reyna að halda í sumarið.  Fossinn fellur fram af brúninni án þess að hika og sleppir sér út í óvissuna. Ef ég gef mér rými til að hlusta á líkamann þá finn ég að hann veit. Hann veit hvernig hann á að stíga næsta skref. Hann man ennþá hvernig það er að taka lífinu fagnandi eins og barnið gerir. Eins og náttúran. Hann er náttúran.

Lífið sem við lifum hefur fært okkur fjær náttúrunni. Og þar af leiðandi fjær líkamanum og viskunni sem hann býr yfir. Það hefur aldrei verið meiri þörf en nú, fyrir leiðir sem minna okkur á að staldra við og hlusta.

Flokkar

Nýjast

Ertu að velja lífið á þínum forsendum?

Ertu að velja lífið á þínum forsendum?

Ég átti svo gott samtal við nokkrar konur sem eru á námskeiði hjá mér nýlega. Við ræddum um breytingaskeiðið, ekki sem hindrun heldur sem tækifæri til að finna sjálfa sig aftur og opna á nýja möguleika. Þetta er tími þar sem við erum ekki lengur með sömu ábyrgð og...

Teskeið af hvíld

Teskeið af hvíld

Þegar veturinn liggur yfir og náttúran er kyrr og friðsæl, þá finnst mér oft gott að hugsa um veturinn eins og kennara. Hann minnir mig á að hvíldin er ekki bara náttúrulegur fasi heldur líka nauðsynleg.  Alveg eins og jörðin tekur sér hlé og leitar inn á við til að...

Þegar heimurinn brennur

Þegar heimurinn brennur

Við eigum öll okkar stundir og tímabil þar sem okkur finnst heimurinn vera að brenna. Þar sem okkur finnst að við verðum að gera eitthvað í málunum. Bara eitthvað. Streita getur kallað fram ástand innra með okkur sem er mjög líkt því sem gerist þegar það verða...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.