Nærandi grillmáltíð

Nú er Verslunarmannahelgin framundan og þrátt fyrir rigningaspá finnst mörgum gott að kveikja á grillinu og njóta máltíðar saman. Grill þarf þó ekki endilega að þýða hamborgarar og pylsur – það getur líka verið skemmtileg leið til að elda grænmeti. Best er þegar við getum bæði glett bragðlaukana og nært líkamann um leið.

Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna, kenna okkur að lifa í takti við okkar eigin náttúru og við umhverfið og árstíðirnar. Hér eru tvær uppskriftir sem fylgja þessum anda – með jafnvægi og gott bragð að leiðarljósi.

Grillaður maís með pestó

Þessi réttur er sérstaklega róandi fyrir þá sem eru með mikinn „eld“ í sér – hvort sem það birtist sem pirringur, óþolinmæði, brjóstsviði eða hitakóf.

Ef þú ert eldfim að eðlisfari eða með kröftuga meltingu getur þessi máltíð veitt kærkomið jafnvægi.
(Í Ayurveda kallast þetta Pitta – meira um það síðar.)

En uppskriftin hentar líka öllum sem vilja létta á meltingunni og hlúa að heilsunni.

Pestóið er bæði bragðgott og kælandi – fullkomið út á maís, salat eða grillað grænmeti.

Ghee er skírt smjör. Það er hægt að kaupa víða í búðum en þú getur líka notað í staðinn smjör eða olíu.

Innihald:

Maís

  • 4–6 maískólfar
  • Ghee (skírt smjör), brætt smjör eða ólífuolía
  • Salt

Pestó:

  • ¼ bolli hrá sólblómafræ, lögð í bleyti í 30 mínútur
  • ⅔ bolli ghee (skýrt smjör), sólblómaolía eða ólífuolía
  • 1 bolli ferskt kóríander
  • 1 bolli fersk mynta
  • 3 matskeiðar lime safi og 1 msk lime hýði
  • 2 vorlaukar
  • 1 msk hlynsíróp
  • Klípa af salti

Leiðbeiningar:

Taktu utan af maísnum, nuddaðu hann með gheei (skírðu smjöri), smjöri eða olíu og saltaðu hann. Settu hann beint á grillið eða undir ristina í 5-7 mínútur. Snúðu honum annað slagið svo hann grillist jafnt á öllum hliðum. Berðu fram með 1-2 msk af Pestó.

Pestó: Helltu sjóðandi heitu vatni yfir sólblómafræin og láttu þau liggja í bleyti í 30 mínútur (eða leggðu þau í bleyti yfir nótt). Síaðu vatnið frá. Ef þarf geturðu notað hluta af vökvanum. Settu öll innihaldsefnin í blandara og maukaðu saman. Bættu salti út í og smakkaðu til.

Kúrbítur og fennel á spjóti

Þessi réttur róar taugakerfið, örvar meltinguna og kemur jafnvægi á vindinn í líkamanum. Þessi eiginleiki er kallaður Vata í ayurveda. Of mikið Vata gerir okkur þurr og einbeitingarlaus og veldur því að við meltum matinn ekki eins vel. Kúrbítur og fennel fara vel saman og kryddað ghee gefur réttinum dýpt og hlýju.

Safaríkur kúrbítur og sætt kryddbragðið af fenneli fara vel saman og ferskur kóríander gerir réttinn kælandi á heitum dögum. Kryddað ghee eða olía gefur réttinum næringu og hlýju.

Innihald:

2 meðalstórir kúrbítar eða grasker
2 fennel (eða sellerírót – má blanda)
3 msk ghee, smjör eða olía
1 tsk kóríanderduft
1 tsk Dijon sinnep (má sleppa eða nota lime safa í staðinn)
Salt

Leiðbeiningar:

Bræddu ghee (eða smjör / olíu) á pönnu og bættu við salti og kóríander. Þegar kryddið byrjar að ilma, taktu þá pönnuna af hitanum og hrærðu sinnepið saman við. Settu til hliðar.

Skerðu kúrbítinn í ca 3 sm kubba og skerðu fennelið í fleyga eða báta eftir endilöngum stönglinum / rótinni og eða sellerírótinni.

Settu grænmetið út í kryddað gheeið / smjörið. Láttu það liggja í því í amk 30 mínútur til einn klukkutíma.

Þræddu bitana upp á grillspjótin, til skiptis kúrbít og fennel (eða kúrbít, fennel og sellerí). Grillaðu í um 7-10 mínútur. Þegar liturinn á kúrbítnum breytist yfir í skærgrænan og fennelið fer að mýkjast þá eru grillpinnarnir tilbúnir.

Þetta er matur sem nærir án þess að íþyngja.
Gerðu grillmáltíðina að tækifæri til að næra þig og þá sem þér þykir vænt um – bæði á líkama og sál.

Verði þér að góðu og góða helgi!

P.s. Ef þú vilt fá einföld og gagnleg verkfæri til að bæta svefninn, kyrra hugann og styrkja taugakerfið þá er ég einmitt að undirbúa frítt  námskeið um svefn, sem verður í ágúst. Þú getur sent mér línu hér ef þú vilt að ég láti þig vita þegar opnar fyrir skráningu.

Og ef þú misstir af síðasta pistli – eða vilt rifja hann upp – þá fjallaði hann um mikilvægi þess að næra skilningarvitin og tengja við líkamann.
👉 Smelltu hér til að lesa: Villt viska og djúp hvíld

Flokkar

Nýjast

Villt viska og djúp hvíld

Villt viska og djúp hvíld

Hundurinn minn, hún Dimma, leikur á alls oddi hérna í sveitinni. Hún nýtur þess að hlaupa á eftir fuglum, vaða út í sjóinn og þefa í allar áttir. Ég skil hana svo vel – því mér líður aldrei betur en þegar ég er úti í villtri náttúru. Ég hef verið að hugleiða það...

Hvernig er þín forgangsröðun?

Hvernig er þín forgangsröðun?

Hljómar þetta kunnuglega? ☐ Kaupa fisk og kartöflur í matinn ☐ Borga reikninga ☐ Senda hamingjuóskir til afmælisbarns dagsins ☐ Brjóta saman þvottinn ☐ Sækja börnin (eða barnabörnin) ☐ Elda kvöldmatinn ☐ Byrja á verkefninu sem er búið að sitja á hakanum ☐ Taka til ☐...

Sumarsamhljómur

Sumarsamhljómur

Nokkrar hugleiðingar um sumarið og gjafir sumarsins Sumarsamhljómur ... er þegar ég finn taktinn minn renna saman við takt náttúrunnar. Við verðum eitt. Náttúran hjálpar mér að finna – að skynja – líka það sem mér finnst vanta. Það sem ég sakna. Andstæðan við samhljóm...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.