Oft hef ég séð það í hyllingum að komast í frí og geta loksins sofið og hvílt mig almennilega. En oftar en einu sinni hefur svefninn versnað til muna eða að minnsta kosti ekki batnað eins og vonir stóðu til.
Ég var lengi að átta mig á því að þetta væri ekki tilviljun. Og að það væri heilmargt sem ég gæti gert til að bæta svefninn. Bæði heima og í fríinu. Meðal þess sem ég hef lært af mörgum andvökufríum og nokkrum góðum og endurnærandi fríum er að ég þarf að tileinka mér nýjar venjur sem styðja við svefninn. Því þær gömlu duga ekki lengur. Hér er smá innsýn inn í það sem hefur hjálpað mér við að finna mér leið inn í dýpri svefn. Heima og að heiman.
Frí er yfirleitt ferðalag. Og ferðalag raskar takti líkamsklukkunnar. Þetta taktleysi veikir meltinguna. Í fríinu verður freistandi að lifa í vellystingum og borða góðan mat. Sem er auðvitað dásamlegt. Og um leið er gott að muna að við þurfum líka að geta melt matinn til að geta notið hans. Annars fer meltingin að trufla alla okkar líðan.
Það gæti virst óþarfi að taka það fram en þegar við förum í frí þá tökum við okkur sjálf með. Það sem ekki hefur gefist tími til að hugsa um í öllu amstrinu fer stundum að dúkka upp þegar hugurinn fær rými til að breiða úr sér. Það hefur oft hjálpað mér að hafa dagbókina með og skrifa niður það sem er að brjótast um innra með mér og finna því þannig farveg.
Streita er ekki eitthvað sem dettur á gólfið um leið og við komumst í frí. Hún getur þurft aðstoð við að finna leiðina út úr líkamanum. Jóga, gönguferðir, sund og öll hreyfing hjálpar. Eins og líka dans, hlátur, leikur og sköpun. Þú átt örugglega þínar uppáhalds leiðir.
Hér eru nokkur atriði sem gætu hjálpað við að bæta svefninn í fríinu:
- Að viðhalda einhverri rútínu og reglu. Að fara ekki of seint að sofa og vakna á sama tíma flesta eða alla daga.
- Að fara í göngutúra og njóta þess að vera í náttúrunni
- Jóga, hugleiðsla og eða öndunaræfingar – og ekki verra að iðka úti í skógi, niðri í fjöru eða uppi á fjalli. Eða úti á palli.
- Að borða ekki of þungar máltíðir. Sérstaklega ekki á kvöldin
- Passa upp á blóðsykurinn og hafa ekki of miklar sveiflur á honum
- Helst að sleppa sykri eða draga að minnsta kosti verulega úr honum
Ég útbjó gagnlegan leiðarvísi fyrir konur á breytingaskeiði sem glima við svefntruflanir og hitakóf. Ef það er eitthvað sem þu kannast við þá getur þú sótt hann hér: Svefntruflanir og hitakóf á breytingaskeiði
Ef þú vilt stuðning við að koma þér upp nýjum venjum fyrir bættan svefn þá er velkomið að hafa samband: heilsa@andartak.is