Birta

Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur.

Hinir tveir eiginleikarnir eru Rajas og Tamas. Rajas er drifkraftur hreyfingar, virkni og ástríðu. Tamas stendur fyrir sinnuleysi, deyfð og óreiðu. Tamas og Rajas eiga sér líka sinn stað í tilverunni. Allt líf er blanda af þessum þremur eiginleikum, samkvæmt jógaheimspekinni. Gott líf byggir á góðu jafnvægi þeirra. Jafnvægi er meðal annars fólgið í því að sökkva ekki of djúpt í Tamas því þá verður svo mikið átak að lyfta okkur upp aftur.

Á þessum árstíma er oft búið að safnast fyrir mikið af Tamas í okkur. Veturinn og myrkrið gera okkur þung og værukær. Þegar vorið er handan við hornið getur verið átak að finna kraft og tilgang í tilverunni. Orkuflæðið er hægt í gang og við fáum frekar kvef og alls kyns stíflur. Við náum stundum ekki að taka á móti allri birtunni af heilum hug þar sem veturinn hangir enn í okkur og við erum orðin svo vön vetrarkápunni.

Til að finna Sattva; tærleika og friðsæld, þurfum við að byrja þar sem við erum. Við þurfum að ferðast í gegn um Rajas. Að hreyfa okkur til að finna kraftinn og eldinn innra með okkur. Að teygja á líkamanum og finna okkar eigin takt og fá þannig útrás fyrir staðnað orkuflæðið. Við þurfum að hlusta á þyngslin og gefa þeim færi á að finna sinn farveg. Þá fyrst getum við kveikt ljós og fundið friðsæld.

Jóga hjálpar okkur að finna þennan stað í okkur sem þráir lífið, sem elskar að vera til, sem skýtur út grænum sprotum af lífsorku. Í kundalini jóga iðkum við meðvitaða hreyfingu í takti við andardráttinn. Smátt og smátt kyrrast hugurinn og lífið verður bjartara. Jógaiðkun opnar fyrir löngun til að lifa ferskara og innihaldsríkara lífi. Og lífsstíll okkar og mataræði geta á sama hátt stutt við jógaiðkunina.

Eftir páska hefst námskeiðið Vorið kallar! Taktu á móti Vorinu með gleði í hjarta. Nánar hér

Flokkar

Nýjast

Í sátt við það sem er

Í sátt við það sem er

Í jógafræðunum erum við með hugtakið Santosha - sem þýðir ánægja, að gera sér hlutina að góðu. Iðkun Santosha snýst um að rækta með sér þakklæti og að læra að meta það sem er. Hún gengur út á... Að horfa innan við girðinguna en ekki yfir hana. Að taka eftir hvað...

Vetrarendurnýjun

Vetrarendurnýjun

Á þessum dimmasta tíma ársins getur verið átak að halda í kraftinn og bjartsýnina. Við erum flest farin að þrá birtu og hlýju sólarinnar sem er aðeins farin að hækka á lofti. Á meðan getum við byrjað að undirbúa vorið með því að fyrirbyggja að orkuflæðið okkar...

Vermandi vetrarsúpa

Vermandi vetrarsúpa

Veturinn er tilvalinn tími til að fara inn á við og hlaða batteríin. Samkvæmt Ayurveda er þetta tími til að byggja upp kjarnann okkar, eðlislæga hreysti og æskuljóma. Í Ayurveda er þetta kallað Ojas. Þessi nærandi, létta og samt fyllandi súpa er rík af vítamínum og...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.