Að finna bragðið af lífinu

Í starfi mínu og í daglegu lífi hef ég lært að meta hversu dýrmætt það er að eiga stundir þar sem ég tengist líkamanum beint. Að finna það sem er hér og nú. Ekki það sem ég hugsa um það sem ég upplifi, heldur það sem ég skynja.

Þetta er eitt það einfaldasta – og samt eitt það erfiðasta – sem ég veit:
Að vera til staðar í núinu.

Ekki í huganum. Ekki í öllum sögunum sem ég segi sjálfri mér –
um það sem gæti gerst,
um verkefnin sem bíða,
um það sem ég hefði átt að segja
um hvað ég ætti að vera að gera. 

Heldur í líkamanum.
Að upplifa heiminn í gegnum skynfærin.

Það er nefnilega aðeins í gegnum skynjun sem við getum raunverulega verið til staðar. Hugurinn dregur okkur stöðugt í fortíðina eða framtíðina. Þegar ég finn vindinn á húðinni eða anda að mér sumargolunni… Þegar ég hlusta með fullri athygli, þegar ég horfi og sé. Þegar ég finn bragðið af lífinu þá veit ég að ég er hér..

Núið er kraftmikill staður.
Kannski sá eini sem er raunverulegur.

Við erum svo fljót að fara fram úr okkur í huganum.
Tilfinningar geta líka tekið okkur út úr andartakinu. Þegar við ýtum undir þær í huganum. Með hugsunum eins og…
„Mér á ekki að líða svona…“ eða „Þetta er ekki sanngjarnt.“

Stundum týnum við okkur í tilfinningum. Og þá hættum við að finna þær.
Ég get orðið yfirþyrmandi sorgmædd yfir að vera sorgmædd. Og þannig horfi ég á sorgina í gegnum allar aðrar stundir þar sem ég var sorgmædd.
 

Ef þú hefur einhvern tíma reynt að vera alveg til staðar fyrir það sem þú upplifir þá veistu að það er sífellt að breytast. 

Hvert andartak er einstakt.
Það kallar á nærveru og forvitni.

Þegar við leyfum okkur að vera með tilfinningunni sem skynjun
– þá tekur líkaminn við

Það sem var erfitt verður auðveldara.
Það sem var óbærilegt getur jafnvel orðið forvitnilegt.
Og hugsanir sem virtust yfirþyrmandi geta farið að breytast, eða hverfa.

Þetta er æfing.
Einföld – en krefjandi.

Það sem stendur í vegi fyrir að við getum verið til staðar fyrir það sem við finnum er ólíkt hjá hverju og einu okkar.
Oft eru það hugsanir sem við erum orðin svo vön, að við tökum ekki einu sinni eftir þeim.

Þegar þú ferð að hlusta á líkamann af fullri athygli, þá opnast nýr og ferskur heimur innra með þér. 

Þetta er verkefni fyrir lífið. 
En með æfingunni verður auðveldara að mæta því sem er.
Streita finnur sér farveg. Lífið verður ríkara.

Þetta er einmitt eitt af því sem ég kenni – bæði á námskeiðum og í einkatímum:
Að þjálfa þennan vöðva.
Að hlusta á líkamann í forvitni og af alúð.
Að vera með því sem er.

P.s. Ef þú vilt kafa dýpra og finna þinn eigin takt á breytingaskeiði, þá býð ég þér í frítt 3 daga netnámskeið:
Bætt líðan á breytingaskeiði – finndu þinn takt
Dagana 7.–9. október kl. 17:30 á Zoom. Skráning hér

Ef þú misstir af sumarpistlinum með hugmyndum um grillað grænmeti og ferskar leiðir til að næra líkamann, þá geturðu enn fundið hann hér:
👉 Smelltu hér til að lesa: Nærandi grillmáltíð

Flokkar

Nýjast

Af hverju er ég orkulítil þó ég sé að gera mitt besta?

Af hverju er ég orkulítil þó ég sé að gera mitt besta?

Þetta er algeng spurning... ...hjá konum sem eru að fara í gegnum breytingatímabil. Ekki síst þeim sem eru á - eða hafa lokið breytingaskeiði. Þær lýsa líkamlegum og tilfinningalegum einkennum sem oft virðast sundurlaus og erfitt að ná utan um. Þetta getur verið mjög...

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Nýlega sendi ég út könnun til kvenna á póstlistanum mínum og á aðeins nokkrum dögum bárust 209 svör frá konum á öllum stigum breytingaskeiðsins. Svörin sýna sameiginlegan rauðan þráð og líka ótrúlegan fjölbreytileika. Og þau segja mér líka að margar konur eru að leita...

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Lífið er alltaf að breytast. Við verðum foreldrar, börnin okkar fara að heiman, við missum okkar nánustu, við missum vinnuna og þurfum að lifa í óvissu um óákveðinn tíma, við eldumst og þurfum að læra að hlusta á það. Í okkar menningu er ekki mikil áhersla á að kenna...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.