Að lifa ríkulega

Ef ég gæti gefið þér eitthvað dýrmætt þá væri það líf sem er ríkt af prönu, lífsorku. Prana er orð sem kemur úr sanskrít og merkir bæði öndun og lífsorka. Orkan sem bæði hugurinn og líkaminn nærast á. Prana er lífgjafinn þinn. Með næga prönu hefurðu hæfileikann til þess að lifa til fulls. Að lifa ríkulega. 

Prana nærir heilsuna og gefur þér líkamlega og andlega lífsorku. Hún styður þig í að vera skapandi. Að halda í jákvæðnina og sjá tækifærin. Hún er lykill að vídd óendanleikans innra með þér. Prana hjálpar þér að melta áskoranir lífsins. Þegar þú upplifir streitu þá er mikilvægt að hlúa að prönunni – næra lífsorkuna. Það eru til ýmsar leiðir til þess. Ein einfaldasta leiðin er að virkja andardráttinn. 

Víxlöndun

Andardrátturinn nærir allar frumur líkamans og er afar mikilvægur fyrir alla heilastarfsemi. Hér er öndunaræfing sem getur stutt þig í að finna jafnvægi í deginum

  1. Komdu þér fyrir í þægilegri stöðu, sitjandi á stól eða með krosslagða fætur.
  2. Notaðu þumal og baugfingur á hægri hendi (eða vinstri ef það hentar betur).
  3. Lokaðu vinstri nös með baugfingri og andaðu djúpt inn um hægri nös.
  4. Lokaðu svo hægri nös með þumlinum og andaðu út um vinstri nös.
  5. Andaðu djúpt inn um vinstri nös, lokaðu henni og andaðu út um hægri.
  6. Haltu áfram í 3–5 mínútur, eða þar til þú finnur fyrir innri ró og jafnvægi.

Þessi einfalda öndunaræfing getur verið góð byrjun á því að næra lífsorku og innri ró – sérstaklega í gegnum álagstímabil og þegar þú finnur fyrir kvíða eða orkuleysi. Það þarf ekki að vera langur tími – jafnvel örstutt stund þar sem þú tengir við líkamann getur skipt sköpum. Stund með þér þar sem þú tengir við líkamann og kemur  jafnvægi á taugakerfið.

Á breytingaskeiði verður líkaminn viðkvæmari fyrir áreiti. Þegar mikil orka fer í upplifun á streitu þá verður eftir minni orka fyrir friðsæld. Með einföldum verkfærum eins og meðvitaðri öndun getum við byggt hana aftur upp – skref fyrir skref.

Flokkar

Nýjast

Heilsan og fríið

Heilsan og fríið

Þegar 3ja ára barnabarnið mitt er í heimsókn í sveitinni þá lætur hann vita þegar hann er búinn að fá nóg af aksjón. Þá biður hann um að vera heima í rólegheitum með ömmu, jafnvel þegar hinir í fjölskyldunni eru að fara í ævintýraleiðangur. Hann veit hvað hann þarf....

Kvíði á breytingaskeiði

Kvíði á breytingaskeiði

Kvíði er mjög algengur fylgifiskur á breytingaskeiði. Jafnvel hjá konum sem hafa ekki upplifað hann fram að því. Það sem áður var auðvelt getur núna virst óyfirstíganlegt. Eða þú ferð að hika og fresta hlutum. Hjartsláttur, spennutilfinning, óróleiki – sem virðist...

Þegar verkefnin þrengja að

Þegar verkefnin þrengja að

Ég veit ekki með þig, en stundum líður mér eins og ég standi frammi fyrir stóru og nær ókleifu fjalli af verkefnum. Þegar þetta gerist fer ég að fresta – ýta hlutum á undan mér. Ef álagið er mikið, þá fæ ég á tilfinninguna að ég þyrfti helst að vera á fleiri en einum...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.