Þegar verkefnin þrengja að

Ég veit ekki með þig, en stundum líður mér eins og ég standi frammi fyrir stóru og nær ókleifu fjalli af verkefnum. Þegar þetta gerist fer ég að fresta – ýta hlutum á undan mér. Ef álagið er mikið, þá fæ ég á tilfinninguna að ég þyrfti helst að vera á fleiri en einum stað í einu. Þessu fylgir að mér finnst ég stöðugt vera að svíkjast um á einhverju sviði. 

Við upplifum streitu á mismunandi hátt. Ein kona sem ég talaði við lýsti sinni upplifun svona:

„Ég næ ekki að hvíla í því sem ég er að gera. Mér finnst alltaf eins og ég eigi að vera að gera eitthvað annað. Það er eins og hlutirnir þrengi að mér úr öllum áttum. Eins og ég sé að reyna að komast í gegnum herbergi fullt af hlutum sem hanga í loftinu. Það er ekkert pláss fyrir mig.“

Hún bætti við:

„Ég vakna á morgnana og finnst ég ekki alveg geta höndlað daginn. Suma morgna er meira rými – til dæmis um helgar eða ef ég náði að klára eitthvað mikilvægt daginn áður. Þá morgna hef ég meiri orku. Þá er auðveldara að vakna.“

Líkaminn veit oft hvað við þurfum – en stundum þurfum við samtal og speglun til að heyra það skýrt.
Með þessari konu uppgötvuðum við að það sem hún þurfti var að gefa sér rými – sérstaklega á morgnana.
Þegar hún byrjaði daginn þannig, fann hún að rýmið stækkaði. Hún gat forgangsraðað betur.
Verkefnin voru ennþá til staðar. En þau voru ekki alveg jafn yfirþyrmandi. Þau voru eins og aðeins lengra frá henni.

Þegar mér finnst verkefnahrúgan mín vera of stór, þá gerir það óendanlega mikið fyrir mig að gefa mér pláss – að taka mér andrými og búa mér til fjarlægð frá verkefnunum.

Þegar ég hlusta dýpra, þá finn ég að skýrleikinn liggur falinn undir hrúgunni. Hann var þarna allan tímann. Ég vissi hvað ég þyrfti – en ég bara heyrði það ekki fyrr en ég gaf mér tóm til að hlusta.

Við höldum oft að lausnin sé betra skipulag eða meiri sjálfsagi.
En stundum getur það breytt öllu að gefa sjálfri sér smá rými.
Jafnvel bara í stutta stund.

Morgunrútína þarf ekki að vera flókin.
Hún getur verið tebolli í kyrrð, stutt öndunaræfing, skrif eða létt hreyfing.
Eitthvað sem tengir þig aftur við sjálfa þig.

Því ef dagurinn þrengir að þér frá fyrstu stundu, nær taugakerfið þitt ekki að finna slökun.
Og ef taugakerfið er í yfirsnúningi – þá kemur hvíldin ekki, sama hversu þreytt þú ert.

Hvað gæti breyst ef þú byrjar daginn á því að gefa sjálfri þér örlítið pláss?

Ég skrifa reglulega um svefn, takt og hvernig við getum búið til meira pláss innra með okkur. Ef þetta talar til þín, þá finnurðu fleiri hugleiðingar hér á síðunni um svefn, daglegan takt og hvernig við byggjum upp rými og ró innan frá.

Flokkar

Nýjast

Af hverju er ég orkulítil þó ég sé að gera mitt besta?

Af hverju er ég orkulítil þó ég sé að gera mitt besta?

Þetta er algeng spurning... ...hjá konum sem eru að fara í gegnum breytingatímabil. Ekki síst þeim sem eru á - eða hafa lokið breytingaskeiði. Þær lýsa líkamlegum og tilfinningalegum einkennum sem oft virðast sundurlaus og erfitt að ná utan um. Þetta getur verið mjög...

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Nýlega sendi ég út könnun til kvenna á póstlistanum mínum og á aðeins nokkrum dögum bárust 209 svör frá konum á öllum stigum breytingaskeiðsins. Svörin sýna sameiginlegan rauðan þráð og líka ótrúlegan fjölbreytileika. Og þau segja mér líka að margar konur eru að leita...

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Lífið er alltaf að breytast. Við verðum foreldrar, börnin okkar fara að heiman, við missum okkar nánustu, við missum vinnuna og þurfum að lifa í óvissu um óákveðinn tíma, við eldumst og þurfum að læra að hlusta á það. Í okkar menningu er ekki mikil áhersla á að kenna...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.