Viska vetrarins og nýtt upphaf

Nýtt ár gefur tilfinningu fyrir nýju upphafi. Hreinum snjó sem við getum þrammað út í og markað ný spor. Við setjum okkur markmið um að verða betri en á síðasta ári. Að skrifa nýja sögu á þetta auða blað sem nýtt ár færir okkur.

Nýársheit eiga það stundum til að snúast um útlit og fullkomnun. Í menningu sem gefur okkur sífellt skilaboð um að við þurfum að gera meira og betur er mjög auðvelt að hallast í þá áttina. Ef við erum búin að strengja mörg áramótaheit sem við náðum ekki að standa við erum við kannski jafnvel búin að missa móðinn og gefast upp á að setja okkur markmið.

Endurnýjandi myrkur

Við sem samfélag höfum tilhneigingu til að lifa alltaf eins og það sé sumar. Að gera þá kröfu að við séum alltaf glöð og alltaf kappsfull.

Ef við horfum á náttúruna þá er veturinn tími þar sem náttúran liggur í dvala og undirbýr sig undir að vakna næsta vor. Og ef við hlustum á líkamann þá finnum við mögulega að hann þráir mest að gera það sama. Að skríða inn í hýði, hvílast og láta sig dreyma um hækkandi sól og með hlýju sem færir okkur kraft til að klífa tinda lífsins.

Nýtt ár er vissulega nýtt upphaf. En í  náttúrunni er þetta nýja sem er að myndast enn undir yfirborðinu. Núna þegar sólin byrjar að hækka á lofti er náttúran að undirbúa sig að hefja nýtt líf að vori. Við búum okkur undir að vaxa, en vöxturinn er ennþá ósýnilegur.

Markmið og sjálfsgagnrýni

Áramótaheit geta verið tvíbent. Þegar ég hef strengt nýársheit út frá einhverju sem mér fannst vanta, eitthvað sem mér fannst að ég þyrfti að laga eða breyta þá hefur það haft þau áhrif að þessi hluti af mér sem átti að breytast fór í uppreisn. Og ekkert breyttist.

Markmið sem byggir á sjálfsgagnrýni nær ekki alveg til mín og nær þar með ekki að festa rætur. Ef markmið mín eiga rætur sínar í sjálfsást og umhyggju fyrir sjálfri mér þá fá þau dýpri rætur. Eitthvað sem mig langar til að skapa mér er mun líklegra til að vaxa upp og blómstra. Og það hjálpar líka að markmiðið sé hæfilega stórt og geranlegt.

Að næra fræið í jörðinni

Veturinn er dýrmætur tími og hefur sinn sjarma. Ef við fylgjum takti náttúrunnar þá getur þetta verið tími til að hlaða batteríin, að fylla á tankinn. Að eiga samtal um og við draumana okkar. Að hlúa að því sem vill koma upp á yfirborðið. Tími til að næra okkur sjálf og leyfa okkur að dreyma eins og fræið í jörðinni. Að hlusta inn á við og finna hvað það er sem við þráum. Svo við getum betur verið með því sem er að byrja að vaxa innra með okkur.

Þannig styrkjum við ræturnar og gefum því nýja rými, svo það verði auðveldara og skemmtilegra að blómstra í fyllingu tímans.

Uppgötvaðu visku líkamans

Ég býð upp á frítt námskeið í janúar fyrir konur sem eru á breytingaskeiði eða hafa lokið þeim kafla. Fyrir konur sem upplifa svefntruflanir, orkuleysi eða tilfinningu fyrir því að vera komnar úr takti við sig.

Ef þú hefur áhuga á að kafa dýpra í þessa vegferð og fá gagnleg verkfæri til að næra líkamann og finna meiri orku, ró og jafnvægi í daglegu lífi þá er þetta kannski eitthvað fyrir þig.

Við förum yfir hvað er að gerast í líkamanum á þessum forvitnilega tíma í lífinu sem breytingaskeiðið er, og hvað við getum gert til að næra okkur sjálfar. Námskeiðið stendur yfir í þrjá daga, klukkutíma í senn, hvern dag. Og ber heitið Uppgötvaðu visku líkamans.

Þú getur skráð þig með því að smella á hlekkinn hér: Uppgötvaðu visku líkamans

Flokkar

Nýjast

Af hverju er ég orkulítil þó ég sé að gera mitt besta?

Af hverju er ég orkulítil þó ég sé að gera mitt besta?

Þetta er algeng spurning... ...hjá konum sem eru að fara í gegnum breytingatímabil. Ekki síst þeim sem eru á - eða hafa lokið breytingaskeiði. Þær lýsa líkamlegum og tilfinningalegum einkennum sem oft virðast sundurlaus og erfitt að ná utan um. Þetta getur verið mjög...

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Svefn, kvíði og hitakóf í stærra samhengi

Nýlega sendi ég út könnun til kvenna á póstlistanum mínum og á aðeins nokkrum dögum bárust 209 svör frá konum á öllum stigum breytingaskeiðsins. Svörin sýna sameiginlegan rauðan þráð og líka ótrúlegan fjölbreytileika. Og þau segja mér líka að margar konur eru að leita...

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Hugrekki til að staldra við og hlusta

Lífið er alltaf að breytast. Við verðum foreldrar, börnin okkar fara að heiman, við missum okkar nánustu, við missum vinnuna og þurfum að lifa í óvissu um óákveðinn tíma, við eldumst og þurfum að læra að hlusta á það. Í okkar menningu er ekki mikil áhersla á að kenna...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.