Að virkja vellíðunartaugina

Við lifum í óstöðugum heimi sem á það til að gera ofurmannlegar kröfur til okkar. Heimi sem leggur megináherslu á að styrkja hugann og gera okkur hæf á því sviði, oft á kostnað líkamans og hæfileikans til að vera, njóta og slaka á.

Flestir hafa upplifað einhvers konar áföll. Þau þurfa ekki að vera stór til að hafa áhrif. Flestir eiga það til dæmis sameiginlegt að hafa ekki fengið nægan tilfinningalegan stuðning í uppvextinum. Öryggi og tengslamyndun eru eins og við vitum grunnþarfir hjá okkur mannfólkinu. Við gætum hafa alist upp við heimiliserjur, eða kannski fannst okkur við ekki fá rými til að þroskast á eigin forsendum. Of mikil fjarlægð eða ekki nægileg mörk geta líka haft þessi áhrif. Við höfum öll, bæði börn og fullorðnir, þörf fyrir að vera spurð hvernig okkur líður. Það hjálpar okkur að upplifa að við séum séð og heyrð og styður okkur í gegn um erfiða reynslu.

Líkaminn man það sem við höfum gengið í gegn um. Áföll sem taugakerfið okkar geymir geta við ákveðnar aðstæður dregið fram gamla tilfinningu fyrir öryggisleysi. Þá er ekki nóg að segja okkur sjálfum að við séum örugg. Við þurfum að sanna það fyrir líkamanum.

Polyvagal kenningin, sem hefur notið vaxandi fylgis í sambandi við áföll og streitu hjálpar okkur að skilja hvernig taugakerfið okkar skynjar og bregst við. Hún er þróuð af Stephen Porges, sálfræðingi og taugasérfræðingi. Hún kennir okkur að við getum haft áhrif á viðbrögð taugakerfisins í streituástandi með því að virkja flökkutaugina (vagustaugina). Ein besta leiðin til þess er að iðka jóga.

Flökkutaugin er lengsta og mikilvægasta heilataugin, liggur í gegn um allan líkamann og er hluti af sefkerfinu eða róandi hluta taugakerfisins. Sefkerfi og drifkerfi sem saman mynda ósjálfráða taugakerfið, vinna saman. Drifkerfið setur okkur í vökult ástand með streituhormónum. Stundum kallað “berjast eða flýja” ástand. Og sefkerfið eða flökkutaugin getur afvirkjað þessi hormón. Drifkerfið safnar upplýsingum í gegn um skynfærin og sendir þær til sefkerfisins. Drifkerfið spyr: Eru þessar aðstæður í lagi? Er hætta á ferð? Ef svo er þá er ég með adrenalín ef þú þarft á því að halda. Sefkerfið metur þessar upplýsingar og byggir á fyrri reynslu til að ákveða hvort það á að taka bremsuna af flökkutauginni. Ef það metur að það sé hættuástand þá losna streituhormón og taka að flæða um líkamann.

Flökkutaugin hefur tvær greinar. Eldri hlutinn er fyrir neðan þind og tengist því að frjósa eða lamast eins og dýr gera í hættu. Og yngri, þróaðri hluti sem er fyrir ofan þind og hefur að gera með félagsleg samskipti og samkennd. Þegar flökkutaugin er í góðu jafnvægi er meltingin góð og við eigum auðvelt með að skipta um gír milli álags og hvíldar. Við erum með gott tengslanet og leitum eftir stuðningi þegar á þarf að halda.

Flökkutaugin hefur áhrif á öndun, meltingu og hjartslátt. Breytileiki hjartsláttarins gefur vísbendingu um streitu og er til dæmis mældur hjá börnum í fæðingu. Í  dag eru margir með úr eða önnur tæki sem mæla þetta, enda er mjög gagnlegt að fylgjast með streituástandi líkamans.

Jóga hefur djúp áhrif á jafnvægi þessarar taugar. Mörg form af jóga leggja megináherslu á að virkja sefkerfið og kenna okkur að slaka á. Sem er auðvitað afar mikilvægt. Það er hins vegar líka mikilvægt að skapa samhljóm á milli þessara kerfa, sefkerfis og drifkerfis og fá þau til að vinna betur saman. Kundalini jóga leggjum við áherslu á bæði, að virkja sefkerfið og að finna samhljóm í líkamanum og fá þessi kerfi til að vinna saman. Kundalini jóga kennir okkur að flökkutaugin sé eins konar stillingarniður fyrir líkamann. Líkaminn leitast við að stilla sig í samhljóm við flökkutaugina. Ef við höldum henni í jafnvægi þá er allur líkaminn í jafnvægi.

Hjartað með stuðningi flökkutaugarinnarer taktmeistari líkamans. Þegar margar gamaldags klukkur með kólf eru settar inn í sama herbergið þá stilla þær sig á endanum allar eftir stærsta kólfinum. Á sama hátt stilla öll líffærin sig í takt við hjartað. Við sjáum að hjartastöðin er einmitt þetta. Hjartslátturinn og líðan okkar sem endurspeglast í flökkutauginni. Traustið sem við höfum til heimsins, byggt á lífsreynslu okkar og hæfileika til að vinna úr henni. Og hæfileiki okkar til að finna til samkenndar.

Forfeður okkar skildu mikilvægi þess að vera í samhljómi við hjartað og æðri lögmál alheimsins. Sérstaklega þegar það var ekki á þeirra færi að stjórna aðstæðunum. Helgisiðir höfðu þetta hlutverk í gegn um tíðina. Þegar við förum í jóga erum við að virkja þennan helga stað í okkur sjálfum.

Jóga er mjög aðgengileg leið til að vinna úr áföllum í gegn um líkamann. Ég hef tekið eftir því að fólk sem hefur lent í miklum áföllum finnur mikla hjálp í að stunda kundalini jóga. Í kundalini jóga erum við að vinna með þetta jafnvægi flökkutaugarinnar í gegn um allan jógatímann. Með taktföstum æfingum, með því að opna flæði upp hryggsúluna, í gegn um öndunaræfingar og möntrusöng. Svo dæmi séu nefnd.

Guðrún Arnalds – jógakennari, heildrænn heilsuráðgjafi og leiðbeinandi í Fókusing – aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Flokkar

Nýjast

Að vingast við streitu

Að vingast við streitu

Dauðsföll, áföll og erfiðir vinnufélagar eru streituvaldar sem við getum ekki ráðið við. En svo eru aðrir streituvaldar sem við getum unnið með. Eins og viðhorf, venjur og viðbrögð okkar í daglegu lífi. Flest vandamál sem við glímum við, hvort sem það eru veikindi eða...

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Oft hef ég séð það í hyllingum að komast í frí og geta loksins sofið og hvílt mig almennilega. En oftar en einu sinni hefur svefninn versnað til muna eða að minnsta kosti ekki batnað eins og vonir stóðu til. Ég var lengi að átta mig á því að þetta væri ekki tilviljun....

Birta

Birta

Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur....

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.