Að vingast við streitu

Dauðsföll, áföll og erfiðir vinnufélagar eru streituvaldar sem við getum ekki ráðið við. En svo eru aðrir streituvaldar sem við getum unnið með. Eins og viðhorf, venjur og viðbrögð okkar í daglegu lífi.

Flest vandamál sem við glímum við, hvort sem það eru veikindi eða ójafnvægi (líkamleg eða andleg) má rekja beint eða óbeint til streitu. Og undirliggjandi streita magnar að sama skapi upp öll okkar vandamál. Svo það er mikilvægt að kunna leiðir til að höndla streitu.

En streita er ekki bara streita. Hún er þín upplifun á streitu.

Streita getur lýst sér sem tilfinning fyrir stöðugri spennu. Tilfinningu fyrir að það sé enginn tími til að staldra við eða slugsa. Hún getur líka birst í óþolinmæði ef hlutirnir ganga ekki nægilega hratt fyrir sig. Eða eirðarleysi sem fær þig til að fálma eftir símanum þegar þú átt lausa stund. Eða tómatilfinningu sem fær þig til að úða í þig sælgæti þrátt fyrir önnur áform. Streita getur líka verið skynjun á yfirvofandi hættu sem er á engan hátt í samhengi við veruleikann.

En streita er líka alltaf einhvers konar upplifun í líkamanum. Þegar við náum að tengja við líkamann þá verður auðveldara að höndla hana. Að hlusta eftir því sem líkaminn þarf frekar en að streitast á móti.

Ég upplifi streitu oft í formi spennu í maganum sem leiðir út í handleggina. Ef ég gef mér rými til að slaka á í maganum þá gefur spennan eftir. Eða sem yfirmáta þreytu sem lagast við að fara út að ganga. Stundum verður streitan að kvíðatilfinningu. Þá veit ég að ég er búin að yfirkeyra og þarf að hvíla mig.

Gönguferðir, sund, jóga og dvöl í náttúrunni eru allt mikilvægar leiðir sem ég nota til að endurnærast og finna minn takt mitt í álaginu. Regluleg hugleiðsla hefur verið minn tryggasti félagi þegar kemur að því að þjálfa mig í að trúa ekki öllum þeim hugsunum og tilfinningum sem koma upp hjá mér. Hugleiðsla og meðvituð öndun gefa mér andrými á milli mín og hugsananna, á milli mín og tilfinninganna. Þetta er verkefni fyrir lífið. Ég þarf aftur og aftur að minna mig á að fara ekki fram úr sjálfri mér.

Hvernig upplifir þú streitu? Hvað gerir þú til að létta á spennu og endurnæra þig?

Nú er að hefjast jóganámskeið í Andartaki þar sem við ferðumst í gegn um orkustöðvarnar og skoðum leiðir til að beina lífsorkunni í réttan farveg. Að styrkja hæfileikann til að takast á við streitu, styrkja líkama og huga og endurnærast um leið. Fyrir þá sem ekki þekkja til byggjum við á formi af jóga sem heitir Kundalini jóga og er sérstaklega gagnlegt þegar kemur að því að takast á við streitu. Nánar hér: Lífið í jafnvægi. 

Flokkar

Nýjast

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Oft hef ég séð það í hyllingum að komast í frí og geta loksins sofið og hvílt mig almennilega. En oftar en einu sinni hefur svefninn versnað til muna eða að minnsta kosti ekki batnað eins og vonir stóðu til. Ég var lengi að átta mig á því að þetta væri ekki tilviljun....

Birta

Birta

Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur....

Í sátt við það sem er

Í sátt við það sem er

Í jógafræðunum erum við með hugtakið Santosha - sem þýðir ánægja, að gera sér hlutina að góðu. Iðkun Santosha snýst um að rækta með sér þakklæti og að læra að meta það sem er. Hún gengur út á... Að horfa innan við girðinguna en ekki yfir hana. Að taka eftir hvað...

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.