Fókusing

Að skapa rými fyrir varanlegar breytingar

Hvað eiga eftirfarandi aðstæður sameiginlegt?

 • Þú veist að lífið getur boðið upp á meira en þú veist ekki hvernig þú getur nálgast það
 • Þú átt erfitt með að komast í samband við tilfinningar þínar
 • Þú upplifir sterkar tilfinningar sem eru þér sársaukafullar og stundum lendirðu í vandræðum í samskiptum við annað fólk
 • Starf þitt er ófullnægjandi
 • Þú lendir of oft í rifrildi við maka þinn, fjölskyldumeðlim, vinnufélaga eða vini
 • Þú veist hvað þú þarft að gera en getur ekki komið þér af stað
 • Þú upplifir skyndilegar gagnrýnar hugsanir um eigin gáfur, útlit eða hæfileika
 • Þú þarft að taka ákvörðun og ert búin-n að fara í marga hringi en ert ennþá óviss um hvað þú eigir að gera
 • Eitthvað er ekki eins og það á að vera en þú getur ekki sett fingurinn á hvað það er
 • Þú ert komin-n af stað með skapandi verkefni en strandar svo og nærð ekki að halda áfram í sköpunarferlinu

Allar þessar aðstæður eiga það sameiginlegt að þær kalla eftir breytingum. Ekki breytingum sem liggja beint við eins og að fara í klippingu. Og ekki heldur stórar, flóknar breytingar eins og að flytja í annan landshluta og taka við nýju starfi eða byrja í nýjum skóla. 

Við erum að tala um innri breytingar sem fela í sér skref sem eru ekki augljós við fyrstu sýn. Jafnvel þó annað fólk geti gefið þér góð ráð og upplýsingar þá er enginn annar en þú sem getur tekið þessi skref. Innri breytingar af þeirri gerð sem ég er að tala um kalla eftir að þú gerir eitthvað sem þú veist ekki hvernig þú átt að gera. 

Fókusing er aðferð sem þú getur lært og sem kennir þér að virkja innri hæfileika sem ná til hugar, líkama og hjarta. Og sem sýnir þér nýja leið til að vinna með einmitt þessi vandamál sem ekki eru til svör við. 

Þú lærir að hlusta á líkamann og viskuna sem býr innra með þér á nýjan og ferskan hátt. Orðið Fókusing vísar til þess að við fókuserum inn á við eins og við værum með kíki sem þarf að stilla til að sjá skýrar. 

Fókusing býður okkur að tengja við dýpri stað í okkur sjálfum heldur en bara hugsanir og tilfinningar. Að sitja með því sem líkami okkar er að segja okkur. Fram hjá þeirri sögu sem við segjum okkur í daglegu lífi um allt sem við erum búin að upplifa. Sagan sem túlkar upplifun okkar. Það er alltaf meira. Við vitum meira en hugsanir okkar, meira en við höldum að við vitum. 

Fókusing snýst um að finna brúnina á upplifun okkar. Eitthvað sem er óljóst, óskýrt á jöðrunum. Að stíga inn í óvissuna og hlusta á kærleiksríkan hátt á það sem birtist okkur hið innra. 

Hægt er að nota Fókusing í mörgum mismunandi aðstæðum. Það er dásamleg iðkun á sjálfsumhyggju, styður okkur í að vaxa og í alls kyns meðferðarvinnu. Fókusing hefur verið notað af þeim sem vinna í einhvers konar vinnu með öðru fólki, í réttindabaráttu eða hjálparstarfi til að hlusta eftir eigin líðan og þörfum. Það hefur líka verið notað til að leysa innri togstreitu og ytri ágreining. Og í viðskiptum, með börnum, sem andleg iðkun og í mörgum mismunandi samfélögum víða um heim. 

Það sem Fókusing getur gert fyrir okkur:

Þegar við erum búin að læra aðferðina getur hún verið eins og uppspretta sem við leitum til þegar við viljum finna aftur sambandið við okkur sjálf, við innsæi okkar og visku líkamans. Fókusing getur hjálpað þér að:

 • Skilja hvernig þér líður í raun og veru og hvað þú vilt
 • Yfirstíga hindranir, taka ákvarðanir og leysa vandamál á skapandi hátt
 • Verða meðvitaðri og vingjarnlegri við sjálfa-n þig og aðra
 • Tengja saman huga, líkama og sál
 • Leysa upp spennu og króníska verki
 • Öðlast sjálfstæði gagnvart hugmyndafræði annarra
 • Dýpka upplifun þína og ná meiri árangri í sálfræðimeðferð, markþjálfun og annarri innri vinnu