Nýtt ár er nýtt upphaf. Í minni fjölskyldu hefur skapast sú hefð að setjast niður og fara yfir liðið ár, að velja tóninn fyrir næsta ár og eitt eða fleiri orð sem við ætlum að nota sem áttavita þetta árið. Flest okkar tengja nýtt ár við að skapa sér nýjar venjur, að lyfta lífinu upp í nýja tóntegund. Áramótaheit endurspegla þessa ósk okkar um nýtt og betra líf.
Áramótaheit geta verið skammlíf. Oft er það vegna þess að þau eru óljós fyrir okkur. Það þýðir samt ekki að þau eigi ekki rétt á sér. Það er ekki auðvelt að umbreyta gömlum venjum og það getur verið gagnlegt að hafa stuðning við að setja niður hæfilega stór skref í einu þar til markmiðinu er náð.
Stundum eigum við það til að setja okkur óraunhæf markmið sem einkennast af fullkomnunaráráttu og verðum svo fyrir vonbrigðum með okkur sjálf ef það næst ekki.
Algeng áramótaheit eins og að vilja léttast, komast í form eða borða heilsusamlega eru góð markmið. En stundum eru þau lituð af óþolinmæði eða kröfu um að við eigum að líta út á einhvern ákveðinn hátt eða standa okkur betur en við erum að gera. Þegar þannig viðhorf með dæmandi undirtóni laumast inn í áramótaheitin okkar erum við komin í stríð við okkur sjálf. Fullkomnunarárátta kemur okkur sjaldan þangað sem við viljum fara. Sjálfsmildi er mjög mikilvægur grunntónn.
Orðið mitt fyrir þetta komandi ár er einfaldleiki. Ég áset mér að fagna ófullkomleikanum og vera opin fyrir björtum glugga einfaldleikans. Ég ætla að hlusta með fótunum á jörðina sem nærir mig og gefa flækjum hugans rými til að greiða úr sér í stað þess að leyfa þeim að skilgreina mig. Ég ætla að gefa unglingnum mínum færri góð ráð og hlusta meira á hann. Og mig langar til að sýna sjálfri mér og öðrum meiri mildi á nýju ári.
Hver er þinn ásetningur fyrir nýtt ár?