Mildi og mýkt

Námskeið með áherslu á að nærast og njóta. Mjúkar teygjur, endurnærandi jóga, djúp slökun og hugleiðsla. 

Öndunaræfingar eru öflug leið til að takast á við streituástand og til að endurnærast á huga og líkama. Mjúkt jóga sem styður okkur í að hlusta á okkur sjálf. Að setjast inn í andartakið og njóta ferðarinnar. Leidd djúpslökun og Gong. Hugleiðsla sem hjálpar okkur að hreinsa hugann, að þjálfa okkur í að velja viðbrögðin okkar og að tengja við eitthvað stærra og víðara en við sjálf. Að tengja við uppsprettuna innra með okkur.  

Á þessu námskeiði skoðum við hvernig sjálfskærleikur og mildi geta gefið okkur aukna orku og innri frið og tengjum við uppsprettuna innra með okkur sem er alltaf til staðar til að næra okkur. 

Ein mikilvægustu skilaboðin sem jóga færir okkur er að þau minna okkur á að innst í órjúfanlegum kjarna okkar þá erum við öll friðsæl, glöð, vitur, björt og kærleiksrík. Þessi kjarni er sálin eða okkar sanna sjálf. Í jóga erum við því ekki bara að læra að höndla streitu heldur ennfremur að fá djúpa upplifun á þessum stað innra með okkur. Ef við fáum þessa upplifun reglulega þá fær hún meira rými innra með okkur og verður að viðmiði sem við getum borið daglega líðan okkar saman við. 

Við erum öll að glíma við streitu á einhverjum sviðum. Í okkar keppnissamfélagi þar sem við erum sífellt að keppast við að standa okkur og sýna að við séum einhvers virði eigum við það til að rífa okkur niður og gera ómannlegar kröfur til okkar sjálfra. Er ég nóg? Tvíburasystkini innri gagnrýnandans eru herra og frú Fullkomin. Þau gefa okkur þau skilaboð að fullkomnun sé verðugt markmið, nauðsynleg til að passa inn í samfélagið. Vandinn er bara sá að fullkomnun er ekki raunhæfur möguleiki og ef við göngum þann stíg þá erum við alein og verðum að standa okkur án stuðnings. 

Kærleikur og mildi til okkar sjálfra gefur okkur friðsælt hjarta í gegnum storma lífsins. Þegar við veljum að elska okkur sjálf með alla þá veikleika og galla sem eru óhjákvæmilegur hluti af því að vera manneskja, þá eru verðlaunin aukið sjálfstraust og innri friður. Við getum sest inn í uppsprettuna í okkur sjálfum sem veit að við erum hluti af stærri heild. Sem veit að við erum fullkomin alveg eins og við erum.

Kennari er Guðrún Darshan: Ég hef kennt jóga í um 20 ár og hefur viðað að mér þekkingu og reynslu á sviði jóga og öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. Ég býð ykkur velkomin að koma og njóta með mér og kynnast því af eigin raun hvað jóga getur gert fyrir þig.