Vorverkin á huga, líkama og sál

Vorið er tími til að fæðast upp á nýtt og njóta þess að sjá lífið vakna í kringum okkur.

Tími til að sá fræjum og skjóta rótum svo við getum nærst í gegnum sumarið og haldið stöðugleika okkar. Þetta er upplagður tími til að hreinsa líkamann og sleppa því sem við þurfum ekki á að halda lengur og koma okkur upp nýjum siðum sem þjóna okkur og næra.

Þó vorið sé kærkomið þá getur verið átak að hrista af sér vetrardoðann og margir eiga erfitt með að taka á móti vorinu af sama krafti og hugurinn myndi óska sér. Það er ekki óalgengt að fólk fái kvef og alls kyns ofnæmiseinkenni á vorin og þunglyndi tekur stundum aukadýfu einmitt á vorin þegar síst varir.

Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna  fjalla um það hvernig veturinn getur safnast upp innra með okkur.

Vetrinum fylgir kuldi og raki og við speglum þessa eiginleika innra með okkur. Við höfum tilhneigingu til að borða og sofa meira, sitja inni og búa okkur þannig til vetrarkápu til að einangra okkur gegn kuldanum. Á vorin þurfum við að varpa af okkur þessari kápu. Annars eigum við það á hættu að fá vorkvef og frjókornaofnæmi – eða við gætum fundið fyrir framtaksleysi og tilfinningaþyngslum. 

Vetrinum fylgir ákveðinn drungi, dofi gagnvart lífinu og það geta myndast stíflur innra með okkur. Eins og í vorleysingum getur allt farið að losna þegar vorið birtist og stöku klakar geta strandað á steini úti í miðri á áður en þeir bráðna. Orkuflæðið okkar getur farið skrykkjótt af stað og drunginn getur verið búinn að koma sér þægilega fyrir og verið tregur að standa á fætur.

Á vorin er mikilvægt að hugsa sérstaklega vel um flæðið innra með okkur. Jóga gefur okkur verkfæri til þess að hreinsa og lyfta okkur upp í tærara flæði. Jógaiðkun á vorin er sérstaklega gagnlegur stuðningur við að sleppa því sem við þurfum ekki á að halda, opna fyrir lífsorkuflæðið og finna fyrir vorinu sem vex líka innra með okkur.

Samkvæmt ayurveda er meðalið eða mótvægið fyrir vorið að búa sér til takt og rútínu fyrir daginn sem hjálpar okkur að létta okkur líkamlega og tilfinningalega án þess að trufla stöðugleikann innra með okkur. Best er að nálgast þetta frá mörgum hliðum; borða létt fæði, hreyfa sig og fara út í náttúruna.

Jóga er mjög gagnlegt á þessum tíma og hjálpar okkur að nýta tækifærið sem býr í vorinu – tækifæri til að sá nýjum fræjum og umbreyta staðnaðri orku og virkja heilunarmátt líkamans. Þar koma  öndunaræfingar og hugleiðsla mjög sterkt inn. Kundalini jóga er einstaklega vel til þess fallið að efla orkuflæði líkamans og skapa þannig rými fyrir vorgleðina.