Uppruni hómópatíu

spirale_di_sabbia1Hómópatía er heildræn meðferð sem byggir á lögmálinu um að „líkt lækni líkt“. Þetta. grundvallarlögmál hómópatíu hefur verið þekkt síðan á tímum Hippókratesar hins gríska sem var uppi um 450 fyrir Krist og nefndur hefur verið faðir læknisfræðinnar. Hann gerði sér grein fyrir að það væru tvær leiðir til lækninga, leið andstæðna og leið hliðstæðna. Leið hliðstæðna er hómópatíska aðferðin.

Rúmlega þúsund árum seinna notaði Paracelsus, svissneskur efnafræðingur, sömu lækningaaðferð, grundvallaða á reglunni um að „líkt lækni líkt“.  Það var hins vegar ekki fyrr en á átjándu öld sem hómópatía eins og hún er stunduð í dag þróaðist fyrir tilstilli þýska læknisins og efnafræðingsins dr. Samuel Hahnemann (1755-1843).

Hahnemann hafði starfað árum saman sem vel virtur læknir, en fengið sig fullsaddan af þeim lækningaaðferðum sem notaðar voru á þeim tímum, eins og blóðtökum, þar sem sjúklingum var látið blæða, til að freista þess að sýkingunni blæddi í burtu. Hann uppgötvaði á tímum malaríu, að með inntöku á kínin komu fram á honum, sömu einkenni og hjá malaríusmituðum einstaklingi, þótt að hann væri ósmitaður. Þessi einkenni hurfu svo aftur um leið og að hann hætti inntöku efnisins. Þessi uppgötvun varð til þess að hann fór að prófa fleiri efni og sú þekking sem hann safnaði saman er grunnur þessarar mildu og áhrifaríku náttúrumeðferðar eins og hún er notuð í dag.