Lífsorkujóga

Jóga fyrir lífsgleði, styrk og jafnvægi í daglegu lífi.

Jógaflæði, hugleiðsla og slökun. 

Jóga getur opnað fyrir flæði lífsorkunnar og um leið fyrir gleðina sem er okkur svo eðlislæg.

Æfingar sem endurnæra, byggja upp lífsorku og auka heilbrigði á huga líkama og sál. Með því að rækta samkennd í eigin garð og til annarra verður lífið ríkara. Áhersla verður lögð á hugleiðslu og í lok hvers tíma er góð slökun. Þátttakendur fá stuðning við að hugleiða heima ef þeir vilja. Í gegnum reglulega iðkun getum við ræktað sjálfsmynd sem er stærri en vandamálin og sem styður okkur í daglegu lífi.

Kennari er Guðrún Darshan. Hún hefur kennt jóga í um 20 ár og hefur viðað að sér mikilli þekkingu og reynslu á sviði jóga og öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. Tímarnir eru blanda af spjalli, hreyfingu, öndun, slökun og hugleiðslu. Sérstök áhersla verður á að skapa notalega stemmningu og hvatningu til þess að nýta sér visku jógafræðanna í daglegu lífi.

Jóga, slökun og hugleiðsla

Í hverjum tíma tökum við fyrir ákveðið þema sem snýr að mannlegri reynslu: Við tökum fyrir þætti eins og sjálfstraust, hugrekki, að lyfta okkur út úr skammdegisþunglyndi og finna innri birtu, að hreinsa lifrina, öðlast sterkara taugakerfi og friðsælt hjarta. Við opnum fyrir orkuflæði í hryggsúlu og liðum, örvum blóðflæðið og fáum aukið súrefni í líkama og huga. Við fjöllum um kærleika í eigin garð og listina að elska sjálfan sig.

Upplifðu kraft, gleði, upplyftingu, hreyfingu, hreinsun hugans, friðsæld og tengingu við uppsprettuna hið innra.  Jóga sem nærir lífsorkuna, gefur tilfinningu fyrir eldmóði og gleði sem fær okkur til að langa til að halda áfram að upplifa meira.

Streita er algengasta orsök heilsuvandamála í heimi nútímamannsins. Við leggjum áherslu á að kenna leiðir til að endurnærast og snúa þannig við öldrunaráhrifum streitunnar. Þetta er þín stund þar sem þú kemur og hleður batteríin og styrkir um leið hæfileikann til að standa með þér. Einn af hornsteinum hamingjuríks lífs er að elska sjálfan sig og gefa sér tíma til að vera og njóta – að eiga stundir þar sem við hlúum að okkur sjálfum í öruggu og hvetjandi umhverfi.

Hæfilegt magn af streitu er af hinu góða. Hún gefur okkur skýran fókus og hæfni til að bregðast við. En þegar streitan tekur völdin þá verður lífið svo bragðlaust og hugurinn lokast fyrir möguleikum og fegurð lífsins. Og þá er mjög auðvelt að missa móðinn. Þess vegna er svo mikilvægt að vera með stuðningsnet fyrir hamingjuna.

Tímarnir eru bæði fyrir vana og óvana

Durgahof1Kennari er Guðrún Darshan

Umsagnir jógaiðkenda:

Ég mæli með þessum tímum hjá Guðrúnu Darshan. Alveg einstök stund í erli lífsins. Góðar æfingar, slökun, hugvekja og djúp reynsla Guðrúnar umlykur allt.
Bettý Gunnarsdóttir, kennari og markþjálfi

Frábært námskeið með frábærum kennara. Er endurnærð eftir tímana og finn hvað þeir styrkja mig á sál og líkama.
Guðríður Pálmarsdóttir

Þetta er það besta sem hægt er að gefa sjálfum sér. Ég er búin að vera að telja sjálfri mér trú um að ég hafi ekki tíma, en finn að ég VERÐ að gefa mér tíma.
Hallveig Thorlacius rithöfundur


Það var sú tíð að ég iðkaði jóga reglulega, en svo liðu mörg ár án þess að ég gerði það. Nú í haust mætti ég aftur í kúndalíni – jóga til Guðrúnar og það var eins og að koma heim úr löngu ferðalagi! Það er ótrúlegt hversu fljótt ég kannaðist við jógaiðkandann mig. Guðrún er einstakur jógakennari, hefur tilfinningu fyrir hópnum og einstaklingum innan hans og hagar dagskránni eftir stöðu hópsins. Ég hvet alla til að skoða þennan möguleika á iðkun hollrar hreyfingar sem er reyndar bæði fyrir líkama og sál. Ekki síst hvet ég þau sem hafa ekki stundað jóga um tíma að mæta nú aftur
Jóhanna Magnúsdóttir garðyrkjufræðingur

Mér finnst ég léttari og hressari í alla staði siðan ég byrjaði að stunda kundalini jóga – og líður betur. Ég er betri í öxlunum og aftan á hálsinum – ég sit mikið við tölvu og stífna upp í herðunum en er miklu betri í skrokknum síðan ég byrjaði í jóga.
Guðbjörg Kjartansdóttir, skjalavörður