Nærandi vetrarsúpa

Á þessum dimmasta tíma ársins getur verið átak að halda í kraftinn og bjartsýnina. Við erum flest farin að þrá birtu og hlýju sólarinnar sem virðist dálítið langt í burtu ennþá. En við getum byrjað að undirbúa vorið með því að fyrirbyggja að orkuflæðið okkar stíflist í vetrarríkinu. Og koma þannig í veg fyrir vetrarflensur og vorkvef. 
 
Janúar er tími til að fara inn á við og hlaða batteríin. Samkvæmt Ayurveda er þetta tími til að byggja upp kjarnann okkar, eðlislæga hreysti og æskuljóma. Í Ayurveda er þetta kallað Ojas. Besta hreyfingin á þessum árstíma eru gönguferðir og jóga. 
 
Á veturna eykst matarlystin og við förum að sækja í meiri fitu og nærandi og kraftmikinn mat til að búa okkur til einangrun gegn kuldanum. Þá er gott að velja góða fitu, óunninn mat og að borða vel af grænmeti. Krydd eins og engifer, fennel og svartur pipar geta hjálpað við að gera matinn auðmeltari. Súpa úr fyllandi grænmeti gefur hlýju og vellíðan á köldum vetrardegi. 
 
Besta fitan til að borða á þessum árstíma er Ghee eða skírt smjör. Það er hægt að nota það til að steikja upp úr, smyrja á brauð og setja út í morgungrautinn sinn. Ghee er búið til úr saltlausu smjöri sem er hitað á lágum hita í langan tíma. Mér finnst best að gefa því 4-5 tíma á pönnunni. Síðan er það síað í gegn um bleyju. Þá fæst gullin þykk olía með smá karamelluilmi. Ghee er mjög hátt skrifað í ayurveda og það er talað um að það sé mjög líkt Ojas, kjarnanum okkar og hafi þess vegna mjög djúpstæð og nærandi áhrif. 

Hér er uppskrift að súpu fyrir þennan dimmasta og kaldasta tíma ársins til að byggja upp kraft og endurnýja kjarnann. Smjörhnetugrasker fæst í flestum búðum, það eru þessi löngu og mjóu. 

Nærandi og kraftmikil vetrarsúpa

¼ tsk svartur pipar
4 bollar smjörhnetugrasker (butternut squash)
1 tsk fennel fræ
2 hvítlauksrif
2 tsk ghee
1,5 sm af fersku engiferi
Safi úr ½ límónu
¼ tsk salt
4 bollar vatn
½ gulur laukur
 
Leiðbeiningar
 
Ristaðu graskerið í ofninum á 180 gráðum í um 30 mínútur. Taktu það út og láttu kólna. Nú á að vera hægt að flysja það auðveldlega með grænmetisflysjara. Skerðu það niður í bita sem eru um 2,5×2,5 sm. 
 
Hitaðu 2 msk af gheei í stórum ptti. Brúnaðu laukinn. Saxaðu engifer og hvítlauk og bættu út í. Bættu við salti, pipar og fennelfræjum. Leyfðu þessu að brúnast í um 30 sekúndur og passaðu að brenna ekki hvítlaukinn. Bættu nú graskerinu út í og vatninu og láttu suðuna koma upp.
 
Lækkaðu hitann og láttu sjóða í um 20 mínútur. Stappaðu með kartöflustappara eða maukaðu í blandara. Settu safa úr hálfri límónu út í tilbúna súpuna.
 
Berðu fram heitt með góðu brauði. 

Vertu stærri en streitan

Námskeiðið “Vertu stærri en streitan” hefst á fimmtudaginn kemur, 12. janúar. Það er á nýjárstilboði til 9. janúar. 

Á þessum árstíma getur verið átak að koma sér upp heilnæmum lífsstíl og mataræði. Góð melting er hluti af sterku taugakerfi. Við finnum leiðir til að endurnærast og melta betur lífið, bæði matinn sem við borðum og þær áskoranir sem við mætum. Við ætlum að skoða lífsstíl og mataræði styður okkur best í gegn um þennan dimmasta tíma ársins.

Við iðkum jóga, öndunaræfingar og hugleiðslu til að hreinsa og létta á huga og líkama. Svo við getum fundið birtuna innra með okkur lýsa upp vetrarmyrkrið. 

Við einbeitum okkur að því að auka lífsorkuna og kyrra hugann. Að stækka okkur sjálf svo við verðum stærri en streitan. Stærri en álagið og vandamálin og stilltari en hraðinn fyrir utan okkur. Kundalini jóga er sérstaklega áhrifaríkt þegar kemur að því að höndla streitu. 

Sjá nánar hér: Vertu stærri en streitan