Hugleiðsla í dagsins önn

Hugleiðsla er tími með okkur sjálfum, til að endurnærast, finna kyrrðina hið innra og hlusta á sálina. Tími til að hlusta, finna aftur taktinn innra með okkur og gefa heiminum fyrir utan frí á meðan. Hún kennir okkur að styrkja hlutlausa hugann svo við getum betur valið viðbrögð okkar og haldið í æðruleysið þegar á móti blæs. Hugleiðsla er eins og að fara í bað, hún hreinsar undirvitundina, beinir athygli okkar inn á við, inn í andartakið og færir okkur frið.

Best er að hugleiða daglega. Við mælum með því að byrja á að setja sér það markmið að hugleiða reglulega 40 daga. Þannig sköpum við nýjan vana. Fyrst mótum við vanann og svo mótar vaninn okkur.

ÞAÐ TEKUR 40 DAGA AÐ BRJÓTA UPP VENJUR OKKAR
ÞAÐ TEKUR 90 DAGA AÐ BÚA TIL NÝJAR VENJUR
ÞAÐ TEKUR 120 DAGA AÐ FESTA NÝJA VANANN Í SESSI
ÞAÐ TEKUR 1000 DAGA AÐ VERÐA MEISTARI Í NÝJA
VANANUM.

Hér eru nokkur atriði sem gætu gagnast þeim sem vilja koma sér upp þeirri venju að hugleiða daglega:

1. Veldu þér tíma sem hentar þér til að hugleiða. Það er ágætt að hugleiða alltaf á sama tíma. Besti tíminn til að hugleiða er við sólarupprás og sólsetur. Ef sá tími hentar þér ekki þá er bara um að gera að velja tíma sem hentar.

2. Það er líka gott að velja alltaf sama staðinn. Veldu þér rólegan stað þar sem þú getur verið í næði.

3. Vertu í þægilegum fötum. Í kundalini jóga mælum við með hvítum eða ljósum fötum. Hvítt stækkar áruna og varpar frá okkur neikvæðni. Við mælum líka með að hylja höfuðið. þegar við hyljum höfuðið þá fókuserum við orkuna í líkamanum upp í hvirfilstöðina og það verður mun auðveldara að hugleiða án þess að láta ytra áreiti trufla sig. Höfuð okkar er orkulega mjög næmt. Hægt er t.d. að nota klút eða húfu.

4. Það er auðveldara að hugleiða með tóman eða léttan maga. Annars fer öll orkan í meltinguna.

5. Þú getur til dæmis byrjað á að kveikja á kerti og jafnvel sett ljúfa jógatónlist á áður en þú byrjar. Það undirbýr hugann og fær okkur oft frekar til að langa til að eiga kyrrðarstund.

6. Mikilvægt er að sitja með bakið beint. Það er mjög gott að sitja með krosslagðar fætur og ef þörf krefur – að setja púða undir rassinn til að hækka mjaðmirnar – það gerir það auðveldara að sitja beinn. Ef hnén eru í lausu lofti er erfiðara að halda stöðunni – settu eitthvað undir hnén ef þarf. Ef þú átt erfitt með að sitja þannig á gólfinu geturðu líka setið í stól.

7. Það er mjög gott að ramma hugleiðslustundina inn og kalla á okkar hæstu vitund með því að byrja á að syngja möntru. Mantra hjálpar okkur að fókusera hugann og lyfta honum upp á hærri tíðni. Svona eins og við værum að teikna hring í kringum okkur og setjast inn í hann – og segja um leið við hugann; “Hér ætla ég að sitja og ekki láta neitt trufla mig á meðan”. Í Kundalini jóga tengjum við inn með því að syngja möntruna ONG NAMO GURUDEV NAMO – ég lýt óendanleikanum innra með mér. Ég lýt æðri leiðsögn.

8. Byrjaðu á nokkrum upphitunaræfingum ef þú hefur tíma. Það bætir blóðrásina, hressir okkur við, tekur burtu eirðarleysi og gefur þér tilfinningu fyrir léttleika í líkamanum. Það verður auðveldara á eftir að sitja kyrr í lengri tíma.  Öndunaræfingar eru líka góðar að gera á undan hugleiðslu. Þær gefa önduninni takt og hægja á huganum – hann verður stöðugri. Ef tíminn er naumur er til dæmis hægt að velja annað hvort.

9. Ljúft bros á meðan þú hugleiðir er mjög notalegt og gefur huganum skilaboð um að þér líði vel:-)

10. Sittu í kyrrð eftir að hugleiðslunni lýkur. Og finndu vellíðanina streyma um þig.

11. Í kundalini jóga ljúkum við hugleiðslustundinni með því að syngja möntruna SAT NAAM. Langt Sat og stutt Naam. “Nafn mitt er sannleikur – minn innsti kjarni er ljós sannleikans”. Þannig opnum við hringinn aftur og stígum út í daginn.

“Hugurinn er handan tíma og rúms. Ef þú ákveður að kvarta ekki, þá launar hann þér um leið með innsæi”  Yogi Bhajan

Í Kundalini jóga eru stunduð margs konar form af hugleiðslu. Auk þess að hafa þessi almennu áhrif sem hugleiðsla hefur, eins og nefnt er hér að ofan, þá hefur hver hugleiðsla ákveðinn fókus eða tilgang.

Við erum öll mismunandi upplögð frá degi til dags, suma daga er meira álag en aðra, suma daga erum við sátt við lífið og aðra ekki, en ef við höldum áfram í gegnum allar þessar innri og ytri sveiflur að setjast niður, kyrra hugann og eiga samtal við sálina, þá sköpum við smám saman nýjan vana sem þjónar okkur þegar á reynir og þannig kennum við huganum að þjóna okkur – í stað þess að vera þrælar hans.

“Sá sem sigrar hugann, sigrar heiminn.” Guru Nanak

“Hugleiðsla er þegar hugurinn verður alveg hreinn og móttækilegur og óendannleikinn talar við manninn.”  Yogi Bhajan