Veisla bragðlaukanna

Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna er mjög heillandi heimur sem kennir okkur að lifa í takti við náttúruna í kring um okkur og innra með okkur. Að fylgja árstíðunum og takti dagsins og að hlusta á líkamann. Við eigum það stundum til að borða með huganum og týna sambandinu við líkamann. Eftir því sem við öðlumst betra samband við hvað við þurfum þá fer hugurinn að fylgja með og við förum að sækja í það sem er gott fyrir okkur.

Nærandi og jafnvægisgefandi viska náttúrunnar birtist okkur í gegnum fæðu hennar. Bragð náttúrunnar er mismunandi tjáning á fjölbreytileika hennar og hver bragðtegund hefur mismunandi áhrif á okkur. Á sanskrít hefur orðið rasa sem merkir bragð margar fleiri merkingar eins og upplifun, eldmóður, safi og blóðvökvi. Rasa er eins konar kjarni lífsins og hefur áhrif á alla tilveru okkar, allt frá líkamsbyggingu og líkamlegum eiginleikum yfir i ástand hugans og vitundar okkar. Í Ayurveda er litið á bragð sem mikilvægan þátt í heilsu okkar.Það snýr ekki bara að því hvernig maturinn bragðast okkur heldur líka hvernig lífið “bragðast” okkur. Sama fæða getur haft mismunandi bragð eftir þvi hvar hún er ræktuð, hvernig staðið er að ræktuninni og hvort þarf að flytja hana langar leiðir.

Þegar bragð er notað í réttum hlutföllum, hvert um sig og saman, þá hefur það jafnvægisgefandi áhrif á líkamann. Bragðtegundirnar eru sex: Sætt, súrt, salt, sterkt, beiskt og samanherpandi. Mismunandi hópar af bragðlaukum á tungunni skynja bragð og senda skilaboð til heilans. Þaðan fara út skilaboð sem hafa bein áhrif á meltinguna og líka á allar frumur líkamans, vefi, líffæri og líffærakerfi.

Sætt er það bragð sem við á Vesturlöndum höfum tilhneigingu til að ofnota. Í hófi gefur sætt bragð okkur lífskraft og er mjög heilnæmt fyrir líkamann. Sætt er ekki bara sykur heldur eru td. hrísgrjón, hveiti og döðlur dæmi um mat sem gefur sætt bragð. Of mikið af sætu bragði gerir okkur kvefsækin, veldur hósta, stíflar nefið, gerir okkur þung á líkama og sál. Of mikið sætt gerir okkur löt og getur valdið offitu.

Súrt er frískandi, örvar matarlystina og bætir meltinguna. Of mikið súrt getur truflað meltinguna og þurrkað himnur líkamans. Salt gefur okkur stöðugleika, viðheldur vökvajafnvægi, losar um hægðir og gefur lífinu bragð. Of mikið salt kemur ójafnvægi á blóðið. Sterkt bragð er létt, þurrkandi og hitandi. Sterkt bragð örvar blóðrásina, opnar stíflur og drepur bakteríur. Það gerir okkur skýr í hugsun. Í of miklu magni er það þurrkandi og getur truflað taugakerfið. Beiskt bragð er það bragð sem vantar mest í vestrænu mataræði. Það er td. í aloe vera, fenugreek, klettasalati, fíflablöðum og túrmeriki. Það styrkir meltinguna og lifrina, kælir og hefur jákvæð áhrif á húðina. Beiskt bragð hjálpar líkamanum að hreinsa burtu óhreinindi. Of mikið beiskt bragð kælir og þurrkar og getur valdið næringarskorti. Samandragandi bragð er í granateplum, kjúklingabaunum og alfa alfa spírum. Það aðstoðar við að græða magasár og gefur okkur fókus ef notað í hófi. Of mikið af því þurrkar líkamann og getur valdið hægðatregðu.

Þegar við notum allar sex bragðtegundirnar í náttúrulegri, heilnæmri máltíð, þá nærist líkaminn vel. Við förum sátt frá borðinu og verðum minna fíkin í aukabita. Við byggjum upp heilbrigðan líkama, aukum orkuna og styrkjum ónæmiskerfið. Þegar þú borðar máltíð sem er með jafnvægi á öllum sex bragðtegundunum þá upplifirðu léttleika, vellíðan og innri frið.

Það er mjög gagnlegt að þekkja líkamsgerð okkar í ayurveda til að vita hvaða bragð við þurfum að leggja áherslu á og hvað við eigum að forðast. En ef við erum í sæmilega góðu jafnvægi þá segir líkaminn okkur hvað við þurfum. Við getum látið bragðlaukana vísa okkur veginn að góðri heilsu.

Megi líf þitt vera bragðmikið og gefandi á öllum sviðum.

Ég býð upp á heildræna heilsuráðgjöf og get boðið þér að koma og fá stuðning við að greina líkamsgerð þína og finna hvað þú þarft til að finna betra jafnvægi á huga og líkama. Velkomið að senda mér tölvupóst ef þú vilt fá nánari upplýsingar.

Guðrún Arnalds – jógakennari, heildrænn heilsuráðgjafi og leiðbeinandi í Fókusing – aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Flokkar

Nýjast

Að vingast við streitu

Að vingast við streitu

Dauðsföll, áföll og erfiðir vinnufélagar eru streituvaldar sem við getum ekki ráðið við. En svo eru aðrir streituvaldar sem við getum unnið með. Eins og viðhorf, venjur og viðbrögð okkar í daglegu lífi. Flest vandamál sem við glímum við, hvort sem það eru veikindi eða...

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Frí er ekki ávísun á góðan svefn

Oft hef ég séð það í hyllingum að komast í frí og geta loksins sofið og hvílt mig almennilega. En oftar en einu sinni hefur svefninn versnað til muna eða að minnsta kosti ekki batnað eins og vonir stóðu til. Ég var lengi að átta mig á því að þetta væri ekki tilviljun....

Birta

Birta

Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur....

Um mig

Ég heiti Guðrún. Jógakennari, rithöfundur, markþjálfi og hómópati.

Ég elska að skrifa. Skrif hjálpa mér að heyra hvísl lífsins í gegn um skarkala heimsins.

Ég styð fólk í að finna jafnvægi í óstöðugum heimi. Að gefa heilsunni rými og hlusta eftir því sem hjartað býður, fram hjá sjálfsgagnrýni og kröfum umhverfisins. Að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augu líkamans. Og að skynja töfrana sem búa í Andartakinu.