Tíu heilræði úr viskubrunni jóganna

Nú er komið nýtt ár og margir hafa þann sið að strengja áramótaheit. Áramót eru ágætur tími til að horfa yfir farinn veg og setja okkur ný markmið. Málið fer hins vegar að vandast ef við ætlum okkur meira en við getum staðið við. Þá bætist samviskubit ofan á álagið sem fyrir er. Og ekki þjónar það okkur.

Einhvers staðar rakst ég á lista yfir tíu algengustu áramótaheitin: Þar voru mjög hátt á listanum áform um að koma sér í gott form, borða hollari mat og að grennast. Flest höfum við tilhneigingu til að vilja taka hlutina með áhlaupi og sjá árangurinn strax í gær, helst.

Jóga býður okkur að horfa á heildarmyndina og sinna öllum þáttunum í okkur sjálfum – og finna þannig styrkinn aukast innan frá – líka viljastyrkinn – og þá getum við betur staðið með okkur sjálfum. Kundalini jóga er sérstaklega öflug leið til að byggja upp sterkt taugakerfi, innkirtlakerfi og ónæmiskerfi – og vöðva líka. Jóga er nefnilega ekki bara teygjur og slökun, þó það sé vissulega með líka. Á þennan hátt öðlumst við innri styrk til að takast á við það sem að höndum ber. Jóga kennir okkur líka leiðir til að lifa lífinu í meira jafnvægi og hvernig við getum lært að hlusta á líkamann og finna þannig hvað hentar okkur og hvenær við erum að ætla okkur um of.

Lífsstíll jógans byggir á daglegri iðkun – sem ekki þarf alltaf að vera jógaiðkun í hefðbundnum skilningi. Hún þarf heldur ekki að taka langan tíma. Þegar við iðkum jóga erum við líka að búa okkur undir að takast á við lífið. Hluti af þessari daglegu iðkun eru ýmsar venjur sem við lærum að tileinka okkur og sem þjóna bæði huga líkama og sál og gera okkur það auðveldara að velja það sem lyftir okkur upp í stað þess að halda í gamlar venjur sem draga okkur niður.

HÉR Á EFTIR FARA NOKKUR HEILRÆÐI sem byggja á jóga og systurvísindum þeirra – ayurveda* (“vísindin um verundina”) til þess að auka gleði og hamingju á nýju ári:

ANDAÐU DJÚPT – andaðu meðvitað, njóttu þess að anda að þér lífsorku.
TENGDU INN Á VIÐ – hugleiddu, farðu með bæn, hlustaðu á þögnina innra með þér á hverjum degi – gönguferð er ágæt leið til að eiga stund með sjálfum sér.
HRESSTU ÞIG VIÐ: Skvettu framan í þig köldu vatni – eða farðu í kalda sturtu á morgnana
ENDURNÆRÐU ÞIG: Finndu þér leiðir til að auka orkuflæðið þitt á hverjum degi – ayurveda mælir með því að bera olíu á líkamann á hverjum degi og leyfa húðinni að drekka hana í sig og fara svo í sturtu.
VÖKVAÐU LÍKAMANN Byrjaðu daginn á að fá þér glas af vatni við stofuhita og bættu út í hann safa úr hálfri sítrónu.
HREYFÐU ÞIG: byrjaðu daginn á hreyfingu – gönguferð, jóga, dans, sund – og finndu hjartað taka kipp af lífi og gleði:-)
ÖRVAÐU MELTINGARELDINN: Drekktu fennelte eftir matinn til að örva meltinguna. Það getur líka verið gott að drekka engiferte með eða fyrir matinn.
UMFAÐMAÐU ÁRSTÍÐIRNAR – ræktaðu hlýju og ró á veturna, hita og hreyfingu á vorin, hægðu á þér á haustin og á sumrin getum við tekið lífinu létt og leikandi. Það er ágætt að reyna að borða sem mest af fæðu sem fylgir hverri árstíð.
SOFÐU VEL. Best er að fara að sofa fyrir 10 og sofa í 8 tíma. Það hjálpar að hlusta á fallega tónlist eða fara í rólega gönguferð fyrir svefninn.
ÞAKKAÐU FYRIR – bæði það góða og líka erfiðleikana. Þeir eru bestu kennararnir okkar.

Ferðalagið okkar á lífsleiðinni verður svo miklu skemmtilegra ef við náum að njóta þess og taka það eitt skref í einu. Viskupunktarnir hér að ofan eru líka til að njóta einn í einu – og bæta við og draga frá eins og hjartað býður:-)

www.andartak.is        gudrun@andartak.is

* Ayurveda eru systurvísindi jógafræðanna og hægt að lesa sér meira til um þau hér: http://andartak.is/frodleikur/ayurveda