Lífsorka og streita

9875be57ca21e1564d61ae067133f786Einhver sagði einhvern tíma að það skipti ekki máli hversu lengi við lifum, heldur hversu full af lífsorku við erum í andartakinu. Ekkert okkar vill bara halda lífi. Við viljum finna lífið streyma um æðarnar og leyfa lífinu að finna fyrir okkur.

Í grískri goðafræði er sagt frá Eos, gyðju dögunar og Tithonus elskhuga hennar sem var mannlegur. Eos bað Seif um að gera elskhuga sinn eilífan svo þau mættu njóta eilífrar sælu saman. En Eos gleymdi að biðja um lífsorku og eilífa æsku handa Tithonusi. Svo hann lifði í eilífðinni og var fangi hennar og bað stöðugt um að dauðinn mætti taka hann.

Þetta er sterk lýsing á togstreitunni innra með okkur: löngunin til þess að lifa að eilífu og óttanum við ellina. Við óttumst skortinn á lífsorkunni meira en dauðann. Án lífsorkunnar er lífið bara skuggi tilvistarinnar.

Menning okkar vill fá okkur til að trúa því að lífsorka sé eitthvað sem tilheyri fyrst og fremst æskunni, eitthvað sem við getum fengið til baka með því að taka pillu, drekka orkudrykki eða borða einhvern sérstakan mat. Eitthvað sem við sækjum fyrir utan okkur sjálf.

Jógafræðin kenna okkur að lífsorkan sé hluti af okkur – eiginleiki sem tilheyrir vitund okkar. Ekki eitthvað sem við sækjum okkur eða eigum, heldur gjöf sem er alltaf með okkur – gjöf sem við getum tekið á móti, nært og sleppt. Það er nóg af lífsorku, við þurfum bara að tengja við hana. Jógaiðkun gefur okkur samband við uppsprettuna innra með okkur og opnar fyrir orkuflæðið.

Lífsorka er ákveðin meðvitund. Lífsorka er mýkt og sveigjanleiki í líkamanum og viljastyrkur. Lífsorka er ástand líkama, hugar og sálar þar sem við getum alltaf gert okkar besta.

Margt getur hindrað flæði lífsorkunnar. Mikilvægir þættir sem viðhalda flæði orkunnar okkar eru til dæmis svefn, regla, nærandi fæða, jafnvægi í vinnu, gleði og jákvæður hugur. Grunnorkan okkar er eins og innistæða í banka. Ef við göngum á hana þarf að gæta þess að hlaða batteríin að nýju. Það er ekki alltaf auðvelt en það er hægt.

Jóga getur byggt upp lífsorku, hreyft við orkunni sem við erum þegar með og losað um hindranir sem stöðva okkur í að finna eigin orku. Takmarkið er að nota orkuna sem er alltaf með okkur. Við getum endurhlaðið orkubatteríin okkar á 15-20 mín. Af því lífsorkan er hluti af okkur.

Streita er kraftur eða áhrifavaldur sem heftir okkur. Við upplifum streitu eða álag þegar innri uppsprettan okkar er ekki næg eða svo stífluð að við getum ekki brugðist rétt eða vel við aðstæðum. Streita getur gert okkur hrædd, kvíðin og reið. Stundum eru viðbrögð okkar undir álagi ekki eins og við myndum vilja hafa þau. Jógarnir segja að 85% af hegðun okkar sé sjálfkrafa og ákvarðist af umhverfi okkar.

Lífsorkan okkar minnkar þegar við hindrum lífskraftinn – tökum ekki við honum. Þegar við afneitum tilfinningum okkar og bælum þær í stað þess að deila tilfinningunum og vinna úr þeim. Þá missum við sambandið við uppsprettuna og flæðið stíflast.

Eins og fljót sem streymir til sjávar þurfum við að tengjast uppsprettunni, annars þornum við upp og hættum að hafa eitthvað til að gefa okkur sjálfum og öðrum.

Það er svo mikilvægt að finna sér leiðir til að endurnærast, hlaða batteríin í öllu því áreiti sem við búum við í daglegu lífi nútímans. Þannig fyrirbyggjum við orkuleysi, svefntruflanir, vöðvabólgu og önnur áhrif af langvarandi streitu og opnum fyrir flæði lífsorkunnar. Að fara út að ganga í hádeginu er góð leið til að skipta um gír á miðjum degi. Í jóga erum við að leyfa okkar eigin lífsorku – prönu – að endurnæra okkur. Við fáum frið frá skvaldrinu í huganum, tengjum við hjartað og styrkjum um leið sambandið við viskuna innra með okkur.