Kanntu listina að slaka á?

tree-of-life72Það að kunna að slaka á er ekki sjálfgefið – að minnsta kosti ekki fyrir okkur sem lifum við álag og áreiti nútímalífs. Við erum misviðkvæm fyrir streitu og áreiti en flest eigum við það sameiginlegt að geyma streitu í líkamanum – líka þegar dagurinn er að kvöldi kominn og við gefum sjálfum okkur leyfi til að taka lífinu með ró. Þetta er oft djúpt liggjandi spenna í taugakerfinu sem erfitt getur verið að ná í og fá líkamann til að slaka á.

Í flestum tilfellum erum við ekki meðvituð um nema hluta af þeirri spennu sem við geymum i líkamanum. En eins og með allt annað getum við endurheimt hæfileikann til að slaka á – eins og við getum þjálfað aftur upp vöðva.

Heilabylgjur og slökun


Taugafrumur í heilanum senda frá sér bylgjur á mismunandi tíðni – og þannig er hægt að mæla stig slökunar.
 Þegar við erum vakandi sendir heilinn frá sér Beta-bylgjur. Flest okkar erum í beta ástandi þegar við erum að hugsa. Alfa bylgjur koma þegar við erum slök. Þær eru taldar hjálpa okkur að græða líkama og huga. Ef við slökum aldrei á, þá eru streituhormón í stöðugri virkni og hæfileiki okkar til að læra og vera skapandi minnkar. Þeta bylgjur koma þegar við erum í djúpum svefni eða mjög djúpri slökun. Þær hjálpa okkur að læra, vaxa og græða líkama og huga. Delta bylgjur eru líka til staðar þegar við erum sofandi eða meðvitundarlaus eða í djúpu hugleiðsluástandi. Gamma bylgjur koma fram þegar við erum óvenjulega vakandi og næm fyrir umhverfi og upplýsingum.

Djúp slökun og hugleiðsla geta aukið magn af alfa bylgjum og með aukinni þjálfun einnig aukið tíðni delta, þeta og gamma bylgna. Í kjölfarið verðum við hæfari til að takast á við álag, líkamleg og andleg heilsa okkar eflist og það verður auðveldara fyrir líkamann að græða og vinna úr hlutum sem hrjá okkur.