Jólameltingin

10278193_xxlÁ jólunum komum við saman til að njóta samvista við okkar nánustu, styrkja böndin sem tengja okkur saman og borðum góðan mat saman. Jólunum fyglja alls kyns hefðir sem við tengjum við á hverju ári og sem gefa okkur tilfinningu fyrir að tilheyra og vera hluti af heild. Jógafræðin kenna okkur að hugurinn hefur áhrif á alla okkar líðan – og þar af leiðandi líka meltinguna. Ef okkur líður vel og erum sátt þá gengur okkur betur að melta og njóta þess sem jólunum fylgir. Fyrir suma eru jólin erfiður tími og þá er enn mikilvægara að finna leiðir til að tengja við hlutlausa hugann og æðruleysið í hjartanu. Og svo er líka ágætur siður að muna eftir að þakka fyrir og minna okkur þannig á allt það góða sem við höfum – að glasið er hálffullt en ekki hálftómt. Við búum við allsnægtir. Hér á eftir fara nokkrir punktar frá Ayurvedalækninum Flore Nicolas til að hjálpa okkur að melta betur jólamatinn sem stundum er dálítið þungur í maga – svo við getum notið hans með góðri samvisku

  • Á aðfangadag er gott að byrja daginn á því að fá sér glas af volgu vatni (stofuheitt) um leið og þú vaknar. Svo er gott að blanda 1 teskeið af hunangi með ½ teskeið af túmerik og tyggja blönduna vel. Drekktu svo hálft glas af heitu (soðnu) vatni. Það örvar meltinguna og brennsluna og verndar magann í gegnum daginn. Ef þú ert með of mikla sýru í líkamanum eða með bakflæði, þá geturðu gert þetta á nokkurra klukkutíma fresti (eftir því hversu slæm einkennin eru). Það hjálpar til við að lækka sýrustigið í líkamanum.
  • Rétt áður en þú borðar aðalmáltíðina um jólin: Skerðu eina þunna sneið af fersku engiferi á stærð við nögl á þumalfingri og settu 2 kristalla af grófu salti (eða dálítið af venjulegu salti) ofan á og 3-5 dropa af sítrónusafa. Settu þetta svo í munninn og tyggðu eins lengi og þú getur. Drekktu nokkra vatnssopa og borðaðu svo matinn beint á eftir. Þetta örvar meltinguna og maginn verður ánægður!
  • Ef þú ert með meltingartruflanir eða uppþembu eftir matinn er gott að tyggja teskeið af fennelfræjum eins lengi og þú getur, til að auka framleiðslu á munnvatni. Drekktu svo 1-2 sopa af vatni (ekki meira). Þú getur líka fengið þér fennelte háftíma eftir matinn. Það hjálpar meltingunni.
  • Ef þú drekkur áfengi, fáðu þér þá glas af volgu vatni (stofuheitt) fyrir hvert glas af áfengi sem þú drekkur. Og fáðu þér fennelte yfir daginn til að minnka sýruna í líkamanum.
  • Daginn eftir er gott að halda áfram að lækka sýrustigið í líkamanum og örva meltinguna með því að drekka te (uppskrift hér að neðan) allan daginn. Bara lítið í einu.
  • Fjölskyldan getur verið streituvaldur – t.d. ef samskiptin eiga það til að vera erfið og það geta komið upp gömul mynstur sem fá okkur til að bregðast við eins og við værum aftur börn. Ef þú hefur tilhneigingu til að finna til streitu á jólunum, er gott að muna að tilfinningar hafa gríðarleg áhrif á meltinguna. Til að forðast streitu eða til að róa tilfinningarnar er gott að nota öndunina. Að anda langa, djúpa öndun eða víxlöndun. Og gerðu svo allt sem gerir þig hamingjusama(n) – jóga, tónlist, söng, dans, hitta vini, hlæja, lesa, fara í göngutúra… Það sem virkar fyrir þig – taktu frá tímann og leyfðu þér að eiga þessar stundir! Það er þess virði! Það græða allir á því ef það er ró, hamingja og fríður í hjarta þínu og í kringum þig.
  • Hugleiðsla er mjög góður félagi að eiga að. Hugleiðsla fyrir friðsælt hjarta er til dæmis góð byrjunarhugleiðsla – og á vel við yfir jólin

Meltingarteið hennar Flore Nicolas:
1 lítri af vatni
Klípa af svörtum pipar
Handfylli af engiferrót (afhýdd og niðurskorin)
1 teskeið af hrásykri
1 teskeið af Himalayasalti (klettasalt)
Safi úr hálfri límónu

Aðferð:
Setja allt (nema safann) saman í pott og sjóða. Láta sjóða í 20 mínútur. Taka svo pottinn af hellunni og láta kólna í nokkrar mínútur. áður en þú bætir límónusafanum út í. Settu teið í hitakönnu og njóttu yfir daginn.