Gjöfin að vera kona

Durgahof4Konur eru alltaf að takast á við breytingar í gegnum ævina. Í hverjum mánuði með mismunandi hormónaflæði og í gegnum ævina í þeim mismunandi hlutverkum sem konan gegnir. Dóttir, móðir, amma – konur samsama sig mjög sterkt með hlutverkum sínum – mun sterkar en karlar gera – og þess vegna hafa þessar breytingar mjög djúp áhrif á okkur.

Konur eru í eðli sínu mjög sterkar – á annan hátt en karlar. Þær búa yfir ríku innsæi, sköpunarkrafti og tilfinningalegum styrk. Ef innsæið er sterkt finnum við ekki til ótta heldur treystum okkar innri leiðsögn og vitum hvert við stefnum. Til þess að nýta þennan innri styrk okkar þurfum við að vera meðvitaðar um hann og geta sótt hann innra með okkur. Þess vegna er öll andleg rækt mjög mikilvæg fyrir konur.

Konur þurfa að næra andann til að upplifa hamingju.  Þær geta gert það í gegnum það að vera skapandi, með því að upplifa náttúruna og svo er hugleiðsla mjög holl og góð fyrir konur.  Hugleiðsla kennir okkur að skynja dýptina innra með okkur og gefur okkur sjálfstraust. Og hún hjálpar okkur að hreinsa undirvitundina.  Konur sækja öryggi sitt í víddina innra með sér og finnst því oft eitthvað vanta í líf sitt þó þær njóti veraldlegs öryggis ef þennan þátt vantar. Ef þær gefa sér ekki tíma eða rými til að næra þetta samtal við vitru konuna hið innra.

Konur hafa í gegnum kvennabaráttuna haft tilhneigingu til þess að reyna að herma eftir styrk karlmanna og reyna að verða sterkar á þeirra forsendum en ekki sínum eigin. Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur konur að læra að átta okkur á hvað það merkir að vera sterkar og halda samt áfram að vera konur – ekki herma eftir þessari ímynd af sterkum karlmanni.

Kona getur haft mikil og jákvæð áhrif í kringum sig ef hún er í góðu jafnvægi en að sama skapi getur hún haft mjög neikvæð áhrif á umhverfi sitt ef hún er það ekki. Þetta getur brotist út sem nöldur eða óánægja þar sem við gleymum að meta það sem við höfum. Og þegar kona er neikvæð hefur það margfalt meiri áhrif en þegar karlmaður gerir það af því hún er hjarta heimilisins. Við þurfum að átta okkur á ábyrgðinni sem felst í því að vera kona. Það sem er styrkur konunnar ef hún er í jafnvægi getur snúist gegn henni ef hún er í ójafnvægi og gert hana óstöðuga og óánægða.

Einn af veikleikum konunnar er þegar henni finnst hún þurfa að fá viðurkenningu frá umhverfi sínu í stað þess að meta sig sjálf að verðleikum. Jógafræðin kenna okkur að mótvægið liggi í því að finna til þakklætis.

Sagt hefur verið að siðferðisstyrkur hverrar þjóðar birtist í andlitum kvennanna. Að þegar karlmenn heimsins bera virðingu fyrir konum og börnum þá verði friður á jörðinni. Þegar konur sýna hver annnarri vinsemd og kærleika þá þorna tárin.

Það er afar mikilvægt fyrir konur að leita leiða sem henta hverri og einni til að koma sér í jafnvægi svo hún geti dvalið í styrk sínum, flogið hátt og blómstrað og haft jákvæð áhrif á samfélagið í leiðinni.