Dansandi, litríkur sprengiásetningur

Nýtt ár markar ferskt upphaf fyrir óskir og drauma. Það er líka tilvalin stund til að horfa yfir farinn veg og taka eftir því sem við getum verið þakklát fyrir.

Mér finnst gott að byrja árið á að fara inn á við og skoða hvert ég vil stefna og hvað skiptir mig máli í lífinu. Áramótaheit eiga það til að sitja aðeins of nærri fullkomnunarpúkanum. Stundum hef ég strengt áramótaheit út frá einhverju sem mér fannst vanta, eitthvað sem mér fannst að ég þyrfti að laga. Einhver hluti af mér ákvað að einhver annar hluti af mér væri ófullkominn. Og þyrfti að breytast. Þessi nálgun á sjálfa mig varð yfirleitt til þess að þessi hluti af mér sem átti að breytast fór í uppreisn. Og ekkert breyttist.

Ég ákvað að leggja áramótaheitin til hliðar og velja í staðinn að búa mér til ásetning. Ásetningur er eins og leiðarljós. Vörður sem geta vísað mér veginn í gegnum árið. Minnt mig á hvað það er sem skiptir mig máli. Og gefið mér tilgang.

Það er mikilvægt að setja sér markmið. Án þeirra verðum við stefnulaus. En markmið geta stundum orðið eins og langur listi af einhverju sem við ætlum að gera. Koma í verk. Ásetningur snýst meira um gildin mín, um það hver ég vil vera og hvernig ég vil lifa. Hann minnir mig á að njóta ferðarinnar. Að vera í stað þess að gera.

Ég gerði mér það að ásetningi um þessi áramót að sýna sjálfri mér og öðrum kærleika og umburðarlyndi. Að gefa gagnrýnandanum innra með mér frí. Bjóða honum að sitja í aftursætinu. (Hann heitir öðru nafni “Ótti”). Að velja það sem hjartað mitt þráir í stað þess að velja það sem ég held að aðrir ætlist til af mér. Og ég ákvað að gera sköpun og skapandi tjáningu að einni af vörðunum mínum fyrir þetta komandi ár. Ófullkomna gleðisköpun. Þetta er því nokkurs konar dansandi litríkur sprengiásetningur með hættulegu ívafi.

Um leið og ég set niður vörður fyrir árið mitt þá þarf ég líka að setja þær inn á kortið mitt. Ég þarf að setja þær í samhengi við mitt eigið líf. Annars er hann bara orð og gæti átt það til að gleymast mitt í öllu amstrinu. Það hjálpar að skrifa hann niður og segja hann upphátt. Og ekki er verra að lita hann, syngja hann og dansa. Og síðast en ekki síst – að taka hann með mér inn í jógaiðkunina mína.

Til að ásetningurinn minn nái að festa rætur og blómstra er auðvitað mikilvægt að rækta jarðveginn sem ég sái honum í. Minn eigin huga. Ef ég er ekki með virkt samband við hugann þá er ég eins og stjórnlaust farartæki. Eins og þegar við keyrum í djúpum snjó. Þá lendum við inni í hjólfari og alveg sama hvernig við reynum að sveigja bílinn til og frá. Hann er eins og með sinn eigin vilja og eltir bara hjólfarið. Daglega hugleiðslan mín gefur mér þetta samband við hugann. Og hjálpar mér að brjóta upp hjólförin mín. Að velja hvort ég samsama mig með tilfinningum mínum og hugsunum. Að velja þakklæti. Að dansa í gegnum vörðurnar mínar og njóta þess að horfa á garðinn minn blómstra.

Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati