Að höndla lífið á öld upplýsinganna

Ég kynntist fyrir nokkrum árum jógaiðkun sem kallast Kundalini jóga og er kennd eftir forskrift jógameistarans Yogi Bhajan. Ég heillaðist strax af þessu heildræna æfingakerfi sem var að mörgu leiti ólíkt þeirri jógaiðkun sem ég hafði áður kynnst.  Það sem heillaði mig mest voru þau djúpu áhrif sem ég varð fyrir strax af iðkuninni. Fyrir mig var þetta ást við fyrstu sýn og ég ákvað mjög fljótt að læra að verða kennari í Kundalini jóga.

En þar sem enginn kennari var hér á landi hafði ég ekki mikla reynslu af ástundun þess þegar ég fór í námið. Í náminu var fljótlega farið að fjalla um öld Vatnsberans. Ég kveikti ekki mikið á þeirri umræðu til að byrja með.

Eitt af því sem vakti samt athygli mína var sú mynd sem Yogi Bhajan hafði dregið upp fyrir nokkrum áratugum af okkar tímum og birtist mér sem lifandi lýsing á því sem ég þekkti sjálf. Svo ég ákvað að hlusta með opnum huga og sjá hvað ég gæti lært.

Breytingarnar á okkar tímum eru hraðari en nokkru sinni fyrr og lífsstíll okkar og samskipti eru að breytast líka. Amma mín sem er að verða hundrað og tveggja ára í næsta mánuði þurfti vissulega að takast á við erfiðleika – en þeir voru allt annars eðlis en þeir sem við fáum í fangið.  Þó líf hennar hafi verið að mörgu leiti harðara og lífsbaráttan strangari þá var það líka einfaldara líf sem hún lifði og áreitið mun minna.

Ég ætla að vitna í Yogi Bhajan sjálfan úr fyrirlestri sem hann hélt árið 1999: “Árið 2013 verður mannkynið búið að ná 7 billjónum. Tæknibreytingar, andlegar og félagslegar breytingar verða verulegar. Mikið magn af upplýsingum sem verður aðgengilegt á tölvuöld eiga eftir að gera fólki erfitt fyrir í daglegu lífi.  Mennirnir þurfa að “skipuleggja” líkama, huga og sál til að mæta þessum aðstæðum.“

Við getum líklega alveg tekið undir þessa lýsingu á 21. öldinni og líka þá miklu aukningu í geðsjúkdómum og andlegum vandamálum alls konar sem var spáð að myndi einkenna okkar tíma.

Það er undir okkur sjálfum komið hvort við náum að höndla hraðann og álagið sem við lifum við.  Lífið er stöðugt flóknara og við þurfum að læra að takast á við flækjurnar. Þetta eru tímar mótsagna. Við búum við aukna heimsmenningu og lika meiri einstaklingshyggju. Allt gerist hraðar og við höfum minni tíma. Líf okkar flestra er litað af því óöryggi sem ríkir í heiminum í dag og margir finna hjá sér þörf fyrir að næra andlegu hliðina án þess að hafna því efnislega. Við þurfum að rækta með okkur andlegan styrk til að geta gefið lífinu gildi og tilgang.  í Kundalini jóga er sérstök áhersla á að styrkja taugakerfið og næra andann.

Við erum sem samfélag mjög háð því að það sé stöðugt verið að hafa ofan af fyrir okkur með alls kyns skemmtiefni, vinnu eða öðru sem grípur hugann. Þetta verður í mörgum tilfellum til þess að við förum að upplifa ákveðið tómarúm innra með okkur. Við hættum jafnvel að eiga frumkvæði og að hafa brennandi áhuga á lífinu.  Yogi Bhajan kallaði þetta “kalt þunglyndi” og lagði áherslu á að þörfin fyrir fyrir tæran huga og andlegan styrk myndi aukast til að við gætum horfst í augu við lífið.  Ein besta leiðin til þess er í gegnum jógatækni þar sem við lyftum huga, líkama og sál upp í hærri hæðir.  Þess vegna á jóga eftir að blómstra í framtíðinni.