Rými fyrir vorgleðina

6222773_xlNú er vorið loksins alveg búið að syngja burtu veturinn og sumarið framundan. Íslenska sumarið er okkur dýrmætt – það varir svo stutt og er fullt af birtu og endurnærandi orku. Vorið er góður tími til að hreinsa bæði líkamann og hugann, að létta á farangrinum sem við burðumst með. Það er svo miklu auðveldara að taka sumrinu opnum örmum með opinn huga.

Við í Andartaki erum búin að eiga dásamlega vorhreinsun saman á námskeiðinu “Sterk ára, tær hugur, blómstrandi heilsa.” Þar sem við einbeittum okkur að því að fyrirgefa og sleppa, og lifa í núinu í stað þess að halda fast í söguna okkar. Við höfum tilhneigingu til að halda í gamlar sögur, oft erfiðu sögurnar okkar – að segja þær aftur og aftur – og þannig halda þær áfram að lifa. Á þennan hátt erum við jafnvel að endurskapa þær. Það er mikill léttir að sleppa gömlum höftum. Við eigum örugglega eftir að endurtaka þetta námskeið – það var svo skemmtilegt.

Systurvísindi jógafræðanna – Ayurveda – kenna okkur mikilvægi þess að lifa í takti við náttúruna, hlusta á hvað hún hefur að segja og fylgja ráðum hennar. Ayurveda – vísindi og viska lífsins- fjalla meðal annars um eiginleika innra með okkur – vata, pitta og kaffa – sem við geymum í mismunandi hlutföllum. Þessir eiginleikar lýsa frumöflunum – vata er loftið og rýmið innra með okkur, pitta er eldurinn sem drífur meltinguna og skýra kraftmikla hugsun, kaffa er ílátið sem geymir eldinn og vatnið, og gefur okkur festu og kyrrð. Fyrir þá sem ekki þekkja til Ayurveda er hér hægt að lesa meira.  Á vorin þurfum við að hugsa sérstaklega vel um kaffa. Þegar kaffa er í jafnvægi finnum við styrk okkar og stöðugleika. Ef kaffa fer úr jafnvægi erum við oft syfjuð eða með sljóan huga og jafnvel þunglynd. Það gæti líka fylgt því aukið slím í lungum eða kinnholum, ógleði og vatnssöfnun eða þungi í útlimum.  Það er sérstaklega mikilvægt að koma jafnvægi á kaffa á vorin því kaffa safnast upp á veturna og getur valdið veikindum þegar vorið kemur.  Vetrinum fylgir kuldi og raki og þá speglum við þessa eiginleika í okkur sjálfum og höfum tilhneigingu til að borða og sofa meira, sitja inni og búa okkur þannig til vetrarkápu til að einangra okkur gegn kuldanum. Á vorin þurfum við að varpa af okkur þessari kápu af kaffayfirflæði – annars eigum við það á hættu að fá vorkvef og alls kyns ofnæmi – eða við gætum fundið fyrir framtaksleysi og tilfinningaþyngslum.

Meðal vorsins samkvæmt þessum aldagömlu vísindum er að búa sér til takt og rútínu fyrir daginn sem hjálpar okkur að létta okkur líkamlega, huglægt og tilfinningalega án þess að trufla stöðugleika kaffa. Best er að nálgast þetta frá mörgum hliðum: Borða létt fæði, hreyfa sig – fara út í náttúruna. Jóga er mjög gagnlegt á þessum tíma og þá ekki síst öndunaræfingar og hugleiðsla. Í kundalini jóga er fullt af kríum sem hreyfa við orkunni og opna orkuflæðið.