Jógísk ráðgjöf

hhc_stockphoto_treesViska jógafræðanna gefur okkur djúpa innsýn í eðli manneskjunnar og það hvernig við getum lifað heil og hamingjusöm. Þrátt fyrir að vera mörg þúsund ára gömul viska þá á hún fullt erindi til nútímamanneskjunnar. Ekki bara sem iðkun heldur líka sem tær, lifandi og leiðbeinandi viska sem getur vísað okkur veginn. Og þannig hjálpað okkur að öðlast dýpri tilgang, sterkari taugar til að standast álag, bætt samskipti og heilbrigðari lífsstíl sem styður við okkur í daglegu lífi. Til dæmis í tengslum við heilbrigðan lífsstíl og mataræði, listina að vera kona, að eiga heilbrigt samband við hugann og þar með við sjálfan sig og aðra – og sitja við stjórnvölinn í eigin lífi.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að læra af mörgum vitrum og öflugum kennurum, bæði jógakennurum, ayurvedalæknum og öðrum “viskustykkjum” með mismunandi sérþekkingu á undanförnum 25 árum. Þetta ferðalag mitt hefur gefið mér ómældan innblástur og dýpri skilning á sjálfri mér sem manneskju. Ég hef  í gegnum þetta ferðalag lært leiðir til að finna jafnvægi og skapa mér ánægjuríkara líf og ferðinni er langt frá því lokið – hún á eftir að endast mér út lífið. Ég lít á það sem forréttindi að fá að miðla af þeirri þekkingu og reynslu sem lífið hefur fært mér að gjöf.

Jógafræðin fjalla um alla þætti mannlegrar tilveru. Hér má nefna nokkur sem ég hef lagt sérstaka rækt við:

5ea163a5b8d05bacb0dc0839e093dc08_largeLífsstíll og mataræði. Jóga og ayurveda, systurvísindi jógafræðanna kenna okkur leiðir til að rækta með okkur lífsstíl sem styður við okkur í daglegu lífi. Við getum lært að skilja hver okkar líkamsgerð er og hvað við þurfum til að blómstra. Mataræði er ekki bara hollt fæði heldur hvað við þurfum og hvernig okkur gengur að melta það sem við borðum. Til dæmis getum við lært að nota krydd til að melta betur fæðuna. Við búum á landi þar sem veðrið er alltaf að breytast og vindurinn blæs, stundum úr mörgum áttum. Það gefur okkur líka vísbendingu um það hvernig við eigum að borða til að líða vel. Yfirleitt sækjum við í það sem er hollt fyrir okkur. En oft erum við búin að rugla þetta kerfi sem segir okkur hvað við þurfum. Mataræði sem hentar okkur getur breytt allri líðan okkar.

Hugur og hjarta. Lífið snýst um að finna jafnvægi þarna á milli. Hugurinn á sér svo margar hliðar. Sú hlið hugans sem við notum mest í daglegu lífi vill úthugsa allt – vera með allar hliðar málsins á hreinu áður en hann ákveður sig. Hjartað er í raun innsæið, litla tæra röddin innra með okkur sem við heyrum misvel í. Samfélagið hvetur okkur meira til að hlusta á hugann. Þess vegna þurfum við að þjálfa okkur í að hlusta á hjartað. Á þeirri leið getur verið ágætt að fá stuðning, leiðsögn og speglun. Þegar einhver speglar til okkar því sem hjartað segir þá heyrum við það betur. Leiðin að hjartanu liggur í gegnum líkamann – í gegnum andardráttinn. Andardrátturinn getur hjálpað okkur að sleppa gömlum mynstrum og tilfinningum sem þjóna okkur ekki lengur. Öndun með leiðsögn getur þannig opnað fyrir okkur nýjar víddir innra með okkur. Við erum með alla viskuna innra með okkur.

Sambandið okkar við hugann. Hugurinn getur verið okkar besti vinur og okkar versti óvinur allt eftir því hvernig sambandið við hann er. Hugurinn er meistari blekkinganna. Hann getur talið okkur trú um ótrúlegustu hluti – eins og að við séum ekki nógu góð, séum ekki nóg. Ef við trúum hugsunum okkar þá erum við að hlusta á rangan ráðgjafa. Þó hugurinn sé vissulega mikilvægur félagi þá megum við ekki láta hann stjjórna okkur.

Hugleiðsla er eitt af þeim tækjum sem getur hjálpað okkur að eiga heilbrigt samband við hugann og eiga greiðan aðgang að kyrrðinni innra með okkur sem er þar alltaf, sama hvað á dynur í kringum okkur. Alveg eins og himinninn er alltaf blár í grunninn – hvort sem við sjáum í blámann eða ekki í gegnum skýjaþykknið. Á sama hátt er kyrrðin hluti af okkur öllum stundum. Hugleiðsla er líka leið til að hreinsa hugann. Eins og setja hann í bað. Og létta þannig á farangrinum sem við burðumst með.

13224336_xxlKonur.  Jógafræðin hafa mikið að gefa konum og geta hjálpað okkur að skilja betur okkar eigið eðli. Við búum í karllægum heimi og erum oft að berjast við að hugsa og gera hlutina á forsendum karlmannsins í stað þess að sækja styrkinn í okkar eigin brunn. Konur búa yfir miklu innsæi og næmni og eru yfirleitt mun hamingjusamari þegar þær gefa sér tíma til að rækta og næra vitru konuna innra með sér. Einn helsti veikleiki konunnar er þegar hún vill að umhverfið meti hana að verðleikum og finnur ekki eigið virði sjálf. Konur geta haft mjög mikil og jákvæð áhrif á umhverfi sitt og sína nánustu og hafa einstakan hæfileika til að skapa sinn eigin veruleika. Jógafræðin kenna okkur hvernig við getum nálgast þennan styrk og nýtt hann í eigin lífi og í þágu annarra. Nánar hér: Konur

Greinar

Gjöfin að vera kona – gjöfin að vera kona,

Frjósemi, meðganga, fæðing og brjóstagjöf – Frjósemi, meðganga, fæðing og brjóstagjöf

Tímapantanir

gudrun hjá andartak.is eða í síma: 8962396