Hver ber ábyrgð á heilsu okkar ?

vefureftir Guðrúnu Arnalds

Á seinustu árum hefur verið áberandi vakning varðandi heilbrigði og rækt við líkama og sál.  Fleiri og fleiri eru farnir að vakna til þess veruleika að það erum við sjálf sem berum ábyrgð á heilsu okkar og hversu mjög sem við viljum stinga höfðinu í sandinn og æða áfram eins og við værum eilíf og ónæm fyrir því mikla álagi sem nútímalíf vill verða þá hljótum við fyrr eða síðar að átta okkur – vonandi áður en við erum orðin alvarlega veik.  Ef við verðum veik og erum sæmilega vakandi þá gerum við okkur grein fyrir því að þó við förum til læknis og fáum lyf við því sem amar að þá er það samt ekki læknirinn sem ber ábyrgð á heilsu okkar, heldur við sjálf.  Þetta er sem betur fer aðeins farið að síast inn í vitund fólks en þó er hitt ennþá allt of algengt að fólk leggi bara heilsu sína í hendur læknisins og bíði eftir að batinn verði án þess að breyta neinu sjálft‚ eða skoða hver var aðdragandinn að vandamálinu, hvort sem það er stórt eða lítið.

Ábyrgðin á eigin heilsu
Þeir sem vilja líta í kring um sig og sjá samhengið í hlutunum hafa líka tekið eftir því að fleiri og fleiri leiðir bjóðast sem nokkurs konar aðstoðartæki við að taka ábyrgð á eigin líðan og snúa ferlinu við í átt til vaxandi vellíðunar.  Fleiri og fleiri fara í nudd og líkamsrækt og svo er hægt að læra að hlusta betur á líkamann og tilfinningar sínar, leiðrétta líkamsstöðu og fara í nálastungur til að koma jafnvægi á orkuflæði líkamans.  Hómópatía er ein þessara leiða.  Hún hefur frekar lítið verið kynnt ennþá og þar talar fyrst og fremst jákvæð reynsla fólks sem hefur reynt hana.   Hómópatía eða smáskammtalækningar voru töluvert stundaðar hér á landi áður fyrr og virðist þó frekar á reiki í hugum fólks hvað það sé.  Sumir tengja hómópatíu við grasalækningar, aðrir nefna skottulækningar og enn aðrir hrista hausinn og segja: “Er það ekki bara einhvers konar hjátrú eitthvað skilt því sem sumir kalla heilun?”  Ég hef líka heyrt fólk tala um að hómópatía sé svo lengi að virka.

Hvað er þá hómópatía?
Eitt af grundvallaratriðunum hómópatíunnar er það að öll einkenni sem líkaminn birtir séu merki þess að líkaminn sé að endurheimta náttúrulegt jafnvægi sitt.  Í stað þess að bæla þessi einkenni þarf að sjá þau sem tákn um að sjálfsheilunarkerfi líkamans hafi verið sett í gang.  Þessi einkenni sýna okkur hvernig meðhöndlun líkaminn þarf til að styrkja þessa sjálfslækningu.

Fyrir tvö hundruð árum uppgötvaði Dr. Samuel Hahnemann að efni sem veldur ákveðnum sjúkdómseinkennum (hjá heilbrigðri manneskju) getur ef gefið í mjög smáum skömmtum, ýtt undir og magnað upp þetta heilunarferli sem ónæmiskerfi líkamans hefur þegar hafið. Hómópatía kemur úr grísku orðunum homoios, sem þýðir líkur og pathos sem þýðir að þjást.  Orðið hómópatía var fyrst notað árið 1796 af Dr. Hahnemann.  Hann var að leggja út frá þeirri kenningu að það að taka á sjúkleika með andstæðu sinni (sem þá fólst í að gefa fólki sterk eiturefni eins og kvikasilfur og nú felst í að gefa fólki lyf sem vinna á móti sjúkdómnum, staðbundið)  bæri ekki eins góðan árangur og að meðhöndla líkt með líku og skoða heildarástand líkamans.

Hann komst t.d. að því að efnið kínín sem er notað til að lækna malaríu veldur malaríueinkennum hjá heilbrigðri manneskju.
Hahnemann fylgdi kenningu sinni eftir með erfiðum tilraunum til að finna efni sem nota mætti til að meðhöndla og hjálpa fólki á þennan hátt að endurheimta náttúrulegt heilbrigði sitt.  Við köllum þær remedíur (sem er auðvitað ekki mjög falleg íslenska).  Hann nefndi þessar tilraunir “provings” eða það að sanna efnin, tilraunir sem sýndu hvaða áhrif efnin höfðu á heilbrigðan líkama.  Hann skráði niður óvenjulegar skynjanir og líkamlegar og andlegar upplifanir og einkenni sem efnin komu af stað og einnig heilbrigðar breytingar sem urðu á meðan efnið var tekið inn.

Á undan sinni samtíð
Þrátt fyrir að remedíur Hahnemanns gæfu góðan árangur við illræmdustu smitsjúkdóma þess tíma, kóleru, malaríu, mænuveiki og skarlatssótt og fyrir það var hann vissulega heiðraður af sinni samtíð, voru hann og ört vaxandi hópur nemenda og fylgjenda hans oft lagðir í einelti.

Hahnemann var langt á undan sinni samtíð að mörgu leiti.  T.d. sýnir aðgætni hans og aðferðir við sótthreinsun í kólerufaraldinum 1831 fram á þekkingu hans á tilvist baktería og þeim leiðum sem breiða þær út og var hann þar þrjátíu árum á undan Pasteur og Lister.  Sextíu og sjö árum á undan Koch, lýsti Hahnemann óendanlega smáum, ósýnilegum lífverum, lífshættulegum mannslífi, sem valdi að kólerufaraldinum.  Fimmtíu og fimm árum eftir að Hahnemann var jarðaður 89 ára gamall árið 1843, án þess að það vekti mikla athygli var líkami hans færður í grafreit næst öðrum snillingum í Pére Lachaise kirkjugarðinum.

Útbreiðsla hómópatíunnar í dag
Verk Hahnemanns hafa verið þýdd á tíu tungumál.  Hómópatía er mjög mikið stunduð í Frakklandi, Þýskalandi, Englandi, Hollandi, Grikklandi, Indlandi, Pakistan, Brasilíu, Mexíkó, Argentínu og S-Afríku.  Í Hollandi er hómópatía niðurgreidd af heilbrigðiskerfi ríkisins og um 45% hollenskra lækna telja hómópatíu gefa góðan árangur.  Um 40% frakka hafa notað hómópatískar remedíur og 39% franskra lækna hafa gefið þær.  Í grein í New York Times var sagt að heimsóknir til breskra hómópata fari vaxandi um 39% á ári og 42% breskra lækna vísa sjúklingum til hómópatískra lækna.  Þá má nefna að breska konungsfjölskyldan gengur til hómópata.  Hómópatían á sennilega mestum vinsældum að fagna á Indlandi, en þar eru um 120 skólar sem bjóða upp á 4 ára nám í hómópatíu.

Er hómópatía örugg?
Hinir örsmáu skammtar sem notaðir eru í hómópatíu gera hana mjög öruggt og hættulaust meðferðarform.  Remedía eða útþynnt efni gerir aðeins gagn ef hún líkist þeim einkennum sem viðkomandi hefur.  Ef ekki þá gerist ekki neitt.  Það getur hins vegar verið höfuðverkur fyrir hómópatann að finna remedíu sem líkist manneskjunni í heild.  Víða í Evrópu eru foreldrar duglegir að nýta sér hómópatíu á heimilinu við hina ýmsu daglegu kvilla.  Þegar um er að ræða krónískari vandamál eða eitthvað sem krefst meiri kunnáttu leita þeir á náðir fjölskylduhómópatans.  Hómópatía getur vel gert sitt gagn samhliða lyfjum þó stundum sé hægt að sleppa við að taka lyf vegna hraðrar virkni remedíunnar.

Eyrnabólgur
Eitt af því sem foreldrar eru mest að berjast við í dag eru eyrnabólgur og getur verið afar erfiður þessi vítahringur sem hefst þegar farið er að gefa fúkkalyf og jafnvel setja rör og ekkert virðist duga í sumum tilfellum.  Þarna hefur hómópatían reynst mjög gagnleg og það var einmitt eftir fengna reynslu á því sviði sem undirrituð fór að læra hómópatíu.

Við skulum taka dæmi af tveimur eyrnabólgubörnum til að gefa aðeins mynd af því hvernig hómópati vinnur.  Annað barnið sem við skulum kalla Lísu, er stöðugt að bera höndina upp að eyranu og virðist mjög pirruð og reið.  Auk þess að vera með í eyrunum er hún líka að taka tennur.  Hún er alltaf að biðja um eitthvað og hafnar því svo jafnóðum þegar hún fær það sem hún bað um.  Hún er sveitt og vill helst rífa sig úr fötunum.  Hún grætur ekki beint heldur öskrar hún af reiði.  Hún er verst af verkjunum á kvöldin fram að miðnætti.  Hitt barnið, Einar er frekar lítill í sér, vill bara sitja í fanginu á mömmu sinni og vælir ef hún setur hann niður.  Honum virðist líða betur ef hann er hughreystur og líka þegar hann kemst út í ferskt loft.  Þá kemst hann í betra skap og það virðist draga úr verkjunum.    Verkurinn er ekki alltaf á sama stað og skapið er líka mjög breytilegt.   Úr eyranu vellur grænn gröftur og það ber mest á einkennunum ljósaskiptunum á morgnana og á kvöldin.  Þegar hún er spurð um matarvenjur hans segir hún að hann sé mjög sólginn í smjör og vilji helst háma það í sig úr skeið.  Annað sem er frekar óvenjulegt við  Einar er þurrkur, t.d. þurrar varir en enginn þorsti.  Þarna myndi greiningin fyrst og fremst vera út frá skapeinkennum en öll hin einkennin skipta líka máli við að greina á milli.  Lísa myndi fá remedíu sem heitir Chamomilla og Einar myndi fá Pulsatillu.  T.d. myndi hómópatanum ekki detta í hug Chamomilla ef barnið væri rólegt og yfirvegað.  Báðar eru þær búnar til úr blómum en myndin sem þær lýsa eru 2 gerólík börn sem eiga það eitt sameiginlegt að vera með eyrnabólgur.

Remedía er mynd af manneskju
Þessar remedíur eru báðar tvær mjög mikið notaðar við ýmsar aðstæður,  t.d. er algengt að barn fari inn í “Chamomillumynd” þegar það er að taka tennur og  þá eru venjulega allir á heimilinu komnir með tappa í eyrun og foreldrarnir farnir að hugleiða ættleiðingu. Kona sem er að fæða og er orðin ofurnæm fyrir sársaukanum og farin að öskra; “Vill einhver slökkva á þessum kvölum í smá stund?”  Hún er líka að tjá þessa sömu mynd og  smáskammtur af Chamomillu myndi vera betri en deyfing og mun hollari fyrir bæði móður og barn.  Pulsatilla getur líka komið að gagni í fæðingu ef t.d. hríðirnar eru óreglulegar og ekki nógu kraftmiklar, þ.a. ekkert gengur.  Þá myndum við líka leita eftir svipuðum einkennum og  nefnd voru hér að ofan.  Er hún lítil í sér eða viðkvæm?  Vill hún hafa gluggana opna?  Er hún ekki þyrst?  Ef heildarmyndin fellur saman við Pulsatillu myndi hún ýta við líkamanum þ.a. annað hvort myndi fæðingin fara að ganga eða hríðirnar myndu hætta um tíma þar til konan væri raunverulega tilbúin.  Ekki þarf að taka fram að remedían væri með öllu skaðlaus fyrir bæði móður og barn og hjálpaði bara til við að gera fæðinguna auðveldari og ánægjulegri reynslu.  Þannig getur hver remedía hjálpað við margar mismunandi aðstæður en grunneinkennin eru alltaf þau sömu.

Hvar hefur hómópatían reynst vel?
Hómópatía hefur gefið góðan árangur gagnvart óteljandi kvillum eins og magabólgum, ristilkrampa, blöðrubólgu, meðgönguógleði, tannrótarbólgu, tannholdssýkingum og ígerð af ýmsum toga, hósta, svefnleysi, lesblindu, vandamálum varðandi brjóstagjöf, óreglu á blæðingum og fyrirtíðaspennu.  En einnig meira langvarandi vandamálum eins og þunglyndi, fæðingarþunglyndi, migrene, svefnleysi, síþreytu, sorg, fóbíum, kvíða, asthma og ofvirkni hjá bæði börnum og fullorðnum svo eitthvað sé nefnt.  Vegna þess hve hún er hættulaus er hún verðugur kostur að athuga nú þegar við erum farin að sjá hvers konar vítahring langvarandi lyfjagjöf getur valdið.

Lokaorð
Hómópatía er vaxandi vísindagrein og ég er þess fullviss að hún á eftir að auka heilbrigði landsmanna til muna eftir því sem orðspor hennar eykst og fleiri fá að kynnast þeim góða árangri sem hún getur borið.  Ég er ekki að halda því fram að hér sé einhver töfralausn við öllu sem amar að.  Hér er ekki komið meðal við lífinu.  Ég vil frekar undirstrika að hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin heilsu og læra að hlusta á líkamann og sjálfan sig af skynsemi og kærleika.  Það eitt getur valdið byltingu í heilbrigðismálum.