Jóla jóga

Eins og jólin eru yndislegur tími þá fylgir þeim líka mikið álag og steita. Hér má finna áhugaverða fræðsluþætti um jóga og verkfæri úr jógafræðunum sem geta nýst vel í jólamánuðinum. Þættirnir voru gerðir í samvinnu við Heilsubankann.

Hamingja á Aðventu
 

Að upplifa töfrana
Hér kennir Guðrún okkur stutta hugleiðslu sem heitir Friðsælt hjarta. Við getum gripið til hennar þegar hugurinn er tættur og á yfirhraða, til að ná betri ró og safna okkur saman, til að vera til staðar í núinu. Þannig getum við til dæmis komið róleg og endurnærð inn í samveru með börnunum okkar, í stað þess að koma eins og stormsveipur og með þá orku að það þurfi að hasta öllu og koma hlutunum frá, hvort sem það eru þrifin eða ánægjuleg samverustund yfir piparkökubakstrinum.

Vinnum gegn streitu
Í þessu innslagi leiðir Guðrún okkur í gegnum góða öndunaræfingu sem hjálpar okkur við að vinna gegn streitu. Það hlýtur að vera kærkomin gjöf á aðventu að fá hjálpartæki til að auka ánægju og vellíðan og sem gera okkur jafnframt færari um að vera til staðar fyrir okkur sjálf og aðra í kringum okkur.

Styrkjum taugakerfið
Við höldum áfram að skoða hvernig jóga getur nýst okkur í að takast á við álag og streitu eins og gjarnan vill verða á tímum eins og aðventunni.

Í þessu innslagi fjallar Guðrún um taugakerfið og hvernig okkur hættir til að yfirspenna kerfið sem getur leitt til orkuleysis, við verðum útsettari fyrir veikindum og getum jafnvel þróað með okkur alvarlega sjúkdóma.

Það er því mikilvægt að kunna leiðir til að vinna gegn þessu og kunna leiðir sem styrkja taugakerfið, draga úr afleiðingum streitu, hægja á og næra okkur.

Guðrún kennir okkur hér öndunaræfingu sem bæði getur hjálpað okkur að ná okkur í aukna orku, hjálpað okkur að skýra hugann og um leið hjálpar hún okkur við að ná í aukið jafnvægi og slökun.

Með notkun þessara verkfæra sem Guðrún kennir okkur í þessum innslögum náum við vonandi að njóta betur aðventunnar og jóla, náum að fjölga ánægjustundum og drögum úr streitu og vanlíðan – gleðjumst saman og njótum.

 

Jóla Jóga – aukin orka og minni kvíði
Í þessu innslagi bendir Guðrún Darshan jógakennari okkur á aðferð til að auka orkuna okkar og hlaða batteríin, til að vera fær um að takast á við það aukaálag sem aðventan ber með sér.

Guðrún talar um að hún heyri fólk gjarnan tala um að það hafi ekki tíma til að ástunda jóga en hún segir okkur jafnframt að það þurfi ekki að vera tímafrekt eða flókið – það getur breytt gríðarlega miklu að stunda jóga eingöngu í 3 til 5 mínútur á dag. Einnig er hægt að grípa til verkfæra jógafræðanna í ákveðnum aðstæðum þó við séum ekki að stunda jóga dags daglega.

Guðrún kennir okkur í dag undirstöðuna í svokallaðri Eldöndun, en hún vinnur vel með taugakerfinu, bæði styrkir það og róar. Einnig vinnur þessi öndunaræfing vel gegn kvíða.

Nú er bara að taka sér þrjár mínútur og sjá hvernig hún virkar fyrir ykkur – það getur verið dýrmætt að búa yfir slíku tæki á tímum orkuleysis og síþreytu.


Jóla jóga – gæðastundir með börnunum
Aðventan er tími barnanna og flest ætlum við okkur að fjölga samverustundum með börnunum okkar eða barnabörnum á þessum árstíma. En oft er vandsnúið að finna tíma fyrir þessar samverustundir og við tökum jafnvel streituna og hraðann inn í þessar stundir sem getur orsakað spennu og stjórnleysi.

Jóga getur verið jafnt fyrir börn og fullorðna og víða er farið að bjóða upp á tíma í barnajóga. Í þessum þætti leiðbeinir Guðrún okkur með hvernig við getum notað jógað til að eiga skemmtilega stund með börnunum og hvernig það getur nýst í því að skapa friðsælt og gleðilegt rými áður en við byrjum til dæmis á bakstrinum eða jólaföndrinu með börnunum.

Gleðilegar barnvænar stundir