Djúpslökun og hugleiðsla

9f253b65877276daad73d935f4e0d222Námskeið með áherslu á að endurnærast og kynnast töfraheimum hugleiðslu og kyrrð hugans.

Nýtt 8 vikna námskeið hefst mánudaginn 11. september. Mánudaga kl 19 – 20. Kennari: Guðrún Darshan.

Skráning: Skráningarskjal
Nánari upplýsingar:
gudrun@andartak.is / 8962396
Verð:
19.500 – hægt er að skipta greiðslum í tvennt

Á þessu námskeiði ætlum við að njóta þess að vera leidd inn í djúpa og endurnærandi slökun og gefum þannig líkamanum færi á að græða sig sjálfan og finna farveg fyrir orkuflæði þar sem stíflur hafa myndast. Við hugleiðum – ýmist liggjandi eða sitjandi (þeir sem vilja geta setið á stól) og finnum þannig þennan friðsæla hluta af okkur sjálfum og gefum honum rými til að vaxa og dafna.

Við byrjum tímann á mjúkum teygjum og förum síðan í langa slökun og hugleiðum á eftir. Námskeiðið er ætlað bæði fyrir vana og óvana.

Birtingarmyndir streitu eru mismunandi og flest okkar glímum við afleiðingar streitu á einhverju sviði í lífi okkar. Langvarandi streita getur haft mjög djúpstæð áhrif á heilsu okkar og samskipti, hæfileikann til að einbeita sér og njóta lífsins. Hún getur orðið til þess að við gleymum því hvernig á að slaka á og vera til staðar hér og nú.

Regluleg iðkun á djúpslökun og hugleiðslu hefur reynst vel til að vinna gegn streitutengdum einkennum eins og svefnleysi, of háum blóðþrýstingi, kvíða og þunglyndi, höfuðverkjum, einkennum breytingarskeiðs og ýmis konar bólgutengdum einkennum í líkamanum..

kudungurUmsagnir af síðasta slökunarnámskeiði:

Þegar ég skráði mig á námskeiðið hjá Guðrúnu, yoga nidra slökun var ég búin að prófa þó nokkur námskeið í þessum fræðum. Ég var í sjálfsleit og hjálp eftir innri ró eftir mjög erfitt ár bæði  tilfinningalega og andlega.
Það eru einhverjir töfrar sem leggjast yfir mann á þessu námskeiði, ókunnur hópurinn virkaði samstilltur frá fyrsta tíma og það fer hæfilegur tími í yoga og nægur tími til slökunar (þetta er ekki svona ,,og svo er smá slökun í endann námskeið,,.)
Leidd slökun hjálpaði mér að finna raunverulega fyrir því hvernig ég get stýrt sjálfri mér inn í slökun og ég held að það sé vegna þess að það er nægur tími til æfinganna. Mönturnar eru líka gott leiðarljós sem ég nota þegar ég þarf á innri ró að halda og minna mig á að ég er hluti af stærra samhengi. Mér líður svolítið eins og ég hafi andað í fyrsta sinn í langan tíma og þar sem ég vinn með börnum á grunnskóla aldri m.a. með slökun fyrir börn með kvíða þá hef ég getað nýtt öndunaræfingarnar í starfi mínu með börnunum og það er frábært.

Guðrún býr yfir þessari töfrablöndu með hugarró en staðfestu sem fæ mann til að vilja ná árangri með sjálfan sig, á sínum eigin forsendum. Kærar þakkir fyrir mig.
Íris Arnardóttir – náms og starfsráðgjafi

Nánar um jóga nidra og hugleiðslu

Jóga nidra er hugleiðsla sem gerð er liggjandi og sem leysir úr læðingi heilunarmátt líkamans í gegnum djúpa slökun niður í þetta ástand sem við þekkjum svo vel milli svefns og vöku. Jóga nidra gefur líkamanum færi á að endurnýjast og leiðrétta þannig áhrif streitu. Þessi áhrifaríka tækni sameinar jákvæð áhrif hugleiðslu og slökunar – auk þess sem við getum búið okkur til ásetning sem vex og dafnar innra með okkur og birtist smám saman í lífi okkar. Eins og að sá fræi í vitundina og leyfa honum að vaxa upp og blómstra í lífi okkar.

Hugleiðsla er tími með okkur sjálfum, til að endurnærast, finna kyrrðina hið innra og hlusta á sálina. Tími til að hlusta, finna aftur taktinn innra með okkur og gefa heiminum fyrir utan frí á meðan. Hún kennir okkur að styrkja hlutlausa hugann svo við getum betur valið viðbrögð okkar og haldið í æðruleysið þegar á móti blæs. Hugleiðsla er eins og að fara í bað, hún hreinsar undirvitundina, beinir athygli okkar inn á við, inn í andartakið og færir okkur frið.