Mindfulness

Núvitund eða Mindfulness er ein öflugasta leiðin sem þekkist í dag til að vinna á streitu og auka vellíðan og hamingju í daglegu lífi. Streita er talinn helsti heilsuvandi Vesturlandabúa um þessar mundir þar sem hraði, hugarvíl og margskonar áreiti einkenna líf okkar flestra (sbr. Alþjóða heilbrigðisstofnunin).

NÚVITUND er meðvitað ástand um sjálfan sig og umhverfi sitt á líðandi stund í vinsemd og sátt.  NÚVITUND miðar að því að losa okkur undan valdi hugans og efla sjálfsvitund og sjálfsvinsemd.

mindfulness - mindfull

Á ensku er talað um Mindfulness en á íslensku er ýmist notuð orðin “núvitund” eða “gjörhygli”, en í raun þurfum  að bæta “sjálfsvitund” við til að nálgast merkinguna enn betur.

Núið er allt sem við eigum

Lífið er í raun samsett úr augnablikum sem við getum kallað núið.  Ef við erum ekki í núinu erum við ekki til staðar í lífinu okkar. NÚVITUND merkir í raun að vakna til meðvitundar um okkur sjálf og lífið á líðandi stund.

Við lærum að við getum valið hvert við beinum athygli okkar, hvort við fylgjumst með huganum eða dveljum með skynjun okkar og upplifun.  Hugurinn reynist mörgum harður húsbóndi og fyrir marga er það mikil uppgötvun að geta fjarlægt sig frá huganum og geta fylgst með hugsunum sínum án þess að láta þær ná tökum á sér.

Hugurinn hefur nefnilega tilhneygingu til að fara með okkur á flakk um fortíð og framtíð – að meta, flokka, skilgreina og skipuleggja.  Á meðan líður lífið hjá án þess að við tökum eftir ævintýrunum sem eru í boði innra með okkur og allt í kringum okkur.

Austræn heimspeki í vestrænum búningi

NÚVITUND á rætur að rekja til Búddisma en vestræn vísindi hafa tekið þessa nálgun upp og aðlagað að vesturlandabúum. Núvitund er nú notuð markvisst sem aðferð til að auka vellíðan, árangur og heilbrigði.  Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á gildi ástundunar og er aðferðin nú samþykkt af vestrænum vísindum (Mainstream medicine).

Núvitund í daglegu lífi?

Afstaðan sem NÚVITUND miðlar býður uppá aukna skynjun, sjálfsvinsemd, auðmýkt og kærleika. Hugarfarið reynist mörgum okkar erfitt og flest okkar eru að glíma við mikla sjálfsgagnrýni og neikvæðar hugsanir.  Líðan okkar mótast mjög af hugsunum okkar og því er mikilvægt að kunna að losna undan valdi hugans og skynja sjálfan sig og lífið í vinsemd og sátt.   NÚVITUND vinnur þannig beint og óbeint gegn streitu, hugarangri og gremju í daglegu lífi.

Höfundur greinar er Ásdís Olsen Núvitundarkennari.