Leiðbeiningar fyrir kennsluáætlun

Ætlast er til að nemendur geri tvær kennsluáætlanir:

  1. Átta tíma byrjendanámskeið
  2. Sex tíma sérhæft námskeið – má vera eitthvað sem er á ykkar áhugasviði – td námskeið fyrir konur / karla / börn, námskeið fyrir hjartveika,  líkamarnir tíu, orkustöðvarnar, jóga fyrir eldri borgara, sterkara bak osfrv. Til dæmis var námskeiðið sem tveir nemendur kenndu fyrir tveimur árum: “Styrkjum miðjuna” – afrakstur af þessu verkefni hjá annarri þeirra.

Þetta verkefni getur svo nýst ykkur þegar þið farið að kenna. Þið skuluð hugsa það eins og undirbúning fyrir fyrsta námskeiðið sem þið ætlið að kenna.

Listinn hér að neðan er til að gefa ykkur hugmynd um hvernig þið getið byggt upp verkefnið. Það er ekki endilega nauðsynlegt að allir þessir þættir komi fram. Sumt af þessu erum við búin að fara í og annað verður farið í seinna – svo þið skuluð bara hugsa um að byrja á því sem þið þekkið. Og bæta svo smám saman við verkefnið.

Í verkefninu þarf að koma fram:

1. Uppbygging jógatímans. Það er alltaf svipað form á tímunum. (sjá hér)

2. Upphitunaræfingar og eða öndunaræfingar: Ef þið ákveðið að gera upphitun – sem getur verið ágætt – sérstaklega á byrjendanámskeiði. Og velja þá svona tvær-þrjár æfingar sem undirbúa nemandann best fyrir kríuna sem þið eruð að fara að gera. Það er líka mjög gott að byrja tíma á öndunaræfingum.

3. Kría sem þið veljið að kenna í hverjum tíma. Það er ágætt að skrifa þær niður svo þið munið þær. Og líka gott að þýða þær – það hjálpar ykkur þegar þið kennið þær. Þið þurfið að hugsa í byrjendaverkefninu að velja kríur sem henta byrjendum og að smá bæta við – að auka erfiðleikastigið hægt og rólega. Það er í kríukennslubókinni ykkar til dæmis listi yfir kríur sem henta vel fyrir byrjendur. Það er líka hægt að velja tvær stuttar kríur og gera þær hvora á eftir annarri.

4. Hugleiðsla. Þar gildir það sama- gott að skrifa þær niður og þýða. Og gott að velja hugleiðslur sem henta byrjendum. Taka fram hvað þið ætlið að hafa hugleiðsluna langa.

5. Fræðsla: Auk kríunnar er yfirleitt einhvers konar fræðsla og innblástur í hverjum tíma. Á byrjendanámskeiði förum við að sjálfsögðu í grunnatriði kundalini jóga – svo þið þurfið að byrja á að sigta út hvað ykkur finnast skipta máli að fræða byrjendur um – hvað ykkur finnst búa þau best undir áframhaldandi ástundun kundalini jóga. Á sérhæfða námskeiðinu þurfið þið að ákveða hvernig þið getið komið efni námskeiðsins best til skila – og laga fræðsluna að því.

Dæmi um grunnatriði í kundalini jóga: Fræðsla um hvað kundalini jóga er, að kenna langa djúpa öndun, líkamsbeiting og mikilvægi naflans og því að tengja við “ræturnar” og jörðina.

6. Uppsetning verkefnisins: Það er gott að setja það upp með forsíðu og svo efnisyfirliti. Þannig að sá sem fer yfir verkefnið geti fyrst fengið yfirsýn yfir hvernig þið hugsið námskeiðið ykkar.

7. Undirbúningur kennarans: Það væri líka gott að láta koma fram aðeins um bakgrunninn: Hvernig undirbýrð þú þig undir að kenna kundalini jógatíma? Hvernig fötum klæðistu? Osfrv.

8. Rýmið – hvernig hugsið þið ykkur að undirbúa rýmið fyrir tímann.

9. Tónlist – ætlið þið að nota tónlist? Og ef svo er hvaða tónlist?

Þeir sem velja að gera Seva verkefni geta svo notað byrjendaverkefnið á námskeiðinu sem þeir kenna.

Nánar um byrjendanámskeiðið: Þið skuluð hugsa það sem uppbyggingu á fyrsta námskeiðinu sem þið kennið.  Þið getið byrjað á að búa til lista yfir það sem ykkur finnst mikilvægt að komist til skila á byrjendanámskeiði.  Hvað finnst ykkur mikilvægt að þau fái upplýsingar um og að þau tileinki sér – svo þau fái meira út úr iðkuninni?  Hvað hjálpaði ykkur að vita – hvað fannst ykkur að kennarinn hefði mátt segja sem hefði hjálpað ykkur enn betur í ykkar iðkun? Hver eru aðalatriðin sem nemandi þarf að vita í upphafi?  Svo setjið þið upp hvern tíma fyrir sig: Hvað ætlið þið að tala um í þessum tíma – hverju ætlið þið að bæta við kríuna?  Td. löng djúp öndun / eldöndun / um lokurnar / um möntrur osfrv.  Hvernig ætlið þið að kenna þeim það sem þið völduð að kenna í þessum tíma?  Hverju ætlið þið að bæta við sem veitir þeim innblástur?  Hvaða æfingar veljið þið að gera í upphitun? Hvaða kría?  Hvaða hugleiðsla? Hversu löng slökun? .. osfrv.  Og muna að tengja inn og út og útskýra það.

Framhaldsnámskeiðið: Hér þurfið þið að gefa námskeiðinu nafn eða amk segja hvað þið ætlið að fjalla um á námskeiðinu. Og svo getið þið leikið ykkur – eins og hér að ofan með þær upplýsingar sem þið bætið við kríurnar og hugleiðslurnar.