Skyndi-endurnæring

Það getur verið átak að sleppa gömlum ósiðum sem þjóna okkur ekki.  Þá er mikilvægt að setja nýjar og jákvæðar venjur í staðinn. Oft er ágætt að byrja smátt og byrja á einni nýrri venju sem nærir okkur og styrkir. Og þannig komum við okkur smám saman upp seríu af venjum sem styðja okur í að næra okkur og velja það sem lyftir okkur upp. Hér á eftir fylgja nokkrar hugmyndir að daglegri iðkun – sem ekki þarf að taka langan tíma – þrjár mínútur á dag gera heilmikið gagn.  Þegar við komum okkur upp einni nýrri venju þá fylgja margar í kjölfarið.
Í kundalini jóga er mælt með að velja sér eina hugleiðslu og gera á hverjum degi í 40 daga.  Ef maður missir úr einn dag þá byrjar maður upp á nýtt.  Þannig er líklegra að við höldum okkur við þessa nýju venju án þess að missa úr dag.  Það er nefnilega þannig að um leið og svona ný venja eins og hugleiðsla er rofin þó ekki sé nema í einn dag – þá eru meiri líkur á að við hættum alveg.  Því gamli veruleikinn okkar er svo fljótur að taka aftur yfir.
En hér eru nokkrar hugmyndir til að velja úr:
1. Baksveigja.  (Kamelreið).  Sittu með krosslagða fætur.  Gríptu um ökklana með báðum höndum.  Andaðu að, sveigðu bakið fram og ruggaðu þér fram á setbeininu.  Andaðu frá, sveigðu bakið aftur og ruggaðu mjöðmum aftur.  Haltu höfðinu beinu og handleggjum nokkuð beinum og slökum.  1-3 mín
2. Víxlöndun -settu þumalfingur á hægri nös og andaðu inn um vinstri nös, og settu svo baugfingur / vísifingur á vinstri nös og andaðu út um hægri.  Og svo áfram: inn um hægri og út um vinstri og svo áfram til skiptis. 1-3 mín. 
3. Eldöndun er ein af undirstöðum kundalini jóga. Hún er gerð með því að pumpa naflanum inn og út og anda um leið nokkuð hratt um nefið.  Sittu bein-n í baki og lyftu upp í brjóstið. Andaðu inn og niður í kviðinn og andaðu frá og kipptu naflanum snöggt inn og upp.  Þegar þú hefur náð góðri þjálfun í eldöndun er hún gerð frekar hratt og snöggt.  Sjá myndband með kennslu í eldöndun hér – með jógastöðumeistaranum Guru Prem Singh. Eldöndun hreinsar lungu, slímhimnu, blóð og aðrar frumur. Hún víkkar lungnaþanið og eykur lífsorku. 1-3 mín
4. Strekkjarinn.  Liggðu á bakinu með handleggina með hliðunum.  Lyftu höfðinu og fótunum 15 sm frá gólfi, lófarnir vísa saman yfir lærum með 15 sm millibili til að byggja upp orku yfir naflapunktinum.  Réttu úr tánum, horfðu á og yfir tærnar og gerðu eldöndun.  1-3 mín. Strekkjarinn gefur okkur aðgang að orkuuppsprettunni sem við geymum á naflasvæðinu – svo við þurfum ekki að ná okkur í gerviorku til að koma okkur í gang – eins og til dæmis með því að fá okkur kaffi eða sykur.  Öflugur nafli kennir okkur rétta líkamsstöðu og færir okkur sjálfstraust og sjálfsaga.
5. Hugleiðsla fyrir friðsælt hjarta – sjá hér