Með óttann við stýrið

Eftir Guðrúnu Arnalds

Ég hef lent í því tvisvar sinnum með stuttu millibili undanfarið að vinir og samstarfsmenn missa skap sitt við mig. Þetta er eitt af því sem ég hef aldrei alveg lært að glíma við. Nú er eins og umhverfi mitt hafi ákveðið að kenna mér þessa lexíu. Sennilega upplifa báðir aðilar ótta við þessar aðstæður. Annar ótta við reiði hins og hinn ótta við að vera á einhvern hátt hafður undir. Annars færi hann ekki að verja sig svona harkalega.

Kapphlaupið við að finna ekki
Ég fór að velta því fyrir mér hversu mikið við látum óttann stjórna okkur. Við finnum hann kannski ekki alla daga en hann er fljótur að segja til sín þegar við þurfum óvænt að horfast í augu við hvað allt er breytingum háð. Allt í einu kemur kvíðahnútur í magann og hugsanirnar verða órólegar. Við erum hrædd við að eldast, við að verða veik, við að deyja, hrædd við tilfinningarnar okkar og við okkur sjálf. Við erum hrædd um að vera ekki elskuð, við að missa öryggið sem við búum okkur til og við erum hrædd við að lifa lífinu til fulls. Við setjum mikla orku í að fyrirbyggja og negla fyrir götin. Kaupa okkur dýr hús, lita gráu hárin, selja öðrum ímynd okkar með því að vera í réttum fötum, fara út á lífið til að finna ekki hnútinn í maganum. Við reynum að hafa stöðugt nóg fyrir stafni. Því meira sem við teljum okkur trú um að við séum ekki hrædd, þeim mun lengra færumst við frá innsta kjarnann í sjálfum okkur. Þannig er það með allar tilfinningar. Því meira sem við afneitum eða forðumst að finna þær sem við köllum neikvæðar tilfinningar, því minni verður hæfileiki okkar til að njóta og finna til gleði. Og samfélagið styður okkur í þessum flótta frá því að finna til og horfast í augu við hverfulleikann. Okkur er boðið upp á ótal leiðir til að stytta okkur stundir svo við þurfum sem minnst að vera með okkur sjálfum.

Jóga, hugleiðsla, líföndun
Af þessum sökum finnst mér ómetanlegt að eiga aðgang að leiðum sem minna mig á hvað það er sem skiptir máli. Tæki eins og jóga, hugleiðsla og líföndun hafa aftur og aftur hjálpað mér að finna taktinn minn þegar ég hef tapað honum, að skilja betur hvernig mér líður. Við getum oftast nær ekki stjórnað aðstæðunum en við getum valið hvernig við bregðumst við. Flestir hafa heyrt minnst á jóga og hugleiðslu. Í jóga, auk þess að styrkja líkamann og teygja á honum erum við líka að koma jafnvægi á innri starfsemi líkamans og næra andann. Þess vegna er jóga svo heilsteypt líkamsrækt. Í hugleiðslu getum við horft á það hvernig hugurinn heldur okkur föngnum og hvernig handan hans er kyrrð sem er alltaf nálæg. Líföndun er leið til að vinna úr tilfinningum sem sitja eftir innra með okkur, leið til að losa um spennu og auka lífsorkuna. Hún tengir mig alltaf við líkamann, við tilfinningarnar og við núið. Í hvert sinn uppgötva ég að það er miklu erfiðara að forðast tilfinningarnar en að finna þær. Öndunin er beinasta tengingin sem við eigum við líkamann og við núið. Við bælum tilfinningar með því að halda niðri í okkur andanum eða anda grunnt. Við getum líka losað um þær í gegn um andardráttinn. Í líföndun er oft hægt að vinna mjög hratt úr hlutum sem liggja ómeltir og nálgast tilfinningar sem við vissum ekki að við værum búin að grafa.

Hraði og árangur
Mér virðist flestir sem ég þekki búa við mikið álag og hraða. Þá er kannski ekki skrýtið þó margir missi skap sitt og bregðist sterkara við aðstæðum en tilefni gefur til. Við lifum á tímum þar sem það þykir sjálfsagt að lifa hratt og vera þess vegna úr takti við sjálfan sig og umhverfið. Mjög margir virðast sækja líkamsrækt, ekki fyrst og fremst til að líða vel heldur til að líta vel út. Og líkamsræktin verður eins og allt annað eitthvað sem á að gerast hratt og gefa skjótan árangur. Ef við erum úrvinda eftir leikfimitíma, þá hlýtur hann að hafa borið árangur. Hvort líkamsræktin kemur okkur í jafnvægi eftir eril dagsins eða nærir okkur andlega virðist ekki skipta eins miklu máli. Við einbeitum okkur að því að skapa okkur innihaldsríkt líf og gleymum kannski oft að njóta þess. Og í hraðanum gleymum við því að andlegt jafnvægi er undirstaðan, bæði að hamingju okkar og velgengni.

Löngunin til að finna fyrir hamingju
Eitt það fallegasta við okkur manneskjurnar og það sem tengir okkur saman er löngun okkar allra til að finna fyrir hamingju. Við getum valið að rækta fræ óttans í garðinum okkar eða við getum valið að næra það besta í okkur sjálfum. Við eigum alltaf val. Viljum við stækka plássið innra með okkur svo við höfum pláss fyrir meiri gleði í hjartanu? Þá verðum við líka að vera tilbúin að finna til, bæði með sjálfum okkur og öðrum. Ef við gefum okkur tíma til að hlusta á óttann okkar, hlusta á það sem veldur okkur þjáningu, hlusta af öllu hjarta, þá hefur óttinn ekki eins mikið vald yfir okkur. Markmiðið með leiðum eins og þeim sem ég nefndi að ofan er að hjálpa okkur að hefja okkur yfir hversdagsleikann til að geta notið hans betur, að finna fyrir stærri myndinni og vonandi getum við lært að flétta þær á einhvern hátt inn í daglegt líf okkar.